Stúlka fædd!

Sælt veri fólkið!

Sé að margir hafa fengið fréttir þrátt fyrir að ég hafi ekki náð að skutla inn fyrr en nú staðfestum fréttum, það er sökum þess að talva Ödda, litla bróður míns, var í lamasessi á fæðingardaginn og sökum þess líka að  ég hef fengið að dveljast langdvölum á kvennadeildinni með dömunum mínum tveim.

En yngsta dóttir mín, sú fjórða í röðinni, fæddist á Akranesi mánudaginn 25.febrúar kl. 09:12.  Var tekin með keisaraskurði sem unnin var af þvílíkri fagmennsku og hlýju að við Helga bæði getum vart lýst ánægju okkar með starfsfólk spítalans og skurðstofugengisins.  Afslappað og þægilegt eru þau lýsingarorð sem eiga þar við.  Drottningin litla vóg nýfædd 3360 grömm (13 og 1/2 mörk) og mældist 52 cm. á lengd.

Eins og reglan er með keisaraskurðsbörn er hún slétt og felld, alveg ofboðslega fallegt barn.  Eins og öll börn eru auðvitað.

Innfæddur Vestlendingur, búið að taka mynd af henni fyrir Skessuhorn og jökullinn skein inn um gluggann þegar við komum af skurðstofunni. 

Ég dvaldist allan fæðingardaginn með þeim á stofu og svaf svo yfir nóttina.  Ég svaf já því hún var bara nokkuð góð við okkur, svaf rúmlega fimm tíma lengst og var ekki með miklar kröfur.  Sem við vonum bara að haldist.

Í dag hefur svo okkar nánasta lið streymt til okkar, Sigríður Birta, Thelma, Hekla, tengdó, pabbi, Gulla, Símon og Skagamennirnir Öddi, Harpa og Sigrún frænka Helgu.  Mamma kíkir svo á morgun og Drífa og Lucy á hinn.  Allir hingað til orðið óskaplega skotnir af henni.

Ekki síst fröken Birta sem dvalist hefur hjá ömmu sinni í Garðabæ og m.a. breytt stássstofunni í gullabú með öllu því sem tilheyrir þegar sú vinnukona tekur sér verk fyrir hendur.  Hún er mjög glöð með systur sína og virðist bara spennt yfir því að vera stóra systir! 

Heilsa mæðgnanna þegar ég kvaddi þær áðan var bara býsna góð, Helga farin að komast aðeins á ról eftir aðgerðina og litla dísin var bara södd og sæl, þó ekki vildi hún sofna strax.

Ekki tókst mér að henda inn myndum, ætlunin er að gera það á morgun.  Kíkið endilega hingað seinni part miðvikudagsins og sjáið hvort mér tekst ekki að standa við það! 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Hulda Margrét Traustadóttir

Gott að heyra og til hamingju enn og aftur

Hulda Margrét Traustadóttir, 27.2.2008 kl. 08:21

2 identicon

Gott að allt gengur vel. Enn og aftur til hamingju

Stella (IP-tala skráð) 27.2.2008 kl. 12:20

3 Smámynd: Ísdrottningin

Maggi minn, "talva" hvað?
Jæja, við verðum að fyrirgefa nýbökuðum föðurnum í þetta sinn

Hjartanlega til hamingju með nýjustu prinsessuna

Ég hlakka til að sjá myndirnar. 

ps.Ég hefði nú heilsað þér þegar ég var að þvælast um Selhól síðasta sumar en ég sé ykkur bara bregða fyrir næst þegar ég kíki á Sandinn.

Ísdrottningin, 27.2.2008 kl. 17:04

4 Smámynd: Páll Jóhannesson

Til hamingju. kv frá Akureyri.

Páll Jóhannesson, 27.2.2008 kl. 21:00

5 Smámynd: Guðrún Vala Elísdóttir

Innilega til hamingju með litlu dömuna, skilaðu kveðju líka til mömmunnar.

Guðrún Vala Elísdóttir, 27.2.2008 kl. 22:22

6 Smámynd: Guðmundur Arnar Guðmundsson

Til hamingju, sklilaðu kveðju frá okkur hér á austur hjara.

Guðmundur Arnar Guðmundsson, 27.2.2008 kl. 23:04

7 Smámynd: Vilborg Traustadóttir

Til lukku!!!

Vilborg Traustadóttir, 29.2.2008 kl. 23:22

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband