Smáþjóð í vanda!

Formlega.

Ekki vafi að fjármálaumsýsla ákveðinna einstaklinga hefur nú hent Íslandi ansi aftarlega á vinsældalistum heimsins og sífellt að verða augljósara að lítið er til ráða.

Á undanförnum 20 árum hafa sumir Íslendingar verið uppteknir af heimsyfirráðum, eða allavega því að byggja upp okkar 300 þúsund manna samfélag sem stórþjóð.  Valdhafar og eftirlitsstofnanir ríkisins hafa annað hvort sofið eða einfaldlega verið blekkt til að þegja og láta mennina, "Víkingana" um að vaða yfir heimsbyggðina.

Í gær voru viðtöl við Hollendinga sem þessir menn sviku.  Í dag eru fréttir af 30 þúsund Þjóðverjum sem eru reiðir og voru sviknir.  Hvað verður á morgun?

Það er morgunljóst að sterkustu þjóðir Evrópu hafa tekið ákvörðun um að ganga gríðarlega hart fram og beita öllum aðferðum tiltækum svo að þeirra þegnar sleppi.  Þeim er auðvitað alveg sama um Íslendinga í nútíðinni og framtíðinni.  Skatthlutfall þeirra og eignamissir klagar ekki uppá neinn í þessum löndum og alger staðreynd að við þurfum ekki að reikna með neinu öðru en erfiðleikunum.

En kannski er það ekki skrýtið, þegar við horfum til þess að skilaboðin sem heimurinn hefur fengið frá okkur er að "efnahagsundrið" á Íslandi væri hinn fullkomni sannleikur kapítalismans og allir ráðamenn hafa lofsungið menn sem í dag eru annað tvenna, klaufar með mikilmennskubrjálæði eða hreinir svikarar.  Sem eiga það sameiginlegt með ríkisstjórnum fyrrnefndra landa að vera sama um flest á Íslandi, enda flestir flúnir í öruggt skjól þar sem þeir veita drottningarviðtöl og benda á aðra.

Svarið liggur ekki lengur á hreinu.  Einföldun ráðamanna í upphafi var enn ein tilraun til sögufölsunar og nú þarf að fara að taka til í skápnum.  Blaðamannafundir í Iðnó voru hjóm eitt og uppfullir af draumórum um að allt yrði í lagi bráðum.

Ég held að núna sé að koma í ljós mikilvægi þess að áhersla allra þarf að liggja hjá hinum almenna Íslendingi og leiðarljósið á að liggja í því að hér verði lífvænlegt í framtíðinni.

Sú framtíð verður að byggja á þeirri augljósu staðreynd að við erum smáþjóð, ein sú minnsta í heimi og okkar hegðun verður að vera í samræmi við það.  Við verðum að nýta það sem landið okkar og miðin gefa, fyrirtækin okkar eiga að líta til þess að lifa vel á íslenskum mörkuðum og stjórnmálamennirnir okkar eiga að verða aftur þingmenn fólksins allan sinn starfstíma, ekki bara á meðan prófkjörsbarátta og kosningar eru í gangi.

Víkingar hafa verið eitthvað sem við höfum horft á í ákveðnum ljóma.  Í öðrum löndum voru víkingar mikill óyndisflokkur sem við hefðum sennilega ekki viljað fá í heimsókn.  Sama hefur hent landið okkar núna, flokkur karla hefur farið í mikið strandhögg í Evrópu og rænt þar miklum verðmætum.  Hér heima situr hnípinn og þögull flokkur fólks sem áttar sig ekki á þeirri staðreynd að hugmyndafræði samfélagsins er gjaldþrota eins og flest okkar fyrirtæki og svakalega mörg heimili.

En eins og kotbændurnir í Hrafnkelsdal sem þurftu að taka á sig skelli fyrir Freysgoðann sinn er það nú okkar staða.  Við kotararnir þurfum að fara að sjá aðgerðir sem munu sýna okkur fram á það að verið sé að hugsa til okkar.  Við búum ennþá við ofríki goðanna okkar sem langar að vaða í víking til að verða stórir og fá áheyrn hjá konungum til að lesa þar ljóð!

Því að stórveldisdraumar smáþjóðarinnar hafa orðið ofveðri að bráð, eins og forðum þegar víkingarnir hættu að sigla og fóru að yrkja jarðir Íslands og stunda miðin.  Eftir stendur að við erum smáþjóð í vanda og hér skipta allir máli.  Hver og einn þegn samfélagsins.

IMF er nú vopn kúgaranna, nýlenduþjóðanna eða hvað við viljum kalla þá.  Venjulegir borgarar þessa lands gerðu ekki allir eitthvað af sér.  Standa upp takk, og verja þá!!!!!


mbl.is Afgreiðslu umsóknar frestað
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Vilborg Traustadóttir

Góð grein hjá þer og nú fer að harðna á dalnum hká okkur. Vonandi getum við afþakkað pent þegar þeir verða tilbúnir að veita okkur aðstoð. Við almenningur í þessu lab-ndi hefur ekki til þess unnið að fá svona meðhöndlun hjá IFM. Það er nú heldur ekki eins og það sé berið að gefa okkur neitt þetta eru lán.

Það er skömm að þessari framkomu þeirra við þjóð sem er meðal stofnaðila sjóðsins. Sjóðs sem segir-st ekki blanda sér í pólistísk mál eða deilur einstakra landa.

Vilborg Traustadóttir, 12.11.2008 kl. 16:13

2 identicon

Já nafni nú er þjóð vorri misboðið og landið okkar fagra atað auri. Þeir sem komu okkur í þessa stöðu eru landráðamenn og ber að meðhöndla sem slíka. Hvort sem þeir gerðu eithvað eða létu ógert að bregðast við. Eigi skal þó gráta heldur safna liði. Ég tel fullvíst að með því að losna undan þessu ægivaldi Davíðs, Geirs og allra þeirra sem brugðust yrði viðhorf alþjóðasamfélagsinns strax skárra. Ég mótmælti á austurvelli sl. laugardag. Ég held því áfram. Með vaxandi þunga og..............

Magnús hannibal (IP-tala skráð) 12.11.2008 kl. 23:04

3 Smámynd: Hulda Margrét Traustadóttir

Rétt, maður er reiður og við höfum alla burði til þess íslenska þjóðin að standa upp, heimta svör og mótmæla þessum aðförum öllum ! 

Við viljum svör og nýja ríkisstjórn ! Er þetta ekkert að komast inní hausana á þessum gaurum ?

Hulda Margrét Traustadóttir, 13.11.2008 kl. 10:33

4 Smámynd: Vilborg Traustadóttir

Heyr heyr.

Vilborg Traustadóttir, 13.11.2008 kl. 13:23

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband