Af skoðanakönnun

Ákvað að aftengja skoðanakönnunina mína í kvöld.

Hafði staðið í 4 mánuði og alls 175 atkvæði bárust.  Af þeim sem greiddu atkvæði voru 73% svarenda tilbúnir að búa með fjölskyldu sinni utan höfuðborgarsvæðisins.

Auðvitað var ég bara að fá staðfestingu á því að ég og mín fjölskylda hefðum gert rétt. Grin

En svona án gríns langaði mig aðeins að sjá hvort þeir sem á þessa síðu mína kíktu væru tilbúnir að líta út fyrir höfuðborgarsvæðið.  Sem betur fer er yfirgnæfandi meirihluti til í það.

Ég held að mesta holskefla landflutninga suður sé yfirstaðin og í sífellt meira mæli er að tínast fólk til baka.  Ég bjó á höfuðborgarsvæðinu í 11 ár og leið þar afar vel.  Síðustu árin fannst mér þó vinaleg borg verða stórborg, með löngum röðum á vegum og í búðum, miðbærinn aggressívari og allt dýrara en áður.

En kannski var ég bara að eldast????

Allavega, við Helga renndum blint í sjóinn hér á Snæfellsnesinu og stóðum við það að prófa landsbyggðina á ný.  Sjáum ekki eftir því.

Auðvitað er sumt sem við söknum, fjölskyldunnar mest, auk þess sem auðvitað var margt í þjónustusamfélaginu á höfuðborgarsvæðinu sem auðveldara er að nálgast en hér.  Mér finnst reyndar ástæða til að kvarta undan þjónustu nokkurra aðila á höfuðborgarsvæðinu sem telja sig ekki þurfa að þjónusta landsbyggðina.  En geri það seinna.

En í staðinn höfum við fengið margt sem við ekki höfðum.  Miklu meiri tíma í okkur sjálf, barnauppeldi og samskipti við nágranna og nú vini.  Lítið samfélag sem tók vel á móti okkur og hefur fullt að bjóða sem við hefðum ekki hugsað okkur að gera "fyrir sunnan".

Auðvitað skiptir máli að næg atvinna er og enginn barlómur í neinum.  Það skipti mig líka máli að hér á nesinu er öflugt íþróttalíf, sérstaklega í mínum uppáhaldsíþróttum, fótbolta og körfu.  Miklu máli skipti líka að mikið er um fólk á okkar aldri hér, og við því náð að eignast góða vini með svipaðan status í lífinu og við.

Þess vegna erum við glöð að hafa tekið ákvörðunina, sem ekki var léttvæg á sínum tíma, að rífa okkur upp og flytja "út á land".  Í dag er ekki vafi að plúsarnir eru margfalt fleiri en mínusarnir og ég skora á einhverja þeirra sem hökuðu við já í skoðanakönnun minni að taka skrefið.

Hvort sem stefnan er á Snæfellsnesið, Berufjörðinn, Húsavík eða eitthvað annað.

En, ný skoðanakönnun komin í gang.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Já, landsbyggðin rokkar! Sammála þér með það að það var gott að búa í Reykjavík, en það er bara betra að búa úti á landi. Auðvitað er margt sem maður saknar úr borg óttans en ótal margt hér á eyjunni fögru sem kemur í staðinn fyrir það. Pældu líka í því að við öll systkinin búum núna úti á landi, enda smekkmanneskjur!

Drífa Þöll (IP-tala skráð) 15.8.2007 kl. 16:28

2 identicon

Láttu ekki eins og raðir í höfuðstaðnum geti ekki haft sína kosti. Þú værir nú ekki í þeirri hjúskaparstöðu sem þú ert í í dag nema fyrir langar leigubílaraðir;)

 Kærar kveðjur úr 105

Harpa Rut (IP-tala skráð) 15.8.2007 kl. 19:16

3 Smámynd: Hulda Margrét Traustadóttir

Jú, landsbyggðin rokkar endalaust.......finnst allt í lagi að skreppa í bæinn (borgina) en heima er best....höfum allt á Akureyri sem við þörfnumst - nema- börnin og barnarbörnin en þau þurfa sitt pláss til þess að átta sig !!! Ég elska að fá þau í heimsókn og elska kannski meira ættarmótin af því ég sé ykkur hin svo sjaldan. En við erum á sama skerinu nema auðvitað Drífa sem ég á eftir að heimsækja - næsta sumar .......Magga "móða" (MÓÐURSYSTIR - fyrir þá sem ekki vita)............

Hulda Margrét Traustadóttir, 15.8.2007 kl. 20:56

4 Smámynd: Magnús Þór Jónsson

Svei mér þá Harpa Rut.

Þetta er nú sennilega besta komment frá því þessi síða fór í gang!!!

Látum enga aðra vita út af hverju, en viðurkenni hér með fúslega að biðraðir, þó langar séu, geta verið virkilega til góðs!

Magnús Þór Jónsson, 15.8.2007 kl. 22:01

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband