Magnús Þór Jónsson
Magnús er fæddur á Siglufirði 14.apríl 1971, bjó þar fyrst um sinn á Sauðanesvita en árið 1976 flutti hann með fjölskyldu sinni austur á Hérað og bjó á Eiðum frá þeim tíma og til ársins 1989, en Örn fósturfaðir hans kenndi í Alþýðuskólanum þann tíma og reyndar áfram.
Á meðan á þessum tíma stóð var Magnús þó alltaf í sumardvöl á Sauðanesi og tengingin norður afar sterk. Hóf að leika knattspyrnu með KS í júlí 1986 og varð sú tenging enn til að styrkja Siglfirðinginn í stráknum.
Flutti suður vorið 1989 og lauk stúdentsprófi frá Flensborgarskóla í desember 1990 og hóf nám í kennaraháskólanum haustið 1991. Bjó á Siglufirði sumrin ' 91 - ´93 og flutti þangað endanlega haustið 1993 og hóf kennslu í Grunnskóla Siglufjarðar haustið 1994 eftir útskrift sem kennari það sumar.
Kenndi á Siglufirði til 1996 en flutti þá á Kjalarnes og kenndi við Klébergsskóla til vors 1998 og lék þau ár knattspyrnu með ÍR. Hóf kennslu við Breiðholtsskóla haustið 1998 og varð deildarstjóri þar haustið 1999 og ákvað þá að hætta knattspyrnuiðkun en einbeitti sér að knattspyrnuþjálfun. Vann við það hjá Val, FH og ÍR. Árið 2006 sótti hann um fékk stöðu skólastjóra í Grunnskóla Snæfellsbæjar og flutti þangað í júlílok það ár. Hætti knattspyrnuþjálfun sem meistaraflokksþjálfari ÍR og endurnýjaði knattspyrnudómaraskírteinið þá um haustið.
Hefur frá hausti 2006 starfað sem skólastjóri og síðan knattspyrnudómari í hjáverkum. Var valinn formaður Skólastjórafélags Vesturlands haustið 2008 og síðan formaður Vinnumarkaðsráðs Vesturlands sumarið 2010. Situr í stjórn Átthagastofu Snæfellsbæjar og er fulltrúi í skólanefnd Fjölbrautaskóla Snæfellinga.
Býr á Helluhól 3 ásamt eiginkonu sinni, Helgu Lind Hjartardóttur, námsráðgjafi við Fjölbrautaskóla Snæfellinga. Tvær dætur þeirra, Sigríður Birta og Sólveig Harpa búa með þeim þar en dætur Magnúsar úr fyrra sambandi, þær Thelma Rut og Hekla Rut dveljast þar líka langdvölum.
Í febrúar 2011 var Magnús valinn í stjórn hjá stjórnmálasamtökunum Bjartri Framtíð og í lok árs 2012 var tilkynnt að hann tæki fjórða sæti á lista flokksins í Norðvesturkjördæmi í alþingiskosningum árið 2013.
Magnús hefur lengi haft brennandi áhuga á samfélagsmálum og lífsskoðanir hans eru að samvinna og samráð séu lykilatriði í uppbyggilegu lífi hjá einstaklingum, hópum og þjóðum.
Hann vonast til að bloggsíðan hans muni varpa ljósi á mikilvægi þessara þátta og er þá til einhvers unnið!