Kosningar 2016 nr. 2: Mín sýn

Jæja.

Ekki varð nú kosningabloggið í mörgum köflum, lífið sá svolítið um það með ansi mörgum skemmtilegum verkefnum sem komu í veg fyrir það að tími ynnist til að færa í stafrænt form hugsanirnar sem farið hafa um hugann í kosningabaráttu sem því miður hefur stundum farið á rætnar slóðir.

Þess vegna ætla ég núna bara að taka samantektina á hugsunum mínum hér og segja hvers vegna ég fór í framboð aftur fyrir Bjarta Framtíð...en það var vegna þeirrar lífssýnar sem ég hef tileinkað mér fyrst og síðast.

Stjórnmál eru þjónustustörf.  Sá sem fær þann heiður að nefnast þingmaður hefur verið valinn til þjónustu fyrir þjóð sína.  Ég veit að í gegnum tíðina hefur það verið kallað að komast til valda en það finnst mér úrelt hugtak á stærstan hátt.  Vissulega eru falin völd í þingmennsku en þau mega ekki stjórna.

Hvert einasta mál sem rætt er á þingi þarf að horfa til heildarhagsmuna, skiptir þar engu hvort verið er að ákvarða færslu símalína úti á landi, laun til öryrkja og eldri borgara eða um samskipti við umheiminn.  Alltaf þarf að horfa til þess að þjóðin hagnist á ákvörðun Alþingis og innan þess ramma sem við ráðum við þegar kemur að tekjuöflun.  Því miður hefur á undanförnum árum og áratugum of oft ríkt andi sérhagsmuna í stjórnmálunum.  Ákveðnir hópar hafa haft undirtökin og varið sína hagsmuni áður en komið hefur af heildarmyndinni.  Slegið hefur verið fram frösum og dregnar upp glansmyndir til að forðast umræðu um ákvarðanir sem verja eina stétt samfélagsins fyrir öðrum.  Það eru valdamenn sem hugsa svoleiðis en ekki þjónustufólk.  Því vill ég að verði breytt.  

Hitt stóra atriðið er setning langtímamarkmiða.  Íslensk stjórnmál eru á öðrum stað en á flestum öðrum löndum sökum þess að við horfum sjaldnast lengra en eitt kjörtímabil þegar kemur að stefnumálum...jafnvel enn styttra.

Þegar "við" komumst til valda útilokum við allt sem "þau" gerðu - enda ráðum við núna!  Teknar eru stórar ákvarðanir og heilu málaflokkunum umturnað með miklum kostnaði og mannfrekum aðgerðum.  Skiptir þá ekki máli hvort t.d. verið er að ræða um skattkerfisbreytingar, stefnu í mennta-, samgöngu- og utanríkismálum.  Í Skandinavíu t.d. virðist hafa fyrir löngu verið festur samfélagssáttmáli í ákveðnum stærstu málaflokkunum sem kalla á það að horft sé til lengri tíma í stærstu málaflokkunum.

Það er þannig sem árangursríkar skipulagsheildir vinna, ekki sjá hver árangurinn er á tveimur árum og beygja þá bara í aðrar áttir ef þeim sýnist, heldur hafa sjónar á markmiðinu sem unnið hefur verið eftir innan hennar um langt skeið og verið er að styrkja.

Við þurfum að koma á samfélagssáttmálum í stærstu málaflokkunum, þannig sjáum við fjárþörf sem þarf til þeirra og út frá því vinna tekjuþættina.

Ef ég yrði valinn til þjónustustarfa á Alþingi myndi ég vilja horfa til þessara þátta sem fyrstu skrefana til að færa okkur inn á braut þjónustu fyrir þjóðina með langtímahagsmuni heildarinnar að leiðarljósi:

  • Fara í endurskoðun stjórnarskrárinnar með áherslu á ákvæði um þjóðaratkvæðagreiðslur sem þjóðin getur leitað eftir.  Nútíminn dregur verulega úr kostnaði við það að kalla fram þjóðarvilja sem á alltaf að fara framar þingvilja.
  • Auka verulega framlag til Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga því þær rekstrareiningar bera skarðan hlut frá borði.  Þær sjá um leikskólann, grunnskólann, málefni fatlaðra, öldrunarþjónustu, sorphirðu og flest það annað sem við höfum snertingu við í daglegu lífi.  Einkahlutafélagavæðing í bland við auknar skyldur sem ekki hefur verið tryggt fjármagn fyrir hefur sett þær margar á vonarvöl á meðan að ríkið græðir.
  • Það verður að endurskipuleggja peningastefnu.  Styrking krónunnar þýðir minni tekjur fyrir útflutningsaðila og sagan kennir okkur það að svoleiðis lifir ekki samfélagið í áratugi.  Á einhverjum tímapunkti kemur gengissveifla sem kallar á vaxta- og verðbólgusprengjur sem bitna á okkur öllum.  Örgjaldmiðillinn okkar mun ekki lifa og ef það þarf að breyta honum eða tengja við annan þá er betra að gera það í góðæri en þegar verr árar.
  • Við þurfum að ákveða hvaða vini við viljum eiga í útlöndum og bindast þá samtökum við þá.  Það horfir ófriðlega í heimi þar sem þjóðernishyggja er dreifast hratt um Evrópu og við eigum ekki að láta eins og við séum fyrir utan sviga í samskiptum þjóða.  Ísland þarf að eiga vini í kringum sig í núverandi aðstæðum í alþjóðastjórnmálum.
  • Við verðum að forgangsraða í stóru kerfin okkar þrjú.  Frá hruni hefur þjónustan í menntakerfinu, heilbrigðiskerfinu og samgangnakerfin dregist verulega saman og nú verður að koma þar til tekjuinnstræmi sem vissulega þarf að byggja á langtímaskipulagningu.  Kerfin okkaer eru góð en við þurfum að endurheimta það fé sem datt út við hrunið í þeim.
  • Nýja stóriðjan okkar er auðvitað ferðamennskan.  Þar ríkir óskipulagt gullgrafaraæði á mörgum stöðum þar sem almannaheill ber lítið úr býtum.  En það er ekki síður heildarskipulagning sem þarna þarf.  Ísland er ekki frábrugðið öðrum ferðamannastöðum og þarf að horfa til ferils þeirra.  Ansi margir hafa fengið toppa og offjárfest í sjálfum sér...og síðan setið eftir með ennið sárt þegar óstabílir kúnnar sem ferðamenn eru hafa ákveðið að fara annað.  Áform um t.d. 18 hótel í byggingu í borg sem er nú þegar að fá til sín sennilega of stóran hóp ber einmitt vott um að við séum á villigötum.

Þetta eru verkefnin, hvernig eiginlega getum við aukið tekjustofnana okkar?

  • Skattkerfið okkar er ágætt.  En það er hægt að fá meira út úr því.  Eitt virðisaukaskattsþrep og niðurfelling undanþága á því er fyrsta skrefið.  Að þeim skatti koma allir sem á Íslandi dveljast, ekki síst ferðamennirnir okkar sem eru í dag að búa við alls konar afslætti.  Einu undanþágur sem ég tel verjandi eru á barnaföt og lyf.  Annað eigum við að kaupa með fullum virðisaukaskatti, ef við viljum að hann stýri vöruverði þá er bara að lækka prósentuna.
  • Þrepaskipt skattkerfi hefur sannað sig og vert að halda áfram.  Hins vegar verður hátekjuskattur að horfa til þess að hátekjur þurfi en millitekjur verði ekki metnar sem hátekjur.  Þriðja skattþrepið á að koma til þegar um tvöföld meðallaun er að ræða.  Það er enn hægt að hækka meðallaun talsvert með meira vinnuframlagi og það á ekki að leiða til hátekjuskatts.  Ég held að meðallaun séu í dag um 650 þúsund, þá færum við í 1,3 milljón t.d. á einstkling  Það er ekkert endilega jöfnuður að vera með þrepaskipt skattkerfi en það á að vera sjálfsagt mál að þeir sem mest geta lagt í samneysluna geri það.  Út á það gengur hugtakið "samfélag"
  • Taka á upp komugjöld í Leifsstöð.  Ég veit að það myndi þýða að við Íslendingar myndum líka greiða slík gjöld en ekki bara ferðamenn.  Þá það.  Þessi leið er einföldust og býr ekki til skriffinsku- eða eftirlitsbákn sem mörgu öðru fylgir en tryggir okkur tekjur í sameiginlega sjóðinn úr auðlindinni okkar. 
  • Sveitarfélög eiga að fá að innheimta "borgarskatt" af útseldum gistinóttum sem rennur óskiptur í þeirra sjóði.  Þeir eru jú að sinna innviðum fyrir ferðamenn.
  • Auðlindagjald þarf að leggjast á allar okkar auðlindir.  Ekki bara fiskinn í sjónum heldur líka aðrar þær sem við nýtum okkur, raforku og heitt vatn sem dæmi.  Hér þarf að kalla saman víðtækt samráð til að koma í veg fyrir ósanngjarnt kerfi, því miður fannst mér auðlindagjaldið síðast ekki ná að horfa nægilega yfir öll sviðin í útfærslum.  En þá á maður ekki að leggja svoleiðis niður, heldur lagfæra.

Þetta er lífssýnin mín, stutta útgáfan.  Ég hef rætt þessi mál innan Bjartrar Framtíðar og er sannfærður um það að í þeim hópi er fólk sem deilir minni lífssýn.  Það eru ekki allir sammála öllu og vel má vera að einhverjir af punktunum mínum séu vanhugsaðir og þurfi einhverrar umræðu og lagfæringar.  Sem ég get treyst að fólk í BF er tilbúið í.  Það getur jafnvel fengið mig til að skipta um skoðun.  Sem er dásamleg tilfinning, það er ofboðslega gott að skipta um skoðun ef hún er ekki sú rétta...fyrir mann sjálfan eða heildina.

Þannig vinna þjónustuþenkjandi einstaklingar...þeir vinna fyrir heildina.  Í dag fer ég og kýs Bjarta Framtíð...mikið vona ég að nokkur þúsund geri það með mér!


Bloggfærslur 29. október 2016

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband