Af Sandinum er þetta helst!

Costa del Hellissandur.  Þvílíkur hiti hér sunnan við húsið, skaðbrunninn á enninu og perustefnið (maginn) að verða bleikur.  Ekki ský á himni og náttúran í fegursta gírnum.

Hekla átti afmæli 28.júní, orðin 10 ára.  "Tíminn flýgur áfram og teygir mig á eftir sér"  Tilvitnun í Magnús Þór Jónsson (Megas) lýkur.....  Bauð bara tveim vinkonum hér í gellu-, nammi-, video- og gistiveislu.  Gekk bara vel.

Ég dæmdi svo hörkuskemmtilegan 3.deildarleik í Borgarnesi á föstudagskvöldið, Skallagrímur - Hvöt.  Bara hörkuleikur sem endaði með 2-1 sigri aðkomumannanna frá Blönduósi.  Mikið að gera, en held mér hafi gengið ágætlega.

Helga Lind ákvað að skreppa til móður sinnar og Ölla í bústaðinn þeirra í Tungunum á laugardagsmorgninum.  Við Hekla fórum og hjálpuðum Fúsa og Sigrúnu með pallinn þeirra ásamt Gunnari Erni Evertonmanni og kennara fram til kl. 17.  Þá komu Fúsi og Sigrún á Selhólinn og grilluðu með okkur.  Indælis kvöldstund með góðum mat og drykk.

Í morgun vöknuðum við Hekla um hálf tíu, rifum í okkur morgunmat og stormuðum í hvalaskoðun frá Ólafsvík.  Stórkostlegar þrjár klukkustundir þar, fyrstu hvalirnir sáust eftir fimm mínútur og við vorum í þvílíkum hvalavöðum allan tímann.  Höfrungar, sem m.a. hoppuðu um hafið fyrir okkur.  Hrefnur sem sáust þvílíkt vel, enda að borða og voru ekkert að kippa sér upp við forvitna túrista.  Hefðu verið auðveld bráð.....  Miklu stærri dýr en ég hélt!  Svo fengum við Háhyrninga í lok ferðar, í þvílíkri nálægð.  Köfuðu í kringum bátinn og komu upp á yfirborðið svo nálægt að manni fannst maður geta klappað þeim.  Stafalogn, spegilsléttur sjór og fjöllin eins og á striga.

Frábært.  Skora á alla að prófa svona túr!  Reyndar fannst mér ansi hreint magnað að skipstjórinn kom til mín í upphafi ferðar og spurði hvort ég treysti mér til að skilja sig á ensku.  Það kæmu aldrei Íslendingar í þessar ferðir og hann ætti erfitt með að þýða ræðuna sína á íslensku!!!!  Spáið í það.  Í ferðinni voru nær eingöngu Danir sem hafa borgað tugi þúsunda fyrir skemmtunina með öllu, en við Íslendingarnir förum ekki í slíkar dásemdarferðir. Skamm!!!  Við borguðum 5000 fyrir ferðina og það var sko þess virði!!!

Svo komum við heim, ég sofnaði í sólinni í garðinum og fór svo í það að grilla fyrir okkur Heklu.  Kjúklingaleggir, kartöflur og maís á grillinu.  Og svo aðalrétturinn sem rann alveg hrikalega ljúft niður hjá okkur feðginunum.  Hrefnukjöt.  Ákaflega gott á bragðið og við fengum ekkert samviskubit yfir að borða af eins dýri og við höfðum dáðst að fyrr um daginn.

Nú erum við bara að fara að sofa..... Góða nótt í bili.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband