Pistillinn
26.4.2013 | 00:32
Tveir dagar fram að lýðræðishátíðinni okkar. Ég hlakka mikið til.
Undanfarnar vikur og mánuði hef ég farið um kjördæmið mitt með góðu fólki og hitt enn meira af góðu fólki til að útskýra fyrir þeim Bjarta Framtíð og hvað við stöndum fyrir.
Síðustu viku, daga og nú klukkustundir hafa töluvert fleiri en áður viljað kynnast okkur betur og þar sem að ég verð á flandri á morgun langaði mig að draga hér eitthvað saman sem þeir sem vilja heyra frá mér um flokkinn minn á meðan þeir taka ákvörðun.
Hvers vegna valdi ég Bjarta Framtíð?
Fyrsta sem ég heyrði af BF var í Sprengisandsþætti þar sem Guðmundur Steingrímsson lýsti því sem hann kallaði nýja sýn á pólitík. Ég hef fylgst með, og haft skoðanir á, stjórnmálum býsna lengi en þarna fannst mér bara allt sem hann sagði ríma við það sem mér fannst. Taka stjórnmál út úr uppþornuðu fari skipulags frá því snemma á 20.öld og koma af stað hugsjónaflokki sem mér fannst ansi frjálslyndur.
Því mér fannst vanta frjálslyndan flokk. Síðan hitti ég fleira fólk, snillinginn Heiðu og síðan bættist stöðugt við hóp fólksins sem ég kynntist í gegnum BF. Ég kom heim upprifinn af öllum hittingum og sagði Helgu að það væri eitthvað nýtt að detta í kollinn á mér. Ég hafði virkilega áhuga á því að fara út í pólitík.
Sem ég hef nú gert. Því að mér finnst flokkurinn standa fyrir það sem mig langar til í stjórnmálunum og ég treysti því fólki fullkomlega sem ég hef kynnst að vinna samkvæmt þeim vinnubrögðum sem við teljum að eigi að stýra pólitíkinni. Sýn sem lofar ekki neinu öðru en því að vinna með hagsmuni þjóðarinnar að leiðarljósi í öllum málum og leita til hennar sem oftast.
Hvað stendur þessi BF fyrir eiginlega.
Ég skora enn á ný á fólk sem veltir okkur fyrir sér að fara inn á www.heimasidan.is og skoða þar sem mest. Þar er auðvitað að finna kjarnann.
En ef við drögum þetta saman þá er flokkurinn Líberal (frjálslyndur) flokkur. Það þýðir semsagt að við myndum í mörgum málaflokkum stilla okkur upp vinstra megin við hina hefðbundnu miðju en líka oft hægra megin. Við erum alþjóðlega sinnaður flokkur, og þar með evrópusinnaður. Viljum vera í sem mestu samstarfi við þjóðir heims. Við erum aktívur umhverfisflokkur og teljum nóg komið í stóriðju á Íslandi, viljum fara varlega í allar virkjunarframkvæmdir og láta náttúruna njóta vafans.
Við viljum koma í veg fyrir sóun, bæði á beinum peningum en líka t.d. berjast við brottfall úr framhalds- og háskólum því það er sóun á hæfileikum. Skoða líka hvað við erum að gera í um 900 nefndum á vegum ríkisins, er þar á ferð einhver tímasóun kannski.
Við viljum auka fjölbreytni. Hef áður talað um að við viljum ekki stóriðju, en búa til skapandi umhverfi fyrir t.d. lítil og meðalstór fyrirtæki sem eru um 90% starfandi fyrirtækja á Íslandi. Við trúum á það að við ákveðnar ástæður séu möguleikar á aðkomu einkaaðila í heilbrigðis- og menntamálum þjóðarinnar, án þess að sjálfsögðu að draga úr þjónustukröfu.
Við viljum meiri stöðugleika, t.d. með því að klára samninginn við ESB. Því bara það að klára samninginn og leggja hann undir þjóðina mun loka á deilur okkar á meðal sem hafa verið í gangi svo ofboðslega lengi að löngu er tímabært að klára. Svo tekur þjóðin afstöðu.
En við vonum að við náum að landa það góðum samningi að við getum stigið inn í þann stöðugleika sem fylgir traustum gjaldmiðli. Því burtséð frá öllum öðrum efnahagsaðgerðum þá mun nær öllu máli skipta að eiga gjaldmiðil sem er stöðugur og leiðir til vaxtalækkunar og lækkandi vöruverðs. Sem er lykilatriði fyrir okkur öll. Við horfum á þetta sem plan A og ef það verður ekki þarf að hugsa upp plan B, sem við tökum á ef af því verður.
En stöðugleikann þarf líka að finna með því að auka samstarf á meðal okkar. Vera í nánara sambandi við sveitarfélög, atvinnulífið, launþega og annara með það að markmiði að stefna að langtímamarkmiðum. Síðasta slíka vinna tengdist Þjóðarsáttinni, kannski er kominn tími á nýja slíka.
Við viljum nefnilega sátt. Við trúum því að á Alþingi eigi fólk að vinna saman í þegnskyldu fyrir þjóðina sína. Auðvitað eru þar skiptar skoðanir og meiningar en við teljum vel hægt að vinna á þingi í sátt við fólk með ólíka sýn. Trúum ekki á karpstjórnmál og málþóf heldur uppbyggileg skoðanaskipti.
Svona eins og verða í hjónaböndum, fjölskyldum, í vinnunni, í leiknum og á sem flestum stöðum í lífinu. Það er hægt að vinna svoleiðis í pólitík.
Besti Flokkurinn í Reykjavík er búinn að sýna okkur það.
Við sjáum þar öfluga stjórnsýslu rekna fyrir opnum tjöldum og mun minna vesen en hjá flestum öðrum sveitarfélögum. Það þarf ekki að fara milli Pontíusar, Pílatusar og páfans til að klára mál. Einn góður kjósandi lýsti því að flytja heim frá Danmörku við það að flytja til tunglsins, svo mikið væri vesenið í kringum slíkan gjörning.
Hálsaskógur eða raunveruleikinn?
Ég viðurkenni ofurást á Hálsaskógi og lífsviðhorfi því sem þar ríkir í lokin.
Hef mögulega ómeðvitað reynt að beita því viðhorfi í lífi mínu og starfi. Ég trúi á það að "nenna að taka samræðuna" sem stjórntæki til betri vegar. Við verðum að skoða mál út frá sjónarmiðum þeirrar heildar sem verið er að ræða, hvort sem þar er fjölskyldan, vinnan eða samfélagið.
Í lífinu hef ég líka lært að skipta um skoðun þegar ég hef heyrt rök sem leiða mig til þess. Það er frábær tilfinning, sérstaklega þegar maður sér að það var rétt ákvörðun.
Einn galdurinn við Bjarta Framtíð er að mínu mati sú hugmyndafræði sem við höfum unnið eftir.
Opin vefsíða, fyrir alla. Ekki ungliða-, landshluta- eða óháðar deildir innan flokks eða landsfundir stjórna okkur. Við nennum að taka umræðuna, allan sólarhringinn á www.heimasidan.is og þar eru allir jafnir. Formennirnir okkar bæði Gummi og Heiða eru á sama plani og hver sá sem skráir sig inn.
Þurfa að koma með hugmyndir og rökstyðja þær svo vel að þær verði "like-aðar" nógu oft til að verða að tillögum sem síðan verða að verkefnum flokksins. Og ég hef séð þetta gerast.
Svona unnum við ályktunina okkar og síðan kosningaáherslurnar. Ég settist oft niður á kvöldin og nóttinni þar sem sá tími hentaði mér best og kom með mínar hugmyndir og skoðanir að borðinu. Er ógeðslega glaður að sjá margt af því sem ég stakk uppá eða var mjög sammála hefur fengið brautargengi í kosningaáherslunum okkar.
Ég hef áður reynt að skipta mér af, en frumskógurinn í flokkastarfinu óx mér í augum. Hjá okkur er enginn frumskógur, heldur nútímatækni í bland við sterkar skoðanir. Sem svínvirkar.
Svona já...
Þetta hér að ofan hef ég rætt við marga, mjög marga, upp á síðkastið og vitiði hvað....það eru bara allir á því að þetta sé bara býsna góð leið til að stjórna landi!
En svo velta samt margir því fyrir sér hvort að þetta "hafi nú ekki allt verið sagt áður" og að "þið gleymið þessu eins og allir hinir þegar þið komið á þing".
Ég hef einsett mér það í lífinu að nota ekki mikið orðin "aldrei" og "alltaf" og þess vegna auðvitað verður maður að gera eins þegar ég segi mína meiningu á þessu við þetta fólk sem svona kemst að orði.
Ég nota hins vegar orðin "ég treysti" svolítið. Og í þessum efnum treysti ég því fólki sem við í Bjartri Framtíð ætlum að verða þingmenn okkar. Við höfum haldið okkur fast við frjálslyndi okkar frá fyrsta degi og tryggð við vinnubrögðin okkar. Í kosningabaráttu sem hefur einkennst af gömlu upphrópununum og leiðindum í garð framboða höfum við sýnt ný vinnubrögð og einbeitt okkur að okkar málum eingöngu.
Það hefur orðið til þess að ég treysti. Ég treysti mínu fólki í Bjartri Framtíð til að vinna inni á þingi að breytingum í stjórnmálum. Ég treysti því til að vinna af auðmýkt og ákveðni fyrir þjóðina sína og laust við átakaklafa frá gamalli tíð.
Því við fórum öll út í pólitík til að breyta stjórnmálum.
Þú sem hefur lesið alveg hingað niður ert greinilega að hugsa á líkum nótum og ég. Þá kemur síðasta skrefið.
Hugrekki.
Því það þarf hugrekki minn kæri vinur til að taka ákvörðun um að breyta, en það er ógeðslega skemmtilegt.
Ég skora á þig að standa með hugrekkinu og setja X við A laugardaginn 27.apríl.
KOMA SVOOOO!!!!!!!!!!
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.