Amma á ammæli...

Í dag er hún amma - Hulda Jónsdóttir að halda upp á afmælisdaginn sinn.

Sá er nr. 94 í röðinni og hún heldur upp á það í íbúðinni sinni og hefur allavega hitað kaffi í nýja eldhúsinu, ég spái heimatilbúnu bakkelsi með.

Það er ein af minni mestu lukku í lífinu að fá að hafa átt hana ömmu mína að í þau 44 ár sem ég hef þrammað um grund.  Fyrstu árin að mestu í hennar faðmi en áfram að hluta eftir að ég flutti með pabba og mömmu fyrst á Blönduós og svo austur.

Þegar ég hugsa hvað hún hefur mest kennt mér þá kemur upp í huga mér iðni, yfirvegun og traust.  

Hún amma er iðnasta kona sem ég hef kynnst (no offence allar hinar konurnar mínar).  Hún hefur einfaldlega alltaf verið að allt frá því ég man eftir henni fyrst, hún fékk ekki laun í peningum og örugglega ekki nóg í þakklæti fyrir sín störf en ég vona að mér hafi tekist að segja henni í gegnum tíðina hversu stórt hlutverk hún átti í minni veru á Sauðanesinu okkar góða og síðan eftir að hún flutti suður með honum afa fyrir alveg fullt af árum.

Hún hefur alltaf yfirvegaða áru.  Að sjálfsögðu með skap en alltaf hefur hún haldið sínum dampi hvað sem á hefur gengið í þeim sjógangi sem á stundum hefur verið í kringum okkur ættingjana hennar.

Hún er táknmynd trausts í mínum kolli.  Síðkvöldin á Sauðanesi þegar hún stappaði stálinu í lífhræddan og stundum óöruggan Magga með mjólkurglasi og kringlu þegar margir voru sofnaðir eru mér dýrmæt minning.  Í tveimur stærstu áföllum lífs míns gat ég leitað til hennar og talað við hana á þann hátt sem ég þurfti.  Vonandi tókst mér eitthvað að lina hennar þraut þegar hún mamma mín kvaddi.  Ég veit hún linaði mínar þrautir þá.

Miðað við hversu fersk og flott hún amma mín er þá á ég eftir að fá að njóta samvistum við hana um langa hríð enn.

En mig langar til að segja þér það líka á netinu amma mín, því þar ferðu um víddir, hversu mikið ég er stoltur af þér og elska þig heitt!

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband