Aðeins af örorku kennara.

Get eiginlega ekki orða bundist vegna umræðu um dóm sem féll nú nýlega vegna 25% varanlegrar örorku sem kennari varð fyrir við störf sín.

Á síðustu dögum hafa margir fræðimenn á sviði Asperger heilkennisins komið fram og lýst furðu sinni á dómnum.  Auðvitað er það þannig með okkur sem vinnum í skólunum að við vitum það að margs konar greiningar eru á börnum sem í skólunum eru þessa dagana og það er hreinn harmleikur að þetta hafi hent viðkomandi barn.

En mér finnst þurfa svör við því hvernig á að bregðast við slíku atviki.  Það hlýtur að vera óumdeilt að viðkomandi kennari var að sinna sínu starfi, kom heilbrigð til vinnu, varð fyrir slysi sem skilar nú mikilli örorku sem þarf að verða bætt.

Eins og ég skil mínar tryggingar er það þannig að trygging gagnvart mínum starfsmönnum er bara í gangi þegar vinnuumhverfið veldur slysi (t.d. brotin rúða, raflögn ófrágengin) eða þegar aðrir starfsmenn valda slysinu.

Þess vegna held ég að málið snúi að því að skaðabæturnar falli á viðkomandi stúlku, hún olli slysinu með sinni hegðun, sjálfráðri eða ósjálfráðri og bótarétturinn sem hlýtur að vera óumdeilt réttur er felldur á gerandann. 

Mér finnst umræðan stundum snúast um það að dómurinn sé ósanngjarn.  Mér finnst gott að sjá að óumdeildur skaðinn er bættur, umræðan þarf að sjá um það hver á að standa að skaðabótum vegna slíkra atvika.

Það er þörf umræða og þarf að vera algerlega skýrt hvernig bregðast á við því þegar kennarar eða annað starfsfólk er slasað við störf sín.  Það gerist sem betur fer sjaldan, en gerist.

Skilaboðin þurfa að vera skýr!  Óháð óumdeildum greiningum og öðrum aðstæðum, hver á að standa vörð um starfsfólk grunnskólans.  Hvernig er það á öðrum svipuðum vinnustöðum?


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Svo sammála þér Maggi!

Gleðilega Páska á nesinu, en þar verð ég líka um Páskana og hlakka mikið til.

kv.

Sigríður

Sigríður Hallsteinsdóttir (IP-tala skráð) 18.3.2008 kl. 11:25

2 identicon

Já, ég er sammála þér, auðvitað átti kennarinn að fá heilsutjónið bætt.  Hins vegar finnst mér það sæta furðu að nemendur séu ekki taldir sem hluti af starfsumhverfi kennarans.  Mér fynndist réttara að ríkið bætti kennaranum skaðann en það væri svo ríkisins að ákveða hvort það vildi höfða mál á hendur nemandanum.

Erna Magnúsdóttir (IP-tala skráð) 18.3.2008 kl. 15:31

3 Smámynd: Þorgerður Laufey Diðriksdóttir

sammála Ernu.

getur þú sagt mér hvort að kennarar beri ábyrgð á slysum á nem undir þeirra umsjón. t.d í skíðaferðum, eða í vettvangsferðum almennt.

Þorgerður Laufey Diðriksdóttir, 19.3.2008 kl. 10:58

4 Smámynd: Magnús Þór Jónsson

Erna er með flotta tillögu!

Varðandi slys í vettvangsferðum er afskaplega erfitt að segja hreint og klárt, því í raun hefur aldrei verið kært slíkt mál.

Á sínum tíma var ég í nefnd á vegum Fræðslumiðstöðvar í Reykjavík sem átti að setja viðmiðunarreglur varðandi öryggi í slíkum ferðum, í kjölfar slyss við Glym í Hvalfirði í skólaferðalagi. 

Sú vinna var erfið og í raun óframkvæmanleg, því ferðir skólanna eru svo margvíslegar að reglugerðin var slík flækja að engar ferðir hefðu sennilega verið farnar og ákveðið var að vísa þessu á hvern skóla út frá meginreglum skólanna, skólareglunum.   Vissulega geta orðið alvarleg slys innan skóla og á skólalóðum sem þarf líka að skoða og skólarnir eiga reglur um.

Reglan er í raun sú að skólar bera ekki skaðabótaskyldu skv. skilgreiningu míns tryggingafélags, VÍS, nema að um gáleysi starfsfólks skólans sé um slysið að kenna.

Hins vegar stendur skólinn alltaf straum af kostnaði sem hlýst af slíku slysi, varðandi t.d. sjúkraflutning, komu og endurkomu í ákveðinn fjölda sem ég ekki man.

Ef um alvarlegt slys er að ræða, þá þrýtur mig þekking.  Ég t.d. veit ekki hvað hefur gerst í alvarlegum skíðaslysum sem ég veit um nokkur, hvað þá dauðslysunum sem urðu í sundkennslu nú nýlega.

En gaman væri að vita hvort þessi skilningur míns tryggingafélags er almennur meðal trygginga skóla, hvernig er t.d. í þínum skóla Þorgerður?

En varðandi starfsmenn skólanna er þetta ekki nýtt mál.  Ég lenti í því fyrir nokkrum árum að unglingur sem ég vísaði útaf skólaballi vegna hegðunar gekk á bílinn minn og skóf mikið af lakkinu af.  Það tjón féll á mig, en móðir unglingsins greiddi mér það svo sjálf.  Ég hefði þurft að kæra hana annars í eigin persónu.  Þó ég væri að vinna og bíllinn minn inni á merktu bílastæði var skólinn ekki aðili að málinu.

Vinkona mín lenti stuttu síðar í því að drengur kveikti í bílnum hennar úti á bílastæðinu.  Tjónið lenti á starfsmanninum og henni síðan bent á að kæra foreldrana.  Það var alltaf ljóst að þar voru ekki borgunarmenn tjónsins á ferð og hún ákvað að kæra ekki.  Þetta gerðist í hálftíu frímínútunum einn haustdag í Breiðholtinu.

Þess vegna segi ég það enn og aftur, réttur starfsfólksins má ekki hverfa þegar veikir einstaklingar valda skaðanum, en kannski hefur Erna fundið leiðina.  Hún hugnast mér allavega vel.

Magnús Þór Jónsson, 19.3.2008 kl. 11:30

5 Smámynd: Þorgerður Laufey Diðriksdóttir

ég var í kennarasaumaklúbb í fyrradag og þetta mál var til umfjöllunar.

það er ekki mikil vitneskja um skaðabótaskyldu innan skólanna fyrir hendi í kennarahópnum.

þetta mál mun ýta við mörgum og ég mun leita eftir svörum um skaðabótaskyldu kennara gagnvart slysum á nem á næsta menntaráðsfundi.

ég veit til að þessar reglur sem þú vart að vitna til eru tilbúnar hjá menntasviði og hafa verið kynntar en ég átta mig ekki á því nákvæmlega hvort búið sé að ná utan um alla þá þætti sem upp geta komið.

dæmin sem þú sagðir frá eru raunveruleg og þetta hlýtur að vera ólíðandi að starfsfólk þurfi að eiga það undir foreldrum eða tryggingum þeirra hvort þeir fái greitt tjón sem verður á hlutum eigum þess á vinnutíma.

Þorgerður Laufey Diðriksdóttir, 19.3.2008 kl. 11:49

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband