Heiðarleiki og hinn eini sanni tónn?

Hef spjallað oft og stundum mikið við menn sem unnið hafa og/eða vinna á Alþingi Íslendinga.

Hef haft gaman af því að spyrja menn út í einstaklinga sem þar vinna, óháð flokkapólitík.  Einfaldlega hvernig starfsmenn við höfum í vinnunni fyrir okkur.

Tveir einstaklingar standa þar uppúr mínum samtölum varðandi heiðarleika og fagmennsku.  Einhvernveginn svona "traustir gæjar" óháð skoðunum.  Þau nöfn eru Geir H. Haarde og Steingrímur J. Sigfússon.

Í þeim ólgusjó sem skyndilega er fokinn af stað aftur hef ég reynt að lesa töluvert eftir Geir á meðan á rokinu stærsta stóð og síðan það sem Steingrímur hefur sagt frá því að hann komst til valda.

Svo hlustaði ég á frábæran Silfur Egils þátt áðan og hef einmitt síðan verið að velta nákvæmlega fyrirsögn á þessari frétt.  Við erum held ég öll sammála um það að verið er að fara illa með íslenska þjóð.  Vandinn snýst fyrst og fremst í málatilbúnaðinum.  Eva Joly og örugglega allir hinir sérfræðingarnir hafa rétt fyrir sér um ósanngirni Breta og Hollendinga.  

Hausverkurinn nákvæmlega núna er að ekkert hefur enn heyrst opinberlega frá viðsemjendum okkar í IceSave, því við samþykktum fyrir löngu að við gengjumst í ábyrgð.  Bjarni Benediktsson skrifaði uppá það fyrstur manna, þó hann sé kominn langt frá því nú þessa dagana.

Ég segi enn og aftur að ég myndi vilja heyra rödd Geirs H. Haarde og jafnvel betur í Ingibjörgu Sólrúnu næstu dagana, fá þeirra mat á því hvað réttast væri að gera.

Ingibjörg talar um nýja samninganefnd.  En er ekki staðreyndin sú að Bretar og Hollendingar verða að samþykkja að ganga til nýrra samninga?  Þá er ég ekki að meina dálkahöfundana eða fréttahaukana.

Heldur stjórnmálamennina?

Hitt er svo það að kannski leiðir þetta mál af sér hugarfarsbreytingu og jafnvel stóra tilfærslu í lýðræðinu.  Ég held að tími "átakastjórnmála" sem flokkar heyja sé að verða liðinn.  Það sést held ég best í sveiflum á skoðanakönnunum að undanförnu að "hirðir" flokka og skoðana eru færri og stöðugt fleiri einstaklingar lesa stjórnmál út frá sínum eigin hagsmunum.

Það hillir undir það að þjóðin neiti að staðfesta lög Alþingis í fyrsta sinn.  Þar færi sögulegur viðburður sem hlýtur að leiða til þess að málskotsréttur forsetans hefur sannað sig og því fullkomlega ljóst að hann er ekki hægt að fjarlægja úr stjórnarskrá nema að svipað skýr kostur liggi til grundvallar þess að almenningur fái að stöðva Alþingi Íslendinga ef þeim finnst þingið ekki vinna samkvæmt sínum hagsmunum.

Mér finnst þessi bylgja vera að fara í gang og gaman væri að heyra hvort fleiri finna þetta.  Ég vill ekki meina það að þetta komi til vegna vantrausts á flokkana eða þingmennina beint, heldur það að fólki finnst því nú best komið með að fá beina leið að ákvörðunum þjóðarinnar og þarmeð völdunum.

Ég er ekki viss um að stjórnmálamennirnir okkar séu að skynja þetta, enda kannski ekki rétt hjá mér, því að mér finnast enn ansi margir stjórnmálamenn, ekki síst leiðtogarnir, tala út frá því að flokkar tali sem ein heild í þessu máli og allir séu sammála um hagsmuni landsins í flokkunum.

Ekkert gæti verið fjarri sannleikanum.  Ég er sannfærður að þjóðaratkvæðagreiðslan verður ekki á flokkslínum og mér fannst satt að segja skrýtið að heyra Bjarna Benediktsson biðla til Sjálfstæðismanna að fella lögin í þjóðaratkvæðagreiðslunni.  Er bara alls ekki viss að það verði honum eða málstað hans til góða.  

Því ég held að við séum að finna hinn sameiginlega tón, þ.e. Íslendingar.  Sá tónn er að nú vill hinn almenni borgari fá sterkari rödd við stjórn þjóðarinnar og það verður ekki aftur snúið ef að lögin verða felld. 

Með því hefur almenningur tekið fram fyrir hendur starfandi þings og slík skilaboð munu berast um alla heimsbyggðina.  Stjórnmálaflokkar geta þá ekki eignað sér heiður eða óheiður, það verður ekki kosið um annað en vinnubrögð þingsins okkar.

Og það mun valda straumhvörfum í íslenskum stjórnmálum!


mbl.is „Ekki einhliða innanríkismál“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband