Nú á að reyna að blogga reglulega!

Hæhó.

Jæja.  Ákvað að taka áskorun í Mogganum í dag að reyna að setja upp nýja bloggsíðu.  Vona innilega að það takist, því ég hef mjög gaman af slíkum síðum annarra og vona að einhver nenni að lesa mína.

Ég ákvað að láta síðuna mína standa sem "Dægurmálasíðu".  Það þýðir að á hana ætla ég að reyna að setja inn mínar skoðanir á því sem er að gerast í dag, en úr öllum áttum. 

Í dag langar mig að tjá mig um mál Breiðavíkurdrengjanna.  Sem starfsmaður uppeldisstofnunar vekja þessar hræðilegu sögur mér ólýsanlegum viðbjóði.  Ég átti hreinlega erfitt með að horfa á sjónvarpsþáttinn Kastljós í síðustu viku þegar fullharðnaðir karlmenn birtust okkur með blæðandi sálarsár.  Sérlega átti ég erfitt með að horfa á Pál Elísson og Lalla Johns.  Kvalirnar sem birtust á skjánum í andlitum þeirra tveggja voru ólýsanlegar.

Það sem ég á sérlega erfitt með að sætta mig við er að svo virðist sem að þessi stofnun hafi verið birting mannvonsku og virðingarleysis í sinni verstu mynd.  Mér finnst það svo sárt því ég tel að þjóðfélag eins og okkar þurfi að eiga möguleika á að aðstoða börn í vanda.  Eftir 14 ára starf í íslenskum grunnskólum hef ég séð marga neyð barna.  Þar hafa stærstu vandamálin verið hjá drengjum eins og þeim sem mér virðast hafa verið sendur norður fyrir Breiðafjörð í betrunarvist.

Mér finnst það sárt því að starf með slíkum börnum þarfnast umhyggju, hlýju og jákvæðrar birtingar aga.  Agi er okkur öllum fyrir bestu, á þeim forsendum að við fylgjum hinni Gullnu reglu, "Allt sem þér viljið að aðrir menn gjöri yður, það skuluð þér og þeim gjöra".  Ég hef lengi talað um það að úrræðaleysi ríki í málefnum barna uppfullum af vanlíðan.  Mörg börn búa við þrengingar, andlegar sem líkamlegar á Íslandi nútímans.  Það er borgaraleg skylda okkar allra að heimta það að slíkir einstaklingar fá aðstoð, og kennslu, við að fóta sig í samfélaginu. 

Ég vona því að tvennt muni fást fram með birtingu þessara hroðaverka gegn máttlitlum drengjum á sjötta og sjöunda áratugnum.  Í fyrsta lagi að samfélagið virkilega gangist við þessum voðaverkum og reyni að lina þjáningar fórnarlambanna og aðstandenda þeirra.  Þá meina ég fyrst og fremst við auðmjúkri afsökunarbeiðni, upptöku sakavottorða þeirra allra og síðan sálfræðilegri hjálp.  Vissulega er viðbúið að þeir eigi fjárhagslegar skaðabætur skildar, en það er að mínu viti eitthvað sem á að koma í kjölfar hins.  Í annan stað finnst mér MJÖG mikilvægt að samfélag nútímans skoði nú einstaklinga í svipuðum þrengingum og þeim sem sendir voru á Breiðavík á sínum tíma.  Einstaklingum í slíkum þrengingum hefur alls ekki fækkað og það er skylda samfélagsins að í sjónvarpsfréttum 2037 verði ekki verið að rifja upp sögu einstaklinga sem samfélagið gerði að glæpamönnum með aðgerðarleysi.

Hver á að gæta bróður míns???? Ég, þú og við öll.


Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Pálína Erna Ásgeirsdóttir

Velkominn í bloggsamfélagið Magnús Þór. Ég er þér mjög sammála og hef velt þ´vi fyrir mér að ef til vill væri hægt að bæta þessum þolendum eitthvað með því að þeir fengju sérfræðingshjálp t.d. sálfræðinga sér að kostnaðarlausu. 

Ég get þó engan veginn gert mér grein fyrir þjáningu þeirra og kvöl en tek undir orð þín að það hafi tekið á að horfa upp á kvöl þeirra í sjónvarpinu.

Gangi þér vel að blogga 

Pálína Erna Ásgeirsdóttir, 11.2.2007 kl. 15:51

2 identicon

Hæ hæ.  Það  var verið að skora á mig að fara á blogg Moggans.  Sé til. Þetta er gott umhverfi hérna.  Sammála þér með þessi mál og furðulegt ef ekki verður hægt að bregðast skjótt við.  Siðað samfélag á að gera allt sem hægt er til að "leiðrétta" svona hegðun sem framin er í skjóli þess sjálfs!

Vilborg Traustadóttir (IP-tala skráð) 12.2.2007 kl. 16:30

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband