Eiðamanneskja fallin

Sælt veri fólkið!

Á mánudaginn hélt ég suður á bóginn, endaði í Fríkirkjunni í Hafnarfirði til að vera viðstaddur útför Birnu Björnsdóttur, Birnu í Endurvarpinu.

Birna bjó á Eiðum öll þau ár sem ég var þar, og bjó þar áfram eftir að við fluttum.  Til dánardægurs, en hún lést af völdum andstyggðarveiki sem virðist leggja marga að velli þessi árin, krabbameinið.

Birnu kynntist ég fyrst og fremst sem móður Rögnu, mikillar vinkonu minnar sem á alla mína samúð þessa dagana, kynntist eilítið þeirri angist sem fylgir því að fylgjast með baráttu móður manns við krabbamein, en mín vann þó sigur gegn því.  Seinna kynntist ég Birnu sem samnemanda í Alþýðuskólanum á Eiðum.  Innan um okkur vitleysingana á síðgelgjunni.  Hefur ekki verið létt.

En mig langar að votta Birnu virðingu mína og ættingjum samúð.

Erfidrykkja Birnu var falleg stund, þar sem Eiðafjölskyldan öll átti fulltrúa. Því miður hittumst við alltof sjaldan, þeir sem bjuggu á þessum yndislega stað svo lengi.  Síðast þegar það gerðist var það í jarðarför sómakonunnar Valgerðar.

Ég ræddi það við hann pabba minn, og vona að eitthvað verði úr, að kannski væri kominn tími á að við Eiðabúar tækjum okkur til og reyndum að finna vettvang til að hittast.  Þarna voru allir vinir, óháð aldri og stöðu, allir skiptu þar máli og í nútíðinni og framtíðinni langar mann til að frétta af þessu fólki og hitta til að spjalla.

Áfram Eiðar!!!!!


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Magnús Þór Jónsson

Hæ Malla.

Vorum sko örugglega einhvern tíma ribbaldar!

Ég og Siggi Bjarna (Stöddari) stóðum fyrir hitting okkar árgangs á 10 ára útskriftarafmælinu, sem var heljarskemmtilegt og svo veit ég að Helgi Hlynur gerði tilraun með fimm ára tímabil sem ég komst ekki á, var þá búandi á Siglufirði.

Svo er náttúrulega Skúli Björn á hverju ári með Hollvinahitting í ágúst á Eiðum.

Við vorum þarna nokkur í jarðarförinni sem vorum að spjalla um það að ekki væri vitlaust að reyna að standa fyrir hittingi fyrir sunnan líka hjá gömlum Eiðanemum, á þann hátt að makar og börn ættu líka möguleika á að gera eitthvað skemmtilegt líka.  Ég er t.d. í Siglfirðingafélagi og Árneshreppsbúafélagi út af ætt og búsetu.  Í þeim báðum er eitt skrall á ári sem er virkilega gaman að standa í.  Á sama hátt hef ég fylgt konunni á Nobbaraskröll á Hótel Íslandi.  Austfirðingaböll á Players klikka oftast ekki.

Kannski væri hægt að búa til eitthvað svipað fyrir uppgjafaribbalda, sem ferðuðust víða, meira að segja norður á STRANDIR til að skralla.....

Magnús Þór Jónsson, 12.1.2008 kl. 09:03

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband