Eurovision - part 1
25.1.2013 | 17:42
Jæja.
Loksins komið að máli málanna, við erum að leggja af stað í nýja Eurovisionferð. Þarf ekkert að útlista fyrir vinum mínum og ættingjum hvernig stemmingin verður hjá mér og stúlkunum á Helluhól 3 í kvöld og annað kvöld. Þar verður ýmislegt rætt um íslensku lögin.
Ennþá frekar núna þar sem ég mun ekki verða á landinu lokakvöldið 2.febrúar en mun þó reyna að draga upp net á hótelinu mínu og fylgjast með. Þó það verði í London.
Já. Ég er ekkert að grínast!
Eurovision hefur oft verið skotspónn mislélegrar fyndni og sérkennilegra fordóma fyrir þeirri gerð listar sem þar er keppt í. Auðvitað eru lögin misgóð eða misléleg, en sannleikurinn er auðvitað sá að það er ekki margt skemmtilegra til en tónlist og það að búa til sjónvarp um tónlist er frábært.
Ég sé ekki að X-factor og Idol keppnir komist með tær þar sem Eurovision hefur hælana í listsköpun en með grimmri markaðssetningu og útópíu um drauma og velgengni hefur það farið á flug.
Í kvöld koma fram sex íslensk frumsamin lög með misþekktum flytjendum. Við munum fylgjast með alls konar þáttum og kjósa svo. Lýðræðið frábæra mun velja þrjú áfram og að klukkutímanum eða eina og hálfa loknum höfum við brosað, hlegið, borðað snakk og orðið fúl eða glöð. Sjónvarp sem vekur tilfinningar er gott sjónvarp og Eurovision verður á bóndadagsdisknum mínum.
Ég hef valið tvö lög sem ég vill fá áfram í kvöld og mun kjósa. Fáum kemur örugglega á óvart að ég ætla að treysta því að sú eðalkona, Birgitta Haukdal, verði á skjánum áfram um næstu helgi, enda ein besta barnapía sem ég hef haft auk þess að vera góð söngkona með gott lag og fullt af skemmtilegum hljóðfærum með upphækkun. Svo er það hann Svavar Knútur og hún Hreindís sem eru með "feelgood" lagið í ár. Svona lag þar sem maður man eftir berjaferð, eltingarleikjum, hestaferð eða einhvers annars sem vekur manni bros og gleði.
Látið gleðina byrja...
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.