Annáll...þjóðmálin

Þá langar mig aðeins að fara yfir þjóðmálin eins og þau litu út fyrir mér á árinu 2013.

Ég ætla ekki að nota orðið "pólitík" hér því að ég verð alltaf meira viss um það að við eigum helst ekki að nota það orð eða "stjórnmál" í umræðu um það hvað við viljum að löggjafinn skili til samfélagsins.

Það er erfiðara að segja "ég nenni ekki að ræða þjóðmál" heldur en "ég nenni ekki að ræða pólitík".

Er það ekki?

Á árinu 2013 tók ég þá ákvörðun að bjóða mig fram til þess þjónustustarfs sem felst í því að vera þingmaður, tók 4.sæti á lista Bjartrar Framtíðar í kjördæminu mínu.  Sunnudaginn 28.apríl vaknaði ég upp með blendnar tilfinningar.  Var mjög glaður með útkomu okkar á landsvísu, en var óskaplega svekktur að mitt kjördæmi var það eina sem átti ekki BF - þingmann.  Árni Múli vinur minn hefði verið frábær fulltrúi okkar og hann G.Vald ekki síður sem hans varamaður.

En þá það, það sem ekki tókst núna mun takast næst.  Í kollinum hef ég reglulega farið yfir það hvernig við getum náð betri árangri í næstu kosningum, er alveg sannfærður um að þá tekst okkur að eiga BF-þingmann, sem kjördæmið þarf!

En við eignuðumst sex manna þingflokk frábærra einstaklinga.  Sem hafa frá fyrsta degi unnið á þann hátt að ég hef verið mjög stoltur af því að vera með þeim í flokki.  Mínir þingmenn klárlega!

Margir stjórmála- "spekúlantar" hafa átt frekar erfitt með að staðsetja okkur.  Enda ekki algengt að stjórnarandstöðuflokkur standi ekki rauðeygður á móti öllu sem mögulegt er.  Bendi stanslaust á hvað allt sé ómögulegt hjá "hinu liðinu" og telji sig hafa öll réttustu svörin.

Í ofanálag koma með tillögur um "venjulega hluti fyrir venjulegt fólk" eins og að reyna að lengja sólardaginn í þröngum fjörðum landsins og færa frídaga að helgum.

En svona ætluðum við að vera og ég er svo glaður að okkur er að takast ætlunarverk okkar hingað til. Verða flokkur fólks sem telur sig vera að sinna þjónustustörfum fyrir samfélagið, bjóða upp á virk skoðanaskipti, bæði inni á www.heimasidan.is og síðan með því að heimsækja samfélög reglulega og hlýða á raddir þeirra sem þar vilja hefja upp sína raust.

Reyna svo af fremsta megni að skila þeim viðhorfum inn í þingsalinn.

Það er auðvitað engin launung að við höfum m.a. horft mikið til vinnubragða Besta Flokksins í Reykjavík sem hefur reynt að virkja íbúalýðræðið í sínum vinnubrögðum og klárlega fært borgarstjórnina nær hverfum og einstaklingum.

Það var því pínu leitt að sjá Jón Gnarr taka þá ákvörun að stíga úr stól borgarstjóra, en um leið mikil gleði að hann treysti okkur í Bjartri Framtíð til að taka við kyndlinum. Ég er sannfærður um að sá frábæri hópur sem stillt er upp á okkar lista í borginni mun virkilega ná árangri í kosningunum og síðan í störfum sínum í kjölfarið.  Vonandi náum við að stilla upp fleiri listum í sveitarstjórnum og þá alltaf með það að leiðarljósi  að verða tæki íbúalýðræðis og almannahagsmuna.

Þegar ég horfi til baka á árið 2013 og hlutverk þjóðmálanna í því er ég býsna sáttur.  Okkur tókst að eignast hóp á Alþingi Íslendinga og höfum smátt og smátt öðlast traust stærri hóps í samfélaginu. 

Um leið er ég handviss að árið sem er framundan mun verða enn árangursríkara þegar kemur að því að auka áhuga fólks á þjóðmálum og fjölgar í þeim hópi sem telur þau eiga að vera sjálfsagt umræðuefni við öll tækifæri, handviss um það að öll atkvæði séu jafn mikilvæg og fjölbreytileikann eigi að fanga.

Það verður alltaf kjarni BF, bjóða upp á valkost fyrir þá sem eru sammála okkur en líka taka þátt í starfi með þeim sem eru ósammála. Fjölbreytileikinn er málið, en kjarninn er að löggjafinn verði tæki almennings og horft verði til þess að taka ígrundaðar ákvarðanir sem horfa til langtímamarkmiða en forðast að einskorða sig við að slökkva einstaka elda jafnóðum.

Vonandi fjölgar í liðinu okkar, það er algerlega hægt að mæla með því!!!

 

 

Á morgun ætla ég aðeins að leyfa hugrenningum mínum í skólamálum og framtíð þeirra að fljóta á síðunni.  Farið varlega í kvöld elskurnar!!! 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband