Hrikalega stoltur!
7.3.2008 | 16:44
Skammt stórra högga á milli!
Eftir viðburðaríka viku þá síðustu var þessi vika undirlögð af lokafrágangi við frumsýningu söngleiksins "Þengill lærir á lífið". Þann söngleik fluttu nemendur Grunnskóla Snæfellsbæjar í 8. - 10.bekk, sáu um leik, dansa, hljóð, ljós, sviðsuppsetningu, miðasölu og allt sem viðkemur slíkri sýningu.
Þetta var mjög sérstakt fyrir mig persónulega því þetta leikrit er mitt hugarfóstur, lá ófáa klukkutímana í sumar og haust við að klára það. Búum svo vel hér að eiga mikið af fólki sem hefur áhuga á að vinna með börnum að svona sýningu svo að ég var bara svona "pródúsent" og reddari sýningarinnar. Gunnsteinn leikstjóri, Harpa danshöfundur og Siggi og Valentína músíkfólk báru hitann og þungann af vinnunni með börnin og gerðu það afar vel.
En aðalfólkið voru krakkarnir. Geisluðu ótrúlega í gær, náðu sér þvílíkt á strik að ég stóð með álftahúð aftast í salnum og fylgdist með hugarfóstrinu mínu fæðast sem bara ágætis stykki, sem náði góðu lífi í 100 mínútur vegna hæfileika þeirra sem á sviðinu og í kringum það voru.
Held í raun að þetta leikrit og flutningur þess í gær jafnist á við, eða bæti, það besta sem ég hef náð að gera á minni starfsævi.
Skiptir þá engu hvort sem er í stjórnun, kennslu eða þjálfun. Sveif á bleiku skýi út í kvöldið í Ólafsvík í gær og vona innilega að við náum að fá fólk á sýninguna á sunnudaginn og jafnvel setjum upp fleiri sýningar.
Því ég held að börnin í 8. - 10.bekk í Grunnskóla Snæfellsbæjar eigi það svo sannarlega skilið!!!
Athugasemdir
Til hamingju Maggi, kannast við þessa tilfinningu frá því í "den"
Hulda Margrét Traustadóttir, 7.3.2008 kl. 16:50
Til hamingju gamli.
Hef reyndar alltaf vitað þú gætir ýmislegt. ég hef alltaf haft tröllatrú á að svona skapandi starf með börnum og unglingum skilar sér margfalt inn í skólastarfið. Það eykur samkenndina, bætir sjálstraustið og sjálfsmynd krakkanna. Það sem við sem vinnum með krökkunum fáum svo út úr þessu öllu er fyrst kvíði, svo sviti og pirringur, svo undrun og svo að lokum stolt. Það er svo mikil vægt að virkja sem allra flesta. Í einni uppsetningu eru svo mörg handtök sem þarf að vinna önnur en að sprella á sviðinu. Handtök sem krefjast ábyrgðar og samviskusemi. Hugsaðu þer bara ef ljósin eru ekki kveikt á réttum tíma aðe kveikt á vitlausum kastara eða hljóðkerfið fer að ýla.
ég minnist þess þegar minn fyrrverandi skóli, Setbergsskóli, ákvað að verða móðurskóli í læsi og ekki kom til greina að hann yrði móðurskóli í listum hvað ég varð fyrir miklum vonbrigðum. Enn er reyndar enginn skóli í Hafnarfirð sem leggur áherslu á listirnar. Skamm Hafnarfjörður.
Þið systkinin kunnið svo sannarlega eitt og annað fyrir ykkur í uppeldi barna og unglinga. Skyldi það vera vegna eigin reynslu úr Barnaskólanum á Eiðum? Eða úr Eiðaskóla? Eða bregður þarna fjórðungi til föður, fjórðungi til móður og fjórðungi til fósturs?
Örn Ragnarsson, 9.3.2008 kl. 10:03
Flott og rétt nálgun pabbi, sammála þér í öllu.
Í umræðunni um bæjarfélagið mitt er oft hávær umræða um slaka útkomu á alls konar prófum. Ef hægt væri að gefa þessum börnum einkunn fyrir ábyrgðartilfinningu, samskipti, einurð og fagmennsku skoruðum við hátt á slíkum prófum!
Er sannfærður af heilum hug að ástæða líkinda okkar systkina í nálgun okkar að starfi í grunnskóla er nákvæmlega sem þú lýsir í lokin, uppeldi byggt á því að leyfa sköpunarkraftinum að njóta sín, stöðug áminning um að koma fram af virðingu fyrir öllum og mikilvægi þess að allir fái að njóta sín er það nesti sem við höfum haft í vegferðinni okkar inn í starfið.
Örugglega á barnaskólinn eitthvað í því líka með áherslu sinni á uppsetningar leikrita á litlujólum og árshátíðum en sterkasta taugin kemur frá Garði. Ekki nokkur spurning í mínum huga!
Magnús Þór Jónsson, 9.3.2008 kl. 13:16
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.