Árið 2015

Það hefur verið hefð hjá mér í lok hvers árs að setjast niður og rita eilítinn pistil um það ár sem liðið er og ég held að það ár sem nú er rétt að klárast hafi innihaldið það mikið af viðburðum að það sé vel þess virði að taka aðeins saman. 

Þessi skrif eru mest fyrir mig sjálfan held ég, en hver veit nema að einhver nenni að rúlla yfir þau líka.  Að þessu sinni ætla ég að fara aðeins yfir árið í tímaröð og skipta því í þriðjunga.

Fyrsti ársþriðjungur

Þann 1.janúar árið 2015 vaknaði ég upp á Helluhólnum mínum og hitaði mér kaffi.  Settist niður og vann aðeins í handriti af leikritinu sem við í GSNB höfðum ákveðið að setja upp með unglingunum og á meðan ég saup af kaffinu var ég líka að pæla í samtölum sem höfðu átt sér stað innan fjölskyldunnar um jólin.

Elstu dæturnar létu það kurteislega í ljós að þær söknuðu þess að hafa okkur ekki nær sér í borginni við Sundin en höfðu þó ákveðið að eyða sumrinu á nesinu við vinnu, það yrði þó líklega síðasta vinnusumarið þeirra beggja.  Þetta samtal var öðruvísi í anda en þau sem á undan höfðu verið tekin um svipað efni.  Persónuleg vonbrigði á árinu 2014 í kjölfar sveitarstjórnarkosninga sátu dýpra í sinni en ég áttaði mig á og ég fann það að þessi ósk stúlknanna hljómaði mun betur í mínum eyrum en ég reiknaði með.  Veran í Snæfellsbæ var frábær og þennan janúarmorgunn var ég ekki að hugsa meira um þetta en samtalið hafði endað með.  Ef að upp kæmi spennandi vinnutilboð fyrir annað hvort mig eða Helgu yrði það skoðað vandlega.

Janúar og febrúar voru með eðlilegum snæfellskum hætti.  Kútmagakvöldið frábæra, síðan að endurvekja þorrablót og svo hefja æfingar á nýjum Þengilsþætti, nú skyldi sá finna ástina.  Öflugt teymi starfsmanna GSNB fengið til verksins og verkaskipting ákveðin, fundið í hlutverk og byrjað að pússa. 

Ég þurfti að keyra vikulega til Reykjavíkur til að starfa við samninganefndarstörf fyrir skólastjóra og í lok febrúar fékk ég frétt að loknum slíkum fundi sem sneri tilverunni á hvolf fyrir fjölskylduna. Þórður Kristjánsson samherji minn í nefndinni hafði tekið ákvörðun um að hætta störfum sem skólastjóri Seljaskóla frá vori.  Mér rann beinlínis kalt vatn milli skinns og hörunds yfir þeim tíðindum.  Í kjölfarið keyrði ég vestur og hausinn í hring.

Klárlega draumastarfið fyrir mig sem skólastjóra, mitt heimasvæði í borginni og afar áhugaverður skóli.  Ég skipti um skoðun alla vega 15 sinnum á leiðinni hvað ég ætti að gera.  HellissandurFramundan voru margir dagar af umræðu á Helluhólnum...líka leitað ráða í borginni og málið rætt við elstu dæturnar.  Að lokum var farið í að vanda sig við að vinna umsókn, ákvörðunin tekin.  Ég fór og ræddi við Kidda bæjarstjóra og eins og öll okkar samskipti stóð allt hreint okkar á milli.  Hann samþykkti að verða umsagnaraðilinn minn og bar virðingu fyrir ákvörðuninni.  Ekki það að þetta viðhorf hans hafi komið mér á óvart þá vann hann sér enn einu sinni prik í minn kladda fyrir yfirveguð viðbrögð.  Ég gerði mér fulla grein fyrir því að hann vildi að ég yrði áfram fyrir vestan en skildi mínar aðstæður algerlega.  Það skipti mig mjög miklu máli í öllu ferlinu.  Ef að til viðskilnaðar kæmi yrði hann á nótum vináttu og virðingar eins og öll höfðu verið fram að því. Endalaust þakklátur sem ég varð að það tókst.

Í kjölfarið var umsóknin send og margir dagar skrýtnir sem liðu.  Fyrst að greina fólkinu mínu fyrir vestan frá því hver ákvörðunin var, sérkennilegt að sjá nafnið sitt á meðal umsækjenda.  Hringt og boðað í starfviðtal sem mér fannst ganga vel.  Þá þriggja vikna bið þar til svarið barst, jákvætt.  Afskaplega stoltur af því að vera treyst fyrir verkefni eins mögnuðu og nú ég stóð frammi fyrir.  En líka kvíði, þetta gerðist hraðar en ég reiknaði með og við höfðum stefnt að.

Samtalið við dæturnar allar verður eftirminnilegt.  Hrein gleði Thelmu og Heklu, spenningur Sigríði Birtu í bland við kvíða um nýjar aðstæður, sterkur kvíði hjá Sólveigu fyrir nýjum aðstæðum en eilítill spenningur.

Drengir í ÞengliMitt í þessum hræringum öllum voru mörg verkefni.  Þengill fór á svið í magnaðri útfærslu snillinganna í GSNB.  Krakkarnir hvert öðru betra og sannkallað "Dream Team" fullorðna fólksins sem að sýningunni stóð.  Gunnsteinn leikstjóri og Diddi tónlistarstjóri fremstir í flokki en Sigrún B., Eygló, Lilja, Kiddý, Tinna og Mummi hvert öðru frábærara, fullt af öðrum kom að sýningunum og allir til í að hjálpa, Vala smíðandi leikmynd, Dagmar að vinna leiktjöld, gæsla á æfingum, rútufeðgarnir til í að gera allt sem í þeirra valdi stóð og mikil jákvæðni fyrir sýningunni í bænum.  Sýningarnar urðu nokkrar og hver og ein einasta fyllti mig stolti.  Sannkallaður draumur að ná að framkvæma slíka sýningu sem var startað með dásamlegri peningagjöf stjörnunnar okkar í Snæfellsbæ hennar Öldu Dísar - sem nú hefur loksins náð eyrum annarra en okkar verðskuldað.

Við stóðum líka frammi fyrir nýjum vinnutímaskilgreiningum sem við urðum að finna út úr í GSNB líkt og annars staðar á landinu.  Auðvitað tókst okkur það ágætlega þó auðvitað sé mikið verk óunnið á næstu árum að pússa það allt til.  Við lok þessa fyrsta þriðjungs, þann 1.maí var því skrefið staðfest en á sama hátt verið að ljúka skipulagi fyrir starfsár næsta skólaárs fyrir vestan.  Ein stutt heimsókn að baki í Seljaskóla sem fyllti mig tilhlökkun...en margt eftir að gerast enn.

Annar ársþriðjungur

Maí varð mánuður alls konar "loka" í lífinu í Snæfellsbæ.

Síðustu skiptin sem ég fór í vorferðina, síðasta prófatörnin, síðustu ráðningarnar og síðasta útskriftarathöfnin í Ólafsvíkurkirkju.  Á þessum tíma var ég reglulega að horfa yfir farinn veg og þau 9 ár sem ég hafði þann heiður að stýra öflugum hóp í GSNB.

Það kokkagalli á vorhátíðer ansi margt sem ég er stoltur af í því starfi, skólinn var rétt að slíta barnsskónum þegar ég tók við starfinu og allan þennan tíma vorum við að marka okkur stefnu og setja okkur þann stall sem við vildum fara á.  Það var á margan hátt erfitt að yfirgefa starfið á þessum tímapunkti, við vorum á góðum stað í námskrárvinnu og mörg spennandi verkefni í gangi.  Það var mér mikil ánægja að sjá hæfileikafólk sækjast um að verða eftirmaður minn og ekki síður þegar tilkynnt var um ráðningu að fyrir valinu varð metnaðarfullur skólamaður sem að ég er handviss um að leggur sig allan fram um að gera gott skólastarf í Snæfellsbæ enn betra en það var.

Erfiðar voru kveðjustundirnar.  Fyrst að kveðja krakkana á skólaslitum og ekki síðar þegar kom að því að kveðja samstarfsfólkið mitt.  Því tókst að fylla augun mín ryki það kvöld með fallegum orðum, söng og kveðjugjöfum.

Ég stóð stoltur upp úr stólnum mínum eftir árangursrík, gefandi og skemmtileg ár sem mótuðu mig mikið í starfi...og vera mín í Snæfellsbæ breytti mörgu í lífi mínu og hjálpaði mér að þroskast sem einstaklingur - upplifa margt sem ég ekki hafði áður kynnst.  Það varð fyrst og síðast vegna magnaðs fólks sem ég kynntist og gekk götuna með mér, eða flaug með mér um loftin blá með vængjaslætti fiðrildanna!

Það vona ég að almættið gefi það að samveru fái ég að sækja í vestur sem oftast á ævinni.

En svo kom sumarið og það var mikið fjör framundan.  Dómgæslan í fótboltanum var minni en áður, bæði var það að nú hafði fækkað um fótboltalið á Snæfellsnesi en það fjölgar líka yngri mönnum í stéttinni og þá eru þeir auðvitað teknir framyfir karla á fimmtugsaldri!

Ég fékk það skemmtilega verkefni liðinn vetur að koma að þjálfun tveggja mjög efnilegra markmanna fyrir vestan, þeirra Baldurs og Konna.  Það kveikti í mér fótboltaneistann og ég samþykkti að verða þjálfari/liðsstjóri hjá 5.flokki kvenna hjá Snæfellsnesi á Pæjumótinu í Eyjum þar sem Birtan mín var á meðal keppenda.

Pæjur í EyjumSkemmst er frá því að segja að þeir dagar voru hreint bráðskemmtilegir á allan hátt.  Stelpurnar sér og sínum til sóma og ég fann það greinilega þessa daga að ég hef greinilega ekki lokið leik þegar kemur að afskiptum af fótbolta.  Eftir Eyjar ákvað ég það að þegar suður yrði komið ætlaði ég að finna mér farveg sem myndi veita mér ánægju og vonandi þá verða til þess að skila til íþróttarinnar einhverju af því sem ég hef til hennar sótt.

Sigríður Birta var býsna öflug í boltanum í sumar eftir frekar áhugalítinn vetur.  Hún fór í nokkra leiki og á Símamót með sínum flokki og stóð sig vel.  Sólveig Harpa fór "all in" í fótboltann og fékk nú að fara á nokkur mót.  Hún er töluvert tapsárari en eldri systir sín og var margar vikur að ná sér eftir að hafa tapað úrslitaleik á Símamótinu með hlutkesti (er eiginlega enn fúl) en var sér og sínum til mikilla sóma, svosem eins og allar dæturnar hafa verið alla tíð.

Ég fékk aftur tækifæri til að aðstoða vini mína Vidda og Þóreyju á Álfheimum á Borgarfirði Eystra í tengslum við Bræðsluna.  Nú langaði mig að koma fyrr að öllu og kynnast fólkinu sem ég ynni með áður en að Bræðslu kæmi og keyrði austur mánudag fyrir Bræðslu en Helga og dæturnar komu fljúgandi á fimmtudegi.

Nýr aðalkokkur var mættur til starfa, árið 2014 var það Tóti Skagstrendingur sem stjórnaði hlutum en núna var það Hjalli Vestmanneyingur sem stýrði eldhúsinu af mikilli röggsemi og leyfði mér að koma að verkunum.  Mikið ofboðslega sem mér fannst þetta skemmtilegt.  Andrúmsloftið á Álfheimum og firðinum flotta þarna fyrir austan er bara þannig að á mann sest yfirvegað sælubros sem stendur allan tímann sem maður er.  Þrátt fyrir ofboðslega kalt sumar og blautt var æðruleysi fólks alla vikuna algert og vandvirknin réð ríkjum í matarverkunum.

Maggi á BræðsluHjálmar alvanur í hópamatseld og allt klappað og klárt með góðum fyrirvara.  Ég held ég sé ekkert að skrökva þegar ég segi að við höfum svo töfrað fram magnaðar veitingar á Bræðsluhelginni og að þessu sinni voru miklu fleiri sem sóttu í krásirnar en árið áður.  Það voru þreyttir en glaðir kallar sem trilluðu svo á tónleikastaðinn laugardagskvöldið á þeirri helgi.  Fjölskyldan þurfti svo að yfirgefa svæðið hratt að Bræðslu lokinni þar sem nú var kominn tími á flutning en mikið vona ég nú að þau hjón sjái sér fært að ráða skólastjórann aftur í slíka vinnu sumarið 2016.

Það eru vissulega langir vinnudagarnir og mikið í gangi.  En sá kraftur sem ég hef náð að sækja mér í faðm Álfheima og fólksins þar hefur enst langt frameftir vetri og er ómetanlegur með öllu.  Ég átta mig á því að ég og mín þátttaka í ævintýrinu verður aldrei í neinu lykilhlutverki en vona þó að kraftarnir nýtist...og fyrir þá sem ekki hafa upplifað Borgarfjörð Eystri, Bræðslu og Álfheima segi ég bara DRÍFIÐ YKKUR!

Ég fullyrði að það er enginn tónlistarviðburður á Íslandi jafn magnaður og Bræðslan...hvað sem síðar verður...þá er þetta mögnuð hátíð svo full af hlýju, vináttu og fagmennsku. Hrein dásemd sem þeir Heiðar og Magni hafa kokkað upp og látið malla svo fallega.

Ágústmánuður birtist, við höfðum byrjað að tína ofaní kassa í gegnum sumarið en nú stóðum við frammi fyrir stóru áföngunum.  Við vorum búin að fá leigt fyrir sunnan og leigja okkar hús fyrir vestan.  Ákveðið að verða Breiðhyltingar, flytja í Dalselið og stelpurnar færu í Seljaskóla.

Fyrst áttum við þó dásamlega Verslunarmannahelgi sem náði hámarki með "Selhólnum 2015" þar sem við skemmtum okkur vel með dásemdarvinum okkar á nesinu og fengum góða vini að sunnan sem bónus í gleðinni.  Sannkallaður draumaendapunktur á verunni á Hellissandinum okkar góða.

Það var svo þann 15.ágúst að hann Eggert vinur minn frá Berunesi kom á flutningabílnum og fyllti hann af dóti sem var ferjað inn í Dalselið það kvöld.  Ég hafði þá verið á dýnuflakki einhverja daga þar sem vinnan mín í Seljaskóla hófst 9.ágúst en frá þessari helgi hófst Reykjavíkurævintýri fjölskyldunnar sem nú var flutt í #beztaBreiðholt og hóf að aðlaga sig nýjum veruleika.  Það að horfa á eftir bílnum í galtómu Helluhólshúsinu var skrýtið og ryk fyllti augu...frábærri veru undir Jökli lokið.

Hekla lenti inn á spítala í upphafi ágúst eftir svæsna útgáfu Einkyrningssóttar og hún hafði verið með mér í dýnuflakki fram að því, hún flutti svo til okkar í upphafi september.  En dagarnir í ágúst mörkuðust af aðlögun á margan hátt.  Helga Lind hóf störf í Mími og stelpurnar fóru í Seljaskóla með mér og fóru að æfa með ÍR í fótboltanum.  Fyrstu merki voru strax góð hjá fjölskyldunni. 

Ég fékk stór verkefni strax í upphafi vinnunnar sem kölluðu á það að ég kynntist starfsmönnum og starfinu hraðar en kannski var reiknað með.  Það held ég að hafi reynst ágætlega þó vissulega hefði verið skemmtilegra að þær aðstæður hefðu kviknað af öðrum völdum.  Ég fann frá fyrsta degi í Seljaskóla að ég væri enn þeirrar gæfu maður að vinna á öflugum vinnustað.  Gegnumgangandi kraftur og metnaður í öllu starfsfólki og mikil tilhlökkun að takast á við verkefnin.

Þegar annar þriðjungur ársins var að baki í ágústlok vorum við því lögð af stað í nýtt verkefni full tilhlökkunar en að baki það að hafa kvatt heimili okkar til níu ára og frábæra vini.  Hvirfilvindurinn alveg á fullu ennþá!

Þriðji þriðjungurinn

1.september markar upphaf lokaþriðjungs.  Þann dag var ég búinn að vinna tvær vikur eftir að börn og starfsmenn í Seljaskóla komu til vinnu og stöðugt meiri tilhlökkun að byggjast upp fyrir komandi verkum.  Sá andi sem ég hafði hingað til talið mig vera að finna var einmitt það sem ég fór að upplifa, fólk tók vel á móti mér og mínum pælingum frá fyrsta degi og ég fékk að læra fullt af kollegunum strax á fyrsta degi.

Það hjálpaði mér klárlega að þekkja vel til í Breiðholtinu.  Ég kynntist hverfinu árið 1996 þegar ég flutti frá Sigló og það varð eiginlega bara strax ást við fyrstu kynni.  Andinn í hverfinu er uppbyggilegur og jákvæður og endalaus  kraftur býr í því og íbúum þess.  Ég finn það að hverfið er að rísa enn ofar í samfélaginu og mér fannst ég strax fá hlutverk í því...og margir samherjar í hverfinu einstaklingar sem ég hafði þekkt frá fyrri tíð. Algerlega frábært.

Yngri systurnar féllu strax inn í hópana sína.  Það hjálpaði þeim báðum að vera í fótboltanum og kynnast þar stelpum í skólanum en þær eignuðust strax vini í bekkjunum sínum og aðlögun að 630 barna skóla og bekkjum með 60 - 70 félögum var afskaplega átakalítil og einföld.

Þær ákváðu svo að nýta sér það að vera komnar í borgina, þær höfðu væntingar um marga vini og mikið prógramm.  Það gekk eftir, fóru báðar í kór...en urðu þó að fara í sinn hvorn kórinn þar sem kórinn í hverfinu endar við lok 5.bekkjar.  Sigríður Birta fór því í Stúlknakór Reykjavíkur með aðsetur í Grafarvogskirkju, báðar hafa notið sín þar frá fyrstu mínútu.

Þær vildu fá að prófa nýjar íþróttir.  Margar bekkjarsystur Sigríðar Birtu voru í handbolta hjá ÍR og hún dembdi sér á kaf þangað...pabbinn varð auðvitað að brosa útí annað þegar hann sat á fyrsta mótinu og hugsaði um kröftugar samræður um það hvort handbolti væri leikur eða íþrótt á kaffistofunni í Ólafsvík.  Enda margir sem rifjuðu þær samræður upp við mig.  Handboltinn hefur gengið vel og hjálpaði aðlögun hennar enn frekar.

KörfuboltadömurSólveig Harpa fór á fótboltaæfingu en sá þá körfuboltaæfingu  fyrir sinn aldur á  öðrum stað í íþróttahúsinu.  Þar var verið að leika í köðlum og hún fór umsvifalaust af fótboltaæfingunni og í körfu.  Tilkynnti föðurnum að hún væri hætt í fótbolta því karfa væri miklu skemmtilegri...því þar fær maður að vera í köðlum! Sem betur fer voru æfingatímarnir lagaðir til þannig að hún gat þó tekið þátt í báðum íþróttum og hún hefur notið sín í botn í bláhvíta búningnum í hvorri íþróttinni sem er.  Pabbinn hefur virkilega gaman af því að stunda körfuboltamót enda lengi vel draumurinn að ná langt í þeirri íþrótt, þar til að ég stoppaði vöxt í 180 sentimetrum.  Mamman hins vegar brosti út í annað að sjá dótturina dripla körfubolta, fannst það eilítið afrek miðað við sína eigin hæð og íþróttaiðkun í gegnum tíðina!

Svo að strax frá upphafi tók Breiðholtið vel á móti snæfellsku blómarósunum.  Það var auðvitað það atriði sem við mest kviðum fyrir í flutningunum og því mikill léttir að sjá þær njóta þess að eignast nýja vini - nokkuð sem þær voru ekki vissar um að tækist.

Mikið at einkenndi fyrstu vikurnar og mánuðina, við Helga bæði á nýjum vinnustað og að læra aftur á lífið í Reykjavík.  Systurnar yngri dembdu sér í fjörið og allt á fullu.  Hekla flutt í Dalselið og nýta það að gamli var mættur á svæðið.  Thelman að nema stjórnmálafræði, komin í uppáhald hjá Hannesi Hólmsteini og vinnandi á Slippbarnum með skólanum.

Við fórum hægt og rólega að standa við það að rækta betur tengslin við ættingjana.  Afi og amma heimsótt í kaffi, vinirnir fengu sinn tíma og reglulegir hittingar með þeim nánustu.  Hins vegar alveg ljóst að við ætlum okkur enn betri hluti í þeim efnum nú þegar rykið er aðeins að setjast á verunni allri.  Þá ekki síst til að eitt aðalatriðið sem við ætluðum að ná var að efla samband systranna fjögurra sem höfðu í níu ár verið alltof sjaldan á sama staðnum.  Það verður enn betra held ég...því þeim finnst oftast gaman þegar þær koma saman!

 

Stelpur í sófa

Desember kom að lokum eftir alls konar veður...þó vissulega hafi blásið minna en við þekktum fyrir vestan bunkaði töluvert af snjó og gamli Hyundai fékk uppreisn æru. Ég hef ekki saknað þess að vera daglega yfir veðurfréttum á vetri og reyndi lengst af að ganga til vinnu á morgnana, allt þar til hálkan dró mikið úr ánægjunni.  Það finnst mér forréttindi í raun, að geta gengið til vinnu og aftur heim.

Ég hef áður rætt að mig langaði að koma meira að fótbolta fyrir sunnan en ég hafði gert fyrir vestan.  Óskaplega sem ég varð nú glaður að það virtist eftirspurn eftir mér í þess lags vinnu.  Ég varð ekki minna glaður þegar að klúbburinn minn var tilbúinn að koma til móts við það sem mig langaði mest að gera og réð mig sem markmannsþjálfara í klúbbnum.  Bæði hjá þeim ungu og efnilegu og svo þeim sem eiga að halda merki meistaraflokksins á lofti.  Það var óskaplega gaman að labba inn á ÍR-svæðið merktur klúbbnum aftur.  Það er klárlega jákvæð bylgja í fótboltanum hjá ÍR og nú í lok ársins er ég kominn líka af stað í hóp sem ætlar að nýta þann kraft og auka gleðina í félagsstarfinu, félaginu og hverfinu til heilla.

Svo kláraðist önnin og jólahefðirnar allar aðlagaðar að nýju svæði.  Eins og annað sem gekk á árinu ýmislegt sem maður saknaði en annað sem maður gat nú gert sem maður hafði saknað áður.

Heilt yfir býsna gott ár bara hjá fjölskyldunni, þung skref á margan hátt og svefnlitlar nætur vissulega oft á dagskránni en á móti hefur öll aðlögun gengið vel og smátt og smátt verður öryggið meira í öllum aðstæðum hér í borginni við Sundin.

Framundan er árið 2016

Já, árið 2016.  Árið þar sem ég verð 45 ára og 20 ár síðan ég flutti frá Sigló. 

Maggi og HelgaÞað er engin klisja að maður á að fagna hverju ári - það er eitt og sér gleðilegt að eiga heilbrigð börn og fylgjast með þeirra framgangi.

Svo er það vinnan og þau verkefni sem framundan eru, þar hlakka ég til margra hluta.  Við í Seljaskóla erum alltaf að stíga nær hvert öðru og marka þá leið sem við svo ætlum að þramma saman.  Hópurinn er að stilla sig stöðugt betur saman eftir inntöku margra nýliða og krafturinn stöðugt að aukast.  Svo er líka framundan Lurkaþorrablót, jebbz, kallaklúbbur á staðnum takk fyrir.  Það er ekki sjálfgefið svosem í grunnskólanum en mikið fagnaðarefni að hafa töluverðan karlahóp á kaffistofunni með öllum frábæru konunum.

Í janúar verður verðugt verkefni hjá okkur á kop.is þegar um 140 ferðalangar ætla að fylgja okkur til Mekka fótboltans, Anfield í Liverpool að horfa á leik heimamanna við erkióvinina í Manchester United.  Þetta er langstærsta ferðin okkar til þessa og nú ætlum við allir fjórir að stýra ferðinni, auk fulltrúa Úrvals Útsýnar.  Mikið vona ég að þeirri hefð verði viðhaldið að Liverpool vinni þá leiki sem við Kop-arar förum með hópferð á!

Þegar líður á vorið er ég að vona að mér takist ásamt góðum vinum að vinna skemmtilegri hugmynd brautargengi, meira af því kannski síðar.  Það er líka mikil tilhlökkun með vorinu að vera nú enn meiri þátttakandi í boltanum en liðin ár með aðkomu minni að ÍR.  Ég ætla að halda í flautuna um sinn og vona að ég fái enn einhver verkefni í því starfi.

Á árinu 2015 fékk ég líka mörg skemmtileg verkefni hjá snillingunum á Fótbolta.net og það er stefnan að halda því áfram.

Mest ætla ég þó að njóta þess að vera nær allri fjölskyldunni en áður.  Það var langstærsta ástæðan fyrir skrefinu aftur suður og það er staðföst stefna að nýta sér það tækifæri sem gafst til þeirra flutninga.  Vonandi verður sumarið gott þannig að hægt verði að grilla með vinum og fjölskyldu, hvort sem verður í #beztaBreiðholti, Akranesi, Garðabæ, Hafnarfirði, Vestmannaeyjum, á Norðurlandinu eða hvar sem er.  Vonandi svo ferð á Borgarfjörð í júlí.

Er ekki bara að mörgu góðu að stefna...

Ef einhver er hér ennþá að lesa þakka ég áhugann og lesturinn. 

 

Megi árið 2016 vera þér og þínum gæfuríkt og gleðilegt!!!


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband