Stefnumörkun 101

Á undanförnum vikum hefur rignt yfir okkur fréttum af landsfundum stjórnmálaflokka, sem eru vissulega forvitnilegar samkomur um margt held ég.

Á nú reyndar eftir að upplifa svona fjöldafundi, stundum á ég erfitt með að fókusera á fundi þar sem eru fleiri en 100 svo ég er ekkert viss um að ég hefði gaman af þeim.

En það er vissulega búið að vera gaman að heyra af niðurstöðum í stefnumörkun framboðanna fyrir kosningarnar í vor.  Ég er auðvitað alls ekki sammála öllu, en sumu að sjálfsögðu.  Enda alveg haugur af hæfileikafólki þegar þúsundir Íslendinga koma saman.  Það er á hreinu.

En ég skil ekki alveg allt.  Ég skil ekki alveg hvernig menn geta staðið og lofað því að kreppan verði búin bráðum eða að ekki verði flókið að leysa mál sem þó hafa verið umdeild í tugi ára.  Ég hef alveg reynt að hlusta eftir því hvaða rök liggja að baki en hef nú ekki heyrt margt sem sannfærir mig.

Aðallega hefur þetta verið: "Treystið okkur, því við erum betri en hinir".

Eínna mest undrandi varð ég að lesa um ályktun í menntamálum hjá flokknum sem var við völd þegar ný lög um leik-, grunn- og framhaldsskóla voru sett.  Já og líka lög um fimm ára háskólanám til kennsluréttinda.  Sem hófst í haust.

Á þessum grunni var byggð námskrá sem var gefin út 2011 og enn er verið að vinna greinanámskrár og ýtarhefti vegna þeirra nýjunga sem þar er að finnaEin nýjungin sem mér finnst spennandi er að koma skal á virkum samráðsvettvangi milli skólastiga.  

Nokkuð sem var ýtt úr vör og fóstrað í tíma Menntamálaráðherra úr röðum þessa flokks sem um helgina ályktaði að nú skyldi kennaranám stytt aftur í þrjú ár og að upp skuli taka samræmd röðunarpróf í 10.bekk.

Ég verð að játa vonbrigði mín með það að ekki sé meira traust á áralöngu og víðtæku samstarfi fólks með öflugan bakgrunn í menntamálum en svo að það eigi nú að slá af.  Rétt á meðan að verið er að prenta síðustu leiðbeiningarnar!

Ég beið enda alltaf með að heyra hvort áðurnefndur fyrrverandi ráðherra tæki  til máls og leiddi samflokksmenn sína í allan sannleikann um þá stefnumörkun sem fór fram og talaði fyrir lausninni sem flokkurinn kom á, en virðist nú vilja snúa niður.

Svo að ef að mælikvarðinn á stefnumörkun er þessi finnst mér ástæða til að óttast um hversu mikið er að marka þær hástemmdu stefnuyfirlýsingar sem berast ótt og títt af landsfundum... 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband