Íslenski dagurinn
17.11.2007 | 09:50
Mér finnst 16.nóvember orðinn "Íslenski dagurinn", ekki bara dagur tungunnar.
Auðvitað er dagurinn helgaður tungumálinu, en tungumálið er svo samofið þessari litlu þjóð að við leyfum okkur að slá aðeins á brjóstið þennan daginn og tala um sigur okkar yfir áhrifum annarra og drögum upp hetjur sem voru lykilmenn í þeim slag. Jónas mestur auðvitað.
Of mikið hefur verið gert úr því á síðustu misserum að gera lítið úr hetjum 19.aldar finnst mér. Þessir menn áttu örugglega sín vandamál. Voru örugglega breyskir, sumir meira en aðrir.
En framlag þeirra til Íslands var ofboðslegt og ást þjóðarinnar á þeim var haldreipi á erfiðum tímum og veitti þjóðinni trú á því að hún gæti lifað sjálfstætt og ráðið sínum málum sjálf. Það er þeim að þakka að við sitjum hér á milli Færeyja og Grænlands, sjálfstætt lýðveldi.
Ég fylltist þjóðernisrembing og stolti yfir því að vera Íslendingur í gærkvöldi. Fannst athöfnin í Þjóðleikhúsinu falleg, verðlaunahafinn afar verðskuldaður og stofnanir þær sem verðlaunaðar voru áttu sín verðlaun líka skilin. Arfleifð Jónasar liggur í textum hans um fegurð þess smáa í umhverfinu og manninum. Þar á okkar styrkur að liggja. Við þurfum ekki að verða mest, ekki einu sinni miðað við höfðatölu.
Vöndum okkur bara við það að vera við. Íslensk, pínu sveitó, pínu ofvirk, hörkudugleg, umburðarlynd, með grófan húmor, afskiptasöm um náungann og ákveðin í að lifa lífinu lifandi.
Þannig lifðum við af á þessum harðbýla kletti í hafinu.
Sigurbjörn Einarsson hlaut verðlaun Jónasar Hallgrímssonar | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Athugasemdir
Sammála Maggi, mikið var ég ánægð með þessa dagskrá og stolt eins og þú. Fannst Sigurbjörn Einarsson tala af mikilli visku og orð í tíma töluð með allar ensku sletturnar og erlendu nöfnin á búðum og veitingastöðum. Leiðinlegt að missa af útsvari, varst þú þar ? Greinilega ekki alveg inni í málunum. Knús á línuna. Það var virkilega gaman að lesa um ferðalag ykkar til norður Írlands !
kv. Magga "móða"
Hulda Margrét Traustadóttir, 18.11.2007 kl. 13:20
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.