Annáll...einkalíf
30.12.2013 | 13:44
Árið 2013 að kveðja og ég held að það sé ekkert leiðinleg fyrir mann að rifja upp sitt ár...bara svona upp á sögulega geymd sem gaman væri að lesa síðar.
Auðvitað er það hálfgerð sjálfhverfni að gera það á blogginu sínu, en þá það...kannski hafa einhverjir gaman af að frétta af manns gleði og raunum.
Ég ákvað að skipta annálnum í þrennt. Fyrst ætla ég að fara yfir einkalífið mitt og áhugamál á árinu 2013, svo ætla ég að ræða pólitíkina mína þetta árið og síðast en ekki síst ætla ég að losa úr læðingi hugrenningar mínar tengdar þeim geira sem ég starfa við, skólamál, en á ýmsu hefur gengið á þeim bænum þetta árið.
En fyrst er það einkalífið!
Árið 2013 má segja að hafi verið rólegra en mörg önnur í lífi fjölskyldunnar á Helluhól 3. Útskriftir, fermingar, gifting og húsakaup viðfangsefni nokkurra ára á undan, en nú stefndi í frekar yfirvegað ár.
Thelma Rut vann sem au-pair í Charlottenlund í Danmörku frá júlí 2012 og fram í júní 2013 við góðan orðstír. Helga fékk ferðalag til hennar í jólagjöf og fór þangað um miðjan janúar. Ferðin var að sögn afar ljúf enda fjölskylda Thelmu besta fólk og þær Helga orðnar býsna góðar vinkonur. Gleði þeirra var svo mikið að Helga endaði ferðina á að bjóða bestu vinkonu Thelmu, bandarísku stúlkunni Rebeccu að dveljast hjá okkur í sumar, sem stúlkan sú þáði og varð hressileg viðbót í stuðsumar.
Ég sjálfur fór í flakk þetta árið. Í janúarlok fór ég á BETT-sýninguna í London eftir margra ára frestun á því. Skemmst er frá því að segja að mér fannst sýningin frábær í alla staði og mun ræða hana eitthvað meira í vinnuuppgjörinu sem kemur síðar. Það spillti ekki að hafa góða ferðafélaga með, náði að fara á tvo leiki í ensku úrvalsdeildinni, þ.á.m. sjá hann Suarez minn skora fallegt mark gegn Arsenal sem var auðvitað afskaplega gleðilegt.
Fljótlega upp úr því hófst undirbúningsvinna okkar félaganna á kop.is sem að tengdist hugmynd um að setja á fót ferðir á Liverpoolleiki í tengingu við þann hóp sem að síðuna les. Það endaði með því að við fórum saman fjórir af fimm út til Liverpool í upphafi maí á Merseyside-derbyið og fórum í þeirri ferð rækilega yfir þær hugmyndir sem við töldum að myndi virka í slíkri ferð. Þessi maíferð var skemmtileg að öllu leyti nema leikurinn sjálfur sem endaði 0-0, í fyrsta sinn sem ég fæ markalausan leik í slíkri ferð.
Ferðin var þó pínu erfið fyrir mig. Þar kom til ég var búinn að vera að eiga í vandræðum með verki í hnjám annað slagið um veturinn en hlustaði ekki mikið á skrokkinn og ákvað að byrja samt að flauta sem fótboltadómari. Í aprílbyrjun dæmdi ég leik í Lengjubikar í miklum kulda sem var bara beinlínis hrikaleg pína, ég náði varla að klára hann og í framhaldinu fór ég að skoða hvað gæti verið að. Eftir miklar pælingar þar um varð lendingin að ég væri að kljást við beinmar á báðum hnjám, nokkuð sem er hryllilega pirrandi og skerti hreyfigetuna töluvert. Ég reyndi eitthvað að dæma, en það var mjög erfitt, enda eiginlega eina ráðið að hvíla.
Það hafði svo líka áhrif á sumarfríið mitt, ég haltraði annað slagið og lítið varð úr gönguferðum og slíku brasi. Stærsta og mesta gleðin í fríinu tengdist fjölskylduferð til Portúgal. Sigga tengdó varð sextug á árinu og hugðist bjóða okkur með til útlanda og úr varð að við leigðum íbúð í þorpinu Costa da Caparica sem er í um 20 km. fjarlægð frá Lissabonn við Atlantshafsströndina. Því miður veiktist Ölli tengdó stuttu fyrir ferð og úr varð að við Helga fórum ásamt Sigríði og Sólveigu og áttum frábæra 10 daga í því dásamlega landi Portúgal.
Sólin var ágætlega á sínum stað, þeir tveir sólarlausu dagar sem birtust voru nýttir í frábærar skoðunarferðir um Lissabonn. Þetta var fyrsta ferð Helgu til þessa frábæra lands, en ég er sannfærður um að stutt er í þá næstu.
Sumarið heimafyrir var mun kaldara og sólarminna en þau síðustu og leið auðvitað of fljótt. Húsið var fullt af fólki, mest heimafólkinu sem var auk okkar fjögurra sem alltaf erum þar til húsa voru Thelma og Hekla í sumardvöl eins og áður, hörkuduglegar hóteldömur, auk þess sem áðurnefnd Rebecca var hjá okkur. Við fengum annað slagið gesti sem alltaf gleður okkur óskaplega og við fórum líka í ferðalög, flest þeirra tengdust fótboltastelpunni Sigríði Birtu og þátttöku hennar í mótum. Sem var afskaplega gott og gefandi.
Haustið mætti og þá hófst vinnutörnin. Thelma byrjaði í HÍ í ferðamálafræði og Hekla varð framhaldsskólanemandi og Menntaskólinn við Sund var svo heppinn að fá hana sem nemanda sinn. Sólveig hóf síðasta leikskólaárið og Sigríður komin í elsta bekkinn á Hellissandi, fer haustið 2014 að taka rútuna í Ólafsvík í skólann.
Nýtt verkefni lá fyrir mér, því það tókst að koma saman hópferð í tengslum við kop.is, 27 einstaklingar fóru fyrstu helgina í október í borg guðanna undir styrkri fararstjórn undirritaðs og höfðingjans Babu. Þar úti tóku þeir Lee og Ian á móti okkur og skemmst er frá að segja að allt gekk frábærlega upp. Veðrið dásamlegt, hótelið flott á frábærum stað, sigurleikur í fyrsta leik Luis á Anfield eftir bannið og skemmtanalíf borgarinnar magnað. Þegar þetta kom allt saman var beinlínis ekki hægt að klikka og það gerðist enda ekki. Vonandi tekst að endurtaka þennan leik ansi oft í framtíðinni!
Viku eftir ferðina fór ég svo til Litháen í boði ESB sem viðurkenningu á frábæru Comeniusarstarfi skólans míns. Býsna brösulega gekk að ferðast, breyting í flugi kallaði á nýja bókun á útleiðinni og á heimleiðinni var 12 tíma stopp í Köben. Það var lærdómsríkt að fara á þá ráðstefnu sem mér var stefnt til í Vilnius, að mér skilst mjög hefðbundið vinnulag tengt ESB þar á ferð og það virkaði skilvirkt og flott. Mikil vinna og áreiti frá 8 - 24 alla þrjá dagana og því ekki sanngjarnt að dæma Vilnius eða landið, en þó viðurkenni ég að ákveðin vonbrigði voru í kollinum á mér þegar ég yfirgaf hana. Örugglega enn að slíta barnskóm sem frjáls borg, en eitthvað leið mér ekki vel í þeirri menningu sem manni birtist. Sem var vissulega ekki tímafrekur hluti heimsóknar minnar þangað!
Síðustu mánuðir hafa svo liðið í hefðbundnu samspili vinnu og einkalífs. Auðvitað með beygjum, væntum sem óvæntum, en ekki ástæða til að rekja frekar.
Semsagt þegar í heildina litið frekar mikið útlandaflakkár og minna flandur um íslenskar grundir í tæpu sumri. Fótafúi hafði áhrif á dómgæslu en að öðru leyti góð heilsa, líkamlega sem andlega.
Framundan er árið 2014 sem örugglega mun hafa á sér annan blæ...
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.