Breiðavík, barnavernd, Baugur og boltinn.

Jæja.

Eins og við var að búast var vinnustaðurinn minn undirlagður af umræðum um viðfangsefni pistils míns í gær.  Við vorum öll sammála um það að umræðan yrði að leiða af sér framför í málefnum barna.

Barnavernd er stórt orð.  Á tíðum er það neikvætt.  Barnaverndarnefndum og starfsfólki er slegið upp sem þeim sem að koma og brjóta upp heimili.  Skilja þá grátandi börn og forráðamenn að.  Ekki ætla ég að útiloka að starfsfólk nefndanna þurfi stundum að koma að erfiðum aðstæðum.  Ég ætla samt að útiloka það að slíkt gerist að ástæðulausu, eða ástæðulitlu.

Mín reynsla er nefnilega sú að barnaverndarnefndir okkar samfélags þurfa miklu meiri aðstoð við að sinna hlutverki sínu en þær fá í dag.  Ég hef t.d. aldrei skilið að ein skrifstofa, Barnavernd Reykjavíkur, eigi að ná að sinna eftirlitshlutverki sínu í 100 þúsund manna borg.  Starfsfólk Barnaverndar er fyrirmyndarfólk.  Það þekki ég af reynslu minni af samstarfi við þau.  Hins vegar er fjöldi málanna slíkur að margar vikur líða frá því tilkynning berst þar til möguleiki er á að funda um viðkomandi mál.  Á fundinum eru strengir stilltir saman og reynt að benda á úrræði.  Þau úrræði eru oft á tíðum erfið í framkvæmd og námskeið og vistunarmöguleikar yfirfullir.

Ég kynntist svo starfi barnaverndarnefndar á mínu svæði í haust.  Vissulega eru íbúar hér á Snæfellsnesi aðeins um 5 þúsund, en ég var gríðarlega glaður með þá fagmennsku og skilvirkni sem ég varð vitni að í starfi þeirra.  Ég gat ekki látið hjá líða að bera saman möguleika þeirrar nefndar gagnvart möguleikaskorti starfssystkina þeirra í Reykjavík.  Þvílíkur munur.  Ég tel að barnaverndarnefndir séu ein af grundvallarstoðum íslensks samfélags.  Það ber að tryggja þeim viðunandi starfsgrundvöll og að möguleikar á viðunandi lausn á vanda þeirra barna og fjölskyldna sem til þeirra leita séu miklir.  Annars hefur samfélagið ekki lært mikið á sorgarsögum fyrri ára.

En er ríkið og skattborgararnir þeir einu sem eiga að bera ábyrgð?  Vissulega berum við öll samábyrgð og ríkið er framkvæmdaraðili okkar.  Þeir sem eiga að sjá til þess að samfélagið gangi eðlilega fyrir sig og jöfnuður ríki að einhverju leyti.

Þess vegna furða ég mig á því hvað gengur á í máli ríkisvaldsins og Baugs.  Ég veit hreinlega ekkert hvar ég vill staðsetja mig í þeirri deilu.  Ég vill að það sé algerlega á hreinu að okkar fjársterkustu fyrirtæki og eigendur þeirra þurfa að greiða algerlega skv. ítrustu reglum til samfélagsins.  Því miður hefur maður það stundum á tilfinningunni að það sé ekki alltaf raunin.  Ég verð hálf ruglaður þegar menn fara að ræða þetta mál á þann hátt að allir virtustu lögfræðingar landsins séu komnir saman sem herdeild Baugs, og ætli sér að berja allar kröfur af þeim með lagaflækjum.  Það hef ég ekki hugmynd um!  Mér finnst einfaldlega hrikalegt ef upp er komin sú staða að greiða þurfi milljarða úr sameiginlegum sjóðum samfélagsins í skaðabætur vegna vanhugsaðra og illa framkvæmda aðgerða ríkisvaldsins.  Það er bara óásættanlegt og þá þurfa menn að sæta ábyrgð.  Hjá lögreglustjóra, OG ríki.  Ef hins vegar Baugsmenn eru að brjóta skattalög þá svei þeim.

Það þarf að vera á hreinu að réttlætið nái fram í þessu máli.  Eins og öðrum í siðuðu samfélagi.

Að lokum aðeins úr íþróttunum.   Vona innilega að Jón Arnór Stefánsson nái fótfestu á Ítalíu.  Sem mikill körfuboltaáhugamaður finnst mér hálf leitt að strákurinn sé búinn að vera á þessu liðaflakki.  Fannst hæpið hjá honum að æða til Dallas, og var glaður með að hann væri kominn í topplið í Evrópu hjá Rússunum.  Eftir ágæta Ítalíudvöl kom mér á óvart að hann færi til Spánar.  Nú er hann kominn aftur til Ítalíu.  Ég vona innilega að hann nái árangri þar og negli leðrinu í gegnum hringinn, sem þýðir þá vonandi að hann fær mikið að spila.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Jóhanna Fríða Dalkvist

Gaman að sjá að þú ert Liverpoolmaður og McLaren, ætla reyndar sjálf að fylgja Raikonen yfir til "hinna" en þó bara með hálfum hug þar sem ég bara ómögulega get haldið með Ferrari í bili, hjartað bara segir nei við því :)

Það er rétt að Barnaverndarnefnd er neikvætt orð svona almennt og kannski svo sem ekki að ástæðulausu þar sem fréttir af þeim snúast um leiðindamál. Þau eru hinsvegar að vinna frábær störf og hreint ótrúlegt að það sé ekki löngu búið að stækka þetta batterí. Vandamálum er sífellt að fjölga og því finndist mér að það ætti að taka rækilega til í þessum málum, stækka þetta batterí allverulega svo það geti farið að sinna forvarnarmálum líka, því þar fær fólkið vandamál dagsins beint í æð. 

Þegar Baugsmálið leit dagsins ljós í upphafi varð ég frekar slegin og sár, því ég vildi ekki trúa neinu illu upp á þetta fólk og ekki heldur að það væri verið að ráðast á það að ástæðulausu. Málin hafa hinsvegar þróast þannig að mér þykir það afar hæpið að ef þetta fólk hefur brotið eitthvað stórt af sér að það væri ekki komið í ljós eftir alla þessa rannsókn. Þess vegna verð ég að viðurkenna að ég er algjörlega á væng Baugs í þessu máli. Áður en þetta kom upp var Baugur farin að gefa til góðgerðamála hér á Íslandi og það stórar upphæðir og ekki hafa þær lækkað síðan málið kom upp. Þess vegna er mér orðið nokk sama þó þeir hafi flutt inn eina garðsláttuvél án þess að borga skatt af henni. Mér finnst skipta máli hve miklu púðri er eytt í mál eftir stærð þeirra. Eins og þetta lítur út núna fyrir mér ætti ákæruvaldið að vera löngu búið að bakka og hætta að eyða peningunum okkar. Síðast tók steininn úr þegar ég las í fréttum að ákæruvaldið er svo illa undirbúið núna fyrir yfirheyrslurnar yfir Jóni Ásgeiri að dómarinn sá sig knúinn til að spyrja Jón sjálfur fjölda spurninga. Eftir allan þennan tíma finnst mér þetta hreint hneyksli og sé ekki annað en að þetta sé hrein og klár peningasóun og ákæruvaldið þykir mér líkjast helst litlum, frekum og þrjóskum krakka.

Missti málefnalegheitin kannski aðeins í restina, en maður má nú aðeins

Jóhanna Fríða Dalkvist, 13.2.2007 kl. 20:47

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband