Borgin okkar
7.1.2013 | 23:14
Undanfarin ár, og kannski áratugi, hefur stundum fokið upp umræða á landinu okkar um samskipti höfuðborgarsvæðis og landsbyggðar.
Því miður hefur sú umræða oft miðast að því að draga upp mynd af tveimur óskyldum svæðum sem séu stöðugt að bítast um fólk og verðmæti.
Mér finnst fyrir margt löngu kominn tími til að sú umræða verði flutt upp úr hálfkæringsmuldri með smá fýlusvip og við förum að einblína að því að finna leiðir til að styrkja þetta samband. Verulega.
Reykjavík er falleg og góð borg undir Esjurótum og við sundin blá. Þar býr svo mikill haugur af góðu fólki að það er beinlínis ekki annað mögulegt en að þar sé öflugt mannlíf.
Ég hef verið svo heppinn á lífsflandri mínu að vinna og búa á mörgum stöðum í borginni. Í Hlíðunum, Vogunum, miðbænum og Kjalarnesinu. En að öllum öðrum svæðum ólöstuðum er mitt svæði í borginni Breiðholtið, enda var það í tíu ár hluti af lífi mínu. Ég vona að ég hafi náð að skila eitthvað í átt til þess viðlíka því sem það gaf mér.
En svo kallaði dreifbýlið á mig og mína. Eftir þessa tíu ára dvöl, sem má svo bæta við öðrum fimm tengdum skólagöngu, ákvað ég að yfirgefa höfuðborgarsvæðið og flytja í það 1700 manna sveitarfélag sem er heimili mitt í dag.
Þar líður mér meira en vel, hér er gott fólk og gott mannlíf. Kynni fólks verða nánari með þeim kostum og göllum sem því fylgir. Eins og höfuðborgin hefur sína kosti og galla.
Mér finnst þess vegna ákaflega mikilvægt að við áttum okkur öll á því að í landinu góða þar sem 320 þúsund sálir búa setjumst við niður og finnum út úr því hvernig við getum einum rómi sagt "þetta er borgin okkar" og ekki síður "þetta er dreifbýlið okkar".
Eigum við ekki að prófa það?
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.