Mín vetrarsól
28.10.2013 | 10:54
Ég man vel eftir kassettu sem hljómaði mikið í Lödunni hjá afa og ömmu þegar verið var að þeytast um í gamla daga. Stundum var bara verið að renna í Fljótin í heimsóknir til vina en svo var líka skellt á skó og rennt til vesturs á Strandirnar eða austur á land til að hitta fjölskyldumeðlimi og vini sem þar voru.
Á þessari kassettu sem ég minnist mest voru lög sem Björgvin Bo Halldórs var að flytja, lög sem ég enn í dag raula með. Skýið, Eina ósk og fleiri slagarar sem karlinn flutti.
Eitt þessara laga heitir Vetrarsól og á síðustu árum hef ég í vetrarbyrjun sest niður og hlustað á þetta lag og látið hugann reika pínulítið í allar áttir. Því texti þessa lags ýtir við svo mörgu sem ég er svo heppinn að hafa fengið innrætt í mínu uppeldi og ég vona að ég sé að reyna að smita til þeirra sem ég ber ábyrgð á að reyna að miðla til.
Maður velur hvernig maður tekur á móti vetrinum. Við erum fá sem myndum velja hann sem okkar uppáhalds tíma á árinu en þó er hann sennilega sú árstíð sem lengst lifir á landinu okkar. Þá skiptir máli að taka á móti honum opnum örmum vitandi það að hann er jafn sjálfsagður okkur og hið vekjandi vor og okkar stutta bjarta sumar. Hvursu myrkur og kaldur sem hann er, þá er hann okkar tími líka.
Svo að í dag vaknaði ég í vetrarfríinu mínu, knúsaði yngstu stelpurnar mínar tvær og gaf þeim morgunmatinn. Þær fluttu sig upp á efri hæðina í meira teiknimyndamaraþon.
Þá fór ég og hitaði mér kaffi, leit út um gluggann þar sem norðanvindurinn lamdi á gulnuðum stráum og leyfum sumarblómanna. Þá ákvað ég að finna Vetrarsól á öldum internetsins.
Það var kominn tími á að undirbúa sig undir vetur númer 42 á minni ævi...ég treysti á að hann verði fullur af mörgum Vetrarsólum, líka hjá ykkur vinir mínir.
En til öryggis sendi ég ykkur hér með smá "hlýja hönd" ef þið viljið þiggja hana
http://www.youtube.com/watch?v=dB9ZC8n0XdY
Mín Vetrarsól.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.