Ber er hver að baki nema bróður sér eigi!

Stundum hef ég sagt brandarann um víkingabófana sem flúðu frá Noregi, hirtu sæta fólkið á Bretlandi og skildu þá sjóveiku eftir í Færeyjum áður en þeir urðu besta þjóð í heimi á Íslandi.

Þann brandara hef ég auðvitað alltaf sagt með virðingu fyrir Færeyingum.  Í dag hafa þeir enn sýnt okkur það hversu miklir vinir þeir eru okkur.  Ég man óljóst eftir færeysku sjórunum sem komu í heimsókn til afa og ömmu á Sauðanes og rámar í ferðir oní bátana þeirra á Sigló.  Alltaf komu þeir með beinakexið, hvers bragð ég geymi enn í minningunni og gaman væri að prufa hvort sú minning er ekki enn rétt.

Hvergi í heiminum hef ég komið þar sem betur var tekið á móti mér en í Færeyjum.   Hef tvisvar farið þangað í hóp og þær heimsóknir voru frábærar.  Það er engin klisja að þeir líta á okkur Íslendinga sem stóra bróður sinn og er mikið í mun að okkur líði vel í þeirra hópi.  Sem við heldur betur gerðum í þessum heimsóknum, frosið bros í allar áttir!!!!

Í mínu starfsliði í Snæfellsbæ er mikil, færeysk hetja.  Hann Toggi umsjónarmaður.  Hann bjó til færeyska daga hér í Ólafsvík sem því miður voru skemmdir með drykkjulátum íslenskra ungmenna.  Hann flutti til Íslands ungur en hefur enn brennandi hjarta fyrir landinu sínu.  Hann hefur mikið reynt að efla tengslin milli landanna, en ég hef metið það þannig að stundum höfum við ekki haft tíma til að gera það því okkur lá á að verða stór og höfðum lítinn tíma fyrir litla bróður!  Okkur til vansa.

En ef við rifjum upp viðbrögð þeirra við Vestmannaeyjagosinu, Súðavíkur- og Flateyrarsnjóflóðunum og svo þetta nú hljótum við í framtíðinni að átta okkur á því að þær risaþjóðir sem við höfum boðið í partýið komu bara til að borða snakkið og skemma dótið.  Vinirnir sem sátu kurteisir út í horni og fengu lítið snakk, eða bræðurnir sem fengu ekki að leika sér með, eru þeir sem svo hjálpa okkur nú, buguðum á hnjánum úti í garði, á leiðinni að taka til í húsinu sem er handónýtt eftir veisluna.

Ég faðmaði Togga í vinnunni í morgun og er ákveðinn að fara til Færeyja fljótlega og taka fjölskylduna mína með mér.

Takk Færeyingar, þið eruð allra bræðra bestir!!!


mbl.is Mikill drengskapur Færeyinga
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Jón Snæbjörnsson

Hallur, á sama tima erum við að byggja varðskip í Chile fyrir 5 milljaraða - hvað er rétt að gera ? nota peningana frá Færeyingum í skipið ?

Jón Snæbjörnsson, 29.10.2008 kl. 09:17

2 Smámynd: Jón Snæbjörnsson

á náttúrlega að vert stílað á þig Magnús Þór Jónsson - afsakaðu

Jón Snæbjörnsson, 29.10.2008 kl. 09:19

3 Smámynd: Magnús Þór Jónsson

Ekki málið Jón.

Held að við eigum að standa við að láta byggja þetta skip, hvernig sem við eigum peninga fyrir því.  Er ekkert viss um að miðin okkar séu hólpin og varðskipin okkar eru löngu úrelt!

Auðvitað er upphæðin ekki stór, en færeyska þjóðin er það ekki heldur....

Magnús Þór Jónsson, 29.10.2008 kl. 09:27

4 identicon

Beinakexið er það sem við heima í Færeyjum köllum Skipskeks... Alltaf jafn gott þótt bragðið sé ekki mikið. Það var mikið notað við sjóveiki hér árum áður, en það fæst ennþá í búðunum heima....

Elin Færeyingur (IP-tala skráð) 29.10.2008 kl. 10:06

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband