Stolt #hvítblátt hjarta!

Það er of sjaldan í lífinu sem maður leyfir sér að njóta þess að vera stoltur.  Þegar á miðjan aldur er komið þá tengist þetta stolt yfirleitt alltaf árangri fjölskyldu sinnar eða þá þeirri vinnu sem maður er að bauka við hvert sinn.  

Í dag ætla ég að leyfa mér að vera stoltur af sjálfum mér, því í dag ákvað Íþróttafélag Reykjavíkur að verðlauna sjálfboðaliðastarf mitt fyrir félagið í gegnum tíðina og veita mér það silfurmerki sem hér er á mynd með ásamt 12 öðrum öflugum ÍR-ingum.

ÍR kom inn í líf mitt vorið 1996 þegar ég ákvað að slíta mig upp frá mínum ástkæra Siglufirði og halda í borgina til að vinna og lifa.  Það var engin tilviljun að ég valdi það að spila fótbolta með ÍR, Stjáni vinur minn var að þjálfa þarna og vildi fá mig inn í hópinn með sínum unga og frábæra markmanni.  Í mars það vor var ég fenginn á Ásvelli í Hafnarfirði til að leika æfingaleik.  Ég man ekki á móti hverjum, ég þekkti engan sem ég spilaði með en mundi þó eftir liðsstjóranum þeirra frá góðum árum með KS stuttu áður.  Bjössi Gunn var sá höfðingi, ég man mjög vel eftir því að hann kom inná strax eftir leikinn og tók í hendina á mér, sagðist ánægður með að vera búinn að fá grjótharðan sveitamann í ÍR þó hann væri Liverpoolmaður.  Í kjölfarið kom svo blaðskellandi gaur frekar kuldalegur út úr bíl, labbaði til okkar og sagði beint við mig..."hvernig er það eiginlega - þegir þú aldrei inni á fótboltavelli"...um leið og hann hló, sagðist heita Óðinn en vera kallaður Þrífótur.  Með honum var legend sem ég þekkti frá því að hafa spilað við hann, besti miðjumaður í sögu félagsins...Bragi Björnsson...sem var þarna kominn í stjórn félagsins og var formaður lengst af minni þjálfunarsögu hjá félaginu eftir síðustu aldamót.

Það er örugglega klisja en strax á þessum fyrsta degi leið mér vel í ÍR.  Þessir fjórir sem ég hef nefnt hér áttu stóran þátt í því, en strákarnir í liðinu voru ekki síður frábærir.  Þetta var glaður hópur, langflestir á sama aldri og einstaklega skemmtilegir utan vallar.  Var fljótlega boðið "Kafteinsklúbbinn" sem var einstakur!

Í barnæsku sá ég Val 1977 í bikarleik og frá þeim tíma hélt ég með Val í öllum íþróttum...og ennþá slær taktur á Hlíðarenda í ótrúlegum ástæðum.  FH spilaði ég með í 2.flokki og hef þjálfað hjá því félagi og þykir alltaf mjög vænt um ættflokkinn í Kaplakrika, líka út af ættartengslum.  Sálin er alltaf KS-sál og ég er ótrúlega þakkláttur að hafa fengið að narta í enda þess fótboltaævintýris sem geysaði á Sigló fyrir 1990.  Þau níu ár sem fjölskyldan dvaldi á Snæfellsnesi gerði mig svo að sjálfsögðu að gegnheilum Víkings/Snæfellsnessmanni og það eimir sko heldur betur eftir taug þar eftir yndislega stjórnarsetu í knattspyrnudeildinni með mögnuðu fólki.

En frá árinu 1996 hefur ÍR verið stór þáttur í mínu lífi og lykill að þeirri vegferð minni að verða Breiðhyltingur.  Það gengur að sjálfsögðu á ýmsu í lífi íþróttafélags og það eru yfirleitt fleiri erfiðir tímar en góðir hjá klúbbi eins og hjá okkur ÍR-ingum.

Maður áttar sig á því þegar maður upplifir íþróttir í langan tíma að það er ekki alltaf sigurinn, titlarnir og fögnuðurinn sem situr eftir.  Vellíðan við íþróttir tengist alls ekki síður þeirri upplifun sem þeim fylgja daglega.  Vel heppnaðar æfingar, samtölin fyrir þær og eftir...og milli hittinga.  Það situr eftir í sálinni.

Og vinátta.

Vá, öll sú vinátta sem í klúbbnum mínum er. Og hvað ég hef eignast marga trausta og góða vini í gegnum vinnu mína fyrir félagið.  Sem leikmaður, þjálfari, áhugamaður og stjórnarmaður...og alls ekki bara í fótboltadeildinni.  Sem betur fer á ég vini í öðrum deildum félagsins, bæði þá sem nú eru að starfa og þá sem á undan voru.

Það var mér því mikil gleði þegar hringt var frá skrifstofu ÍR og mér tilkynnt að aðastjórn félagsins vildi veita mér viðurkenningu fyrir starf mitt hjá félaginu með því að næla í mig silfurmerki félagsins.  Í kjölfar símtalsins var svo viðburður í dag þar sem ég fékk fallegan blómvönd með silfurmerkinu.  Þegar nafnið mitt var lesið fékk ég gæsahúð og nýtti mér nýlegt núvitundarnám til að leyfa mér að njóta faðmlagsins við framkvæmdastjórann og formanninn þegar afhendingin fór fram.

Kannski verður manni það ekki ljóst þegar maður er að svekkja sig á úrslitum leikja, eða einhverjum öðrum atvikum í þessu íþróttalífi öllu hvað það gefur mikið að fá ákveðna útrás fyrir ofvirkni félagslega og fylgjast með verkefninu vinnast áfram...og vona að það fái að dafna.

Í dag var mér það ljóst. 

Kæru ÍR-ingar.  Takk fyrir samfylgdina...allt frá fjórmenningunum frábæru til þeirra sem ég er að kynnast þessa dagana.

Mitt #hvítbláahjarta slær fast í dag og hlakkar mikið til komandi tíma, ég trúi því staðfastlega að framtíð félagsins míns sé björt...í fleiri íþróttagreinum en bara minni - en klárlega í minni.

Áfram ÍR...alltaf!

 

#beztaBreiðholt #hvítbláahjartað 

ÍR_merki

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband