Aðeins um íslenska umferðarmenningu.

Verð að viðurkenna það að mér blöskrar orðið yfirleitt í hvert sinn sem ég keyri í og svo um borgina.  Langar aðeins að heyra hvort ég er sá eini sem hef þessa sögu.

Fyrir það fyrsta er ég sko alls ekki bara að tala um stressið í Reykjavík.  Það hefur örugglega alltaf verið og fylgir stórborgum, eins og Reykjavík er að mínu mati orðin.  Svíningar á ljósum og svigakstur er orðið alvanalegt og virðist ekkert vera ráðið við, og bílaraðir á löngu sprungnum gatnamótum er reykvískur og "borgneskur" raunveruleiki.

En séríslensku eiginleikarnir finnst mér tengjast annars vegar vinnutækjum og hins vegar þeim misskilningi að öruggast sé að aka hægt.

Fyrst vinnutækin.  Er handviss að það er ekki í mörgum borgum þar sem 18 hjóla vörubílar, með hlassi, séu að taka pláss á umferðaræðum á háannatíma.  Hvað þá kranar, eða vörubílar með tengivagni með annan vörubíl uppá tengivagninum!  Þetta allt upplifði ég í Reykjavík í umferðinni milli kl. 17 og 19 sl. föstudag.  Einhvern tímann voru skilti sem bönnuðu umferð vinnuvéla á ákveðnum tíma, eða við Íslendingarnir tökum ekki mark á þeim reglum og komumst upp með það.  Hvort sem það er finnst mér tímabært að bragarbót verði gerð.  Það er að mínu viti kominn tími á að banna akstur vinnuvéla á ákveðnum svæðum á t.d. Kringlumýrar- og Miklubraut, alfarið.  Svo finnst mér kominn tími á að settar verði reglur og þeim framfylgt á t.d. Sæbraut, Breiðholtsbraut, Reykjavíkurvegi og Bústaðaveginum, auk þeirra annara stofnbrauta í íbúðahverfin sem ég ekki þekki.  Það að vera að þvælast með stórvirkar vinnuvélar á þessum brautum á háannatíma finnst mér eins vitlaust og ákveða að reka bara fílinn með lömbunum af fjalli.  Þegar hann misstígur sig verður stórt slys.  Betra er að láta fílinn koma af fjallinu þegar fá fara með honum lömbin.  Eins finnst mér með bílana.

Úti á þjóðvegi er sama vitleysan í gangi.  Við Helga mættum 43 stórum flutningabílum á leið okkar frá Borgarnesi að Akranesafleggjaranum, ca. 30 kílómetra leið um fimmleytið á fimmtudaginn.  Hver og einn þeirra var auðvitað Jónas lestarstjóri, því slíkir bílar fara hægar yfir en erfitt er að fara fram úr þeim út af lengd.  Ég hef lengi röflað um það að mér finnst að setja eigi upp reglur um það hvenær slíkir bílar keyra þjóðveg nr. 1, þ.e. á hvaða tíma.  Mér finnst að það ætti að vera eftir kl. 19:00 þegar reikna má með að almenn umferð detti niður.   Ef menn þurfa að fara fyrr af stað þá þarf að flakka leiðar utan þjóðvegs nr. 1.  Ég er viss um að flutningafyrirtækin eru ósátt, en bullið sem fylgir framúrakstri og hægri umferð þessara bíla er algert.  Það eru orðin ótal skipti, skipta tugum, sem ég hef neglt niður á leið minni suður, þegar einhver kemur á móti við að fara framúr.  Auðvitað er hægt að tala um að menn "eigi bara ekki að aka framúr", en t.d. í bleytu er nú ekki sérlega skemmtilegt að keyra á eftir slíku ökutæki.

Svo er það ökuhraðinn.  Tek það skýrt fram að ég á eina hraðasekt úti á þjóðvegi, 113 km. á Mýrunum fyrir nokkrum árum þegar ég var orðinn seinn í þjálfun.  Svo ein í Arnarbakkanum þegar ég var stöðvaður á 44 km. hraða á 30 km. hámarkshraða.  Tel mig því ekki hraðasjúkling.

Úti á þjóðvegi 1 hef ég lent á eftir bílum sem verið er að aka á 70 - 80 km. hraða við bestu aðstæður.  Ég hef komið inn í röðina sem bíll nr. 2, 6, 17, 29 eða eitthvað þaðan af aftar því allir eru þessir bílstjórar Jónasar (Jónas og fjölskylda sko).  Þetta kallar á gríðarlegan framúrakstur og mikinn pirring.  Ég held því að þegar verið er að tala um að hámarkshraði við bestu aðstæður sé 90 km. hraða þurfi að ræða líka um umferðarhraða.  Þegar menn aka á 70 úti á þjóðvegi við slíkar aðstæður eru þeir að skapa hættu.  Auðvitað ekki eins mikla og með glannaakstrinum, en engu að síður hættu.

Segið mér nú, er ég að bulla reyk, eða eru einhverjir sammála?


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Sæll Maggi! Þar sem ég er snæfellingur eins og þú þá keyri ég þessa leið ansi oft á ári og er ég alveg sammála þér með hægaksturinn, hef ansi oft lent í því að vera á eftir einhverjum á 70 og þegar færi gefst á að fara fram úr þá hækka þeir sig upp í 100 og svo lækka þeir sig aftur niður í 70. Og það sama má segja um alla vörubílana sem aka um vegina. Algjörlega sammála þér.

Sigríður Hallsteins. (IP-tala skráð) 10.10.2007 kl. 15:47

2 identicon

Sæll Maggi.

Dásamlegt hvað þú ert fljótur að verða hinn dæmigerði dreifbýlisbúi, hahahaha :)

Enn að öðru leyti er ég nú nokkuð sammála þér, annars hef ég hin seinni ár öðlast meiri ró þegar kemur að umferðamenningu okkar Íslendinga en ég hins vegar finn mjög greinilega fyrir streitunni sem fylgir því að keyra inn í Reykjavík og þá er víst bara að anda rólega og brosa framan í heiminn ;)

Guðný í Knarrartungu (IP-tala skráð) 11.10.2007 kl. 23:40

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband