Bjartur í Dalseli

Efast ekkert um það að mjög margir sleppa því að lesa þennan pistil enda pólitískur.  Tilfinningin er að mjög margir hafi gefist upp á pólitíkinni og það svosem er alveg viðhorf.  Svo veit ég líka alveg að viðlíkendur pólitíkusarpælinganna minna eru ansi fáir miðað við aðrar Fésbókarpælingar.

En núna, kvöldið fyrir kosningadaginn þá held ég að ég allavega þarfnist lokunar á þessa baráttu...því satt að segja þá hefur hún komið mér á óvart töluvert og það stefnir vissulega í að minn flokkur virðist vera í útrýmingarhættu að þessu sinni.

Ég hef lengi haft skoðanir á þjóðmálum og staðið í pólitískri umræðu lengi.  Var í flokksstarfi inni í Samfylkingunni eitt sinn en það urðu ákveðin straumhvörf í mínum pælingum þegar ég hlustaði á Guðmund Steingrímsson lýsa sinni sýn á pólitík haustið 2010.  Hann bara sagði allt sem ég vildi segja um þörf á heiðarlegum stjórnmálamönnum sem væru ekki stanslaust lofandi hlutum að fólki, uppfullir af skilaboðum auglýsingastofa og vel fótósjoppaðir auglýsingabæklingar að berjast um íslenskar póstlúgur.

Í framhaldinu hringdi ég í Gumma og við áttum frábært morgunkaffispjall á Hótel Borg.  Fljótlega hitti ég fleiri einstaklinga sem hann hafði átt samtal við.  Nokkrum mánuðum seinna sat ég í hring með fólki sem lýsti sínum skoðunum byggðum á manngildi og trú á einstaklinginn.  Frjálslynt og umburðarlynt fólk.  Við stofnuðum Bjarta Framtíð.

Frá fyrsta degi höfum við þurft að útskýra okkur og hvers vegna við erum ekki svona eða hinsegin.  Lengst hefur lifað stimpillinn um að við séum útskot úr Samfylkingunni, svo hafa fulltrúar okkar fengið að heyra það að þeir séu bara að einbeita sér að litlum málum sem engu máli skipta (klukkumálið krakkar...sem reyndar er víst orðið alheimsmál) og svo núna upp á síðkastið viljalausir dindlar Bjarna Ben og Sjálfstæðisflokksins.  Allt tilraunir til að finna eitthvað annað út úr okkur en við vildum vera.  Frjálslynt miðjuafl.

Við þurfum að horfa í naflann á okkur því við þurfum að sjálfsögðu að átta okkur á því hvað við gerðum vitlaust og hvers vegna við sátum föst í því fari. 

Hugmyndir um vitleysur?

  • Við lofum ekki nóg.
  • Við erum ekki nægilega grimm í því að benda á það hvað hinir eru erfiðir og leiðinlegir.
  • Við höfum ekki náð að varpa nægilegu ljósi á hugmyndafræðina og yfirlýsinguna okkar.
  • Við höfum tekið okkur of mikinn tíma í samtal um í stað að framkvæma verkin.
  • Við höfum ekki náð vísun út fyrir ákveðinn þjóðfélagshóp...þó við höfum reynt.

Naflaskoðunin virkar samt ekki í rauninni.  Því ég held að við höfum verið sjálfum okkur trú og því sem við vildum gera með Bjartri Framtíð.  Það er frjálslynt afl sem er tilbúið að vinna með flokkum víðs vegar um, með manngildi að leiðarljósi og reiðubúin til þjónustu fyrir samfélagið. 

Við erum það, höfum verið það í sveitarstjórnum frá því við lögðum af stað og höfum náð mörgum flottum áföngum þar.  Við erum sá flokkur frá því við hófum störf sem að höfum komið að flestum þingmálum annarra flokka, enda staðið við það að taka afstöðu til mála út frá hverju og einu en ekki út af "af því bara við erum á móti".  Við tókum svo ákvörðun um að reyna að setja á fót ríkisstjórn eftir tæplega tveggja mánuða stjórnarkreppu en þegar í ljós kom að við áttum að verða hlutlaust hjáhjól stórflokks hættum við auðvitað.

Dómurinn verður á morgun.

Á morgun verðum við einn valkosturinn.  Flokkur sem vill fá að þjóna almenningi, frjálslynt afl sem hefur ekki hikað við að taka ákvarðanir byggðar á hagsmunum þjóðar en ekki sérhagsmunum.  Við höfum aldrei þegið framlög frá fyrirtækjum vegna þess að við höfum orðið vör við þau ítök sem það þýðir. Það má einfaldlega ekki verða norm stjórnmála.

Við höfum hugmyndir um sjávarútveginn, menntamál, utanríkismál, húsnæðismál, málefni aldraðra og hvað sem er.  Við lofum því að taka alltaf ákvörðun í kjölfar vandlegrar umhugsunar byggðum á heildarhagsmununum.

Ég veit um fullt af öðrum valkostum, sem margir hverjir hafa tilkynnt um tuga og hundruðamilljarða útgjöld úr ríkiskassanum...en ætla samt ekki að hækka skatta.  Þeir vísa í fyrri störf sín fyrir þjóðina...og ég held að það gæti nú alveg hjálpað einhverju fólki að kjósa þá ekki.  En þannig er bara ég.

Björt Framtíð mun ekki fá neinn æðsta dóm á morgun.  Við sem bjuggum til hugmyndafræði flokksins á sínum tíma trúum enn jafn mikið á hana og munum klárlega fara vandlega yfir stöðuna á sviðuna í kjölfar þess hvað verður talið upp úr kjörkössunum á morgun.

Þeir sem hafa lesið þennan pistil allan eru vonandi ennþá að velta því fyrir sér að setja X við A á morgun, laugardaginn 28.október.  Mikið myndi það gleðja mig að sú ákvörðun yrði fyrir valinu - því við eigum svo margt eftir að gera til að Ísland eigi þá Björtu Framtíð sem landinu okkar ber.

 

Gleðilega lýðræðishátíð krakkar...veljum umburðarlynd öfl sem vilja vinna þjóðinni sinni gagn og gleði. 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband