Eurovision 2013

Hátíðisdagur á Helluhól 3.  Eurovisiondagur er alltaf hátíð hjá mér og mínum, sennilega ein ástæða þess að ákveðið væri að ég sæi um framleiðslu á stelpustóði.  Sameiginlegt áhugamál allra á heimilinu, Hekla komin að sunnan og við munum koma henni í gírinn í dag.  Pottþétt.

Mér finnst keppnin í ár býsna spennandi.  Að vísu hafa ólík verkefni þetta vorið verið að þvælast fyrir mér svo að það var ekki fyrr en á síðustu dögunum að maður virkilega náði að sökkva sér niður í keppnina en þá auðvitað gerði maður það bara!

Heildarútlitið

Mér finnst keppnin í ár með sterkara móti, að því leytinu að það eru að mínu mati fá pissupásulög, þ.e. léleg atriði.  Vissulega hrekkur maður við þegar Rúmeninn mun reka upp sín hljóð og ég skil ekki alveg Moldavíulagið - auk þess sem sænska lagið er töluvert "gamble".

En það er fullt af fínum lögum í þessari keppni.  Feelgood-lög eins og Ungverjaland, Malta og Spánn.  Sykursæta strákadeildin er Azerbaijan og Írland.  Grikkirnir með flottan afa og Eyþór með hárið.  Stefnir í að Finnar eigi flottasta kjólinn en þó er beðið eftir Bonnie og Cascada áður en kosið verður í þeirri deild á heimilinu.

Þegar maður rennir yfir úrslitalögin 26 þá er töluvert sérstakt þar á ferð.  EKKERT land frá fyrrum Júgóslavíu komst í úrslit, fá frá gamla Sovét, enginn Ísraeli og enginn Tyrki. Eða Kýpur, hvað gera Grikkir!?!?!?

Þetta þýðir það held ég að við sjáum mjög óvænta fulltrúa ofarlega.  Þetta er pottþétt að hjálpa austurblokkinni, ég tippa á að Rússar og Úkraínumenn fái stærstu skammtana frá þeim löndum, en viðbúið líka að Rúmenía, Ungverjaland og Moldavía græði.  Megum ekki gleyma því að menningarheimur tengist jú tónlist og því eðlilegt að svo sé.

Norðurlandaþjóðirnar finnst mér allar með góð lög og við munum setja stig hvert á annað, Svíarnir eru að taka séns með miklu raddflugi síns manns, Finnarnir hafa stolið mikið af athygli en norsku og dönsku skvísurnar sitja ofarlega í veðbönkum.

Eins og áður eiga "stóru fimm" erfitt uppdráttar, en þó held ég að ekki eigi að vanmeta vinsældir Cascada og Bonnie Tyler í álfunni, gætu alveg lent ofarlega.

Ísland

Allir sem hafa fylgst með pælingum mínum í Eurovision þetta árið vita að ég er ekki að fíla lagið okkar.  Því miður.  En það var ekki annað hægt en að hrífast með flutningi Eyþórs og atriðinu þeirra núna á fimmtudaginn og þeir áttu skilið að komast áfram sem var auðvitað gaman þar sem íslenskan fékk að hljóma.  Held að við eigum alltaf að spá í því þegar lögin eru send hvernig lagið hljómar á Íslandi í framtíðinni og Ég á líf mun hljóma.

Að því sögðu held ég að við verðum á kunnuglegum slóðum, á milli 15 og 20 í kvöld.  Við erum á erfiðum stað og töpum á því að Rússland, Úkraína og Bretland eru með rólegar ballöður sem munu held ég verða ballöðulögin sem verða valin.  Hins vegar er aldrei að vita hvað gerist ef flutningurinn gengur jafnvel upp og á fimmtudaginn.

Það allavega varð til þess að ég sætti mig vel við lagið og held auðvitað með því!

Spáin!

Þá er komið að því að reyna að draga þetta allt saman.  Ég held að sjaldan hafi verið eins erfitt að spá fyrir um sigurvegarana í þessari keppni, jöfn lög og eilítið öðruvísi úrslit með fámennri "austurblokk".

Ég hef frá upphafi haldið því fram að það lag sem er "mesta Eurovisionlagið" sé mitt uppáhaldslag, þetta danska.  Flautuleikurinn, trommubítið og sandpappírsröddin heillar víða í álfunni og það kemur mér ekki á óvart að veðbankarnir stilli henni efst.  Og ég vona að hún vinni, því ég hét því að þegar að Danir vinna þá fer ég á keppnina.  Og mun standa við það!

En það hefur oft farið illa að vera spáð sigri og það eru nokkur lönd sem gera tilkall til sigursins.  Rússland lendir alltaf ofarlega og geta hæglega unnið, söngkonan er flott og lagið fullt af flottum strengjum.  Austurblokkin mun fara á það land, sem og Úkraínu sem er með flott lag og flotta söngkonu.

Norðmenn og Finnar eru með stuðlög og sætar stelpur í flottum dressum sem gætu náð ofarlega og jafnvel á toppinn.  Svíarnir munu halda niðri í sér andanum þegar þeirra maður flytur sitt lag.  Ef það tekst vel gætu þeir klárlega farið nálægt sigri.  Ég held að eitt þessara fimm laga sem ég hef talið hér upp vinni í kvöld.

Í deildinni fyrir neðan, sem gætu staðið upp sem óvæntir sigurvegarar held ég að efst tróni Holland og Azerbaijan auk þess sem að Grikkirnir fara alltaf langt.

Ef maður vill græða pening á veðbönkunum myndi ég svo henda 1 pundi á Þýskaland.  Cascada er feykivinsæl í mið-, suður og hluta austur Evrópu og lagið ágætt svo að það gæti alveg gerst að hún sigldi heim sigrinum.

Þar hafiði það, svo er að sjá hvort að ég er sannspár, það myndi þá þýða að "mitt" lag hefði unnið keppnina í fyrsta sinn síðan Ruslana tók sigurinn 2004.

Góða, góða skemmtun elskurnar! 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband