Kútmagakvöld í Röstinni!

Í kvöld er einn stærsti viðburðurinn í atburðadagatalinu á Hellissandi.  Kútmagakvöld okkar Lionsmanna, þar sem íbúar Snæfellsbæjar, 60 ára og eldri eru settir í aðalhlutverk.

Við Helga fórum í fyrra og það var heljargaman, svo ekki sé nú meira sagt!  Maturinn er náttúrulega forn að flestu leyti, þó auðvitað séu líka réttir úr nútímanum.  Allt sjávarfang.  Í aðalhlutverkinu auðvitað sjálfir kútmagarnir.  Eða kúttmagarnir?? 

Fyrir þá sem ekki vita er kútmagi nafn yfir það þegar þorskalifur er sett inn í þorskmaga og þetta er svo soðið við lágan hita í langan tíma.  Önnur tegund er svo blanda af þorskalifur og rúgmjöli inn í magann, sama eldunaraðferð.  Ég ætla nú ekki að skrökva því að þetta sé uppáhaldsmaturinn minn, en þó er sá með rúgmjölinu fínn og það er þrælskemmtilegt að borða svona öðruvísi mat.  Meðal annarra rétta er auðvitað hákarl og harðfiskur, siginn fiskur, gellur auk rétta úr skötuselnum, ýsunni, löngunni og öllu því.

Skemmtiatriðin koma úr ranni heimamanna, í mér er mikil tilhlökkun að fá að heyra Fúsa félaga minn syngja Roger Whittaker lög, sá eðalmaður örugglega með eðalbarka!  En fyrst og síðast er auðvitað skemmtilegast að krydda tilveruna smá, þó í kvöld sé maður líka í smá þjónustuhlutverki sem Lionsmaður.

Það eina sem skyggir á er að húsfrúin á heimilinu hefur verið mjög slæm í magapest og treystir sér ekki með í þetta skiptið.  Stóð sig vel í kútmaganum í fyrra!  Maður stoppar þá auðvitað bara styttra í kvöld.

Annars bara allt gott, var kosinn í stjórn Skólastjórafélags Vesturlands á aðalfundi í Borgarnesi á fimmtudaginn, ánægður með það traust.

Svo erum við Helga að fara á Akranes á mánudaginn að hitta læknana á sjúkrahúsinu þar.  Stefnt er að fæðingu erfingjans þar og við munum þá ákveða hvort við ákveðum fæðingardag, þ.e. förum í keisaraskurð sem ákveðinn verður fyrirfram.

Meira af því síðar.....


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Keisari..hví er það??

Vá hvað tíminn líður hratt..styttist óðum í krílið.

Góða skemmtun í kvöld og batakveðjur til Helgu..

Stella (IP-tala skráð) 19.1.2008 kl. 16:28

2 Smámynd: Örn Ragnarsson

Maggi minn

Bið að heilsa Helgu og öðrum heimilismönnum svo sem birtu litlu.

Aldrei hef ég smakkað kúttmaga svo mér finnst að næst þegar við Gulla komum í heimsókn ættir þú að sjá sóma þinn í að bjóða upp á eitthvað slíkt. Svona moldarkofamat.

Annars, kíktu á nýjustu myndir á bloggsíðunni minni.

Pabbi

Örn Ragnarsson, 20.1.2008 kl. 21:43

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband