Utan hringiðunnar eftir vandlega umhugsun.
20.1.2009 | 23:24
Verð að viðurkenna það að nú um sinn hef ég átt frekar erfitt með að tjá mig um ástand mála í samfélaginu okkar.
Þegar ég vaknaði 1.janúar fannst mér svo margt í samfélaginu bera annan tón. Fólk var búið að lifa dökkan október og svartan nóvember. Ákvað svo að halda jól og treysti því að eftir jólin væri ástandið betra held ég. En eftir því sem leið á desember var ljóst að ekkert, ekkert var að breytast.
Svo kom janúar, fólk orðið atvinnulaust eftir uppsagnarfrestina og jólatörnina. VISA reikningarnir bættust á síhækkandi höfuðstóla lána og afborganirnar á þeim tíma hafa alveg örugglega skvett köldu vatni framan í fólk sem trúði því að Ísland væri bezt í heimi og treysti framtíð þess.
Í dag keppast margir við að segja "fólk gat sagt sér þetta sjálft". Ég held að það sé smáatriði í málinu öllu. Öll stoðkerfi samfélagsins brugðust í kór. Venjulegt fólk treysti bara þeim sem það hafði treyst fram að þessu.
Smátt og smátt hefur öllum orðið ljóst það óendanlega siðleysi sem ríkt hefur innan fjármálastofnana samfélagsins, auk þess sem að tengingar við ráðamenn verða sífellt ljósari, hvað þá yfirlýst og augljós lögbrot þeirra í starfi.
Ég ætla ekki að láta eins og ég sé einhver spámaður eða spekingur. Ég tel mig bara hafa heyrt ofan í svo mörgum undanfarna daga vanlíðan og yfirþyrmandi vonleysi. Satt að segja hefur síðustu daga stundum bara þyrmt yfir mann. Fólk á mjög erfitt með að sætta sig við að þjóðin okkar sé eins og stjórnlaust skip í ólgusjó, þar sem tilviljun og geðþótti eru ríkjandi í ákvarðanatöku. Fólk bíður eftir leiðsögn. En fær hana ekki í dag, heldur sundrung og seyru.
En ekkert. Ekkert, ekkert gat þó búið mig undir atburði dagsins. Frá því ég kom heim úr vinnunni minni í dag hef ég bara fundið fyrir mikilli hryggð. Að þurfa að horfa á venjulegt fólk berjast við illa launaða lögreglustétt til að krefjast breytinga og svara er eitthvað sem ég reiknaði ekki með að þurfa að sjá á Íslandi. Í hópi mótmælenda sá ég marga sem ég þekki. Fólk á öllum aldri, úr ólíkum bakgrunni, í mismunandi stjórmálaflokkum. Mörgum hefur verið tíðrætt um Nýja Ísland. Hryggilegt er það ef að það vaknar með baráttu milli almúgans og lögreglu, sem hefur ekkert sér til saka unnið nema að verja máttlítil stjórnvöld.
En hvað finnst manni um atburði dagsins? Þeir eiga sér sögu. Langa. Ég held að í raun sé hægt að fara aftur til Viðeyjarstjórnarinnar og inngöngunni í EES, sem Jón Baldvin náði fram án þess að Davíð "fattaði" almennilega hvað var þar í gangi. Eftir það fannst mér Davíð verða einarður í því að ná fram hagsmunamálum síns Sjálfstæðisflokks, langt til hægri. Losaði sig við Jón Baldvin og sótti sér hægrimanninn sem hafði náð völdum í Framsókn og sótti til hægri. Í sjálfu sér í sögulegu samhengi og ekkert athugavert við það.
En þarna byrjaði ný pólitík. Fyrst meirihlutapólitík. Svo ráðherrapólitík. Þingmenn voru bundnir á bak foringja sinna og sviptir málfrelsinu. Ekkert mátti rugga bátnum. En aðallega, ENGIN af málum minnihlutans skyldu ná fram að ganga. En hverjir voru minnihlutinn? Jú, 40% landsmanna hið minnsta, hugsanlega meira ef við tínum til hægri jafnaðarmennina í Framsókn og Sjálfstæðisflokki. Fylgjendur og stuðningsmenn fengu lykilstöður í samfélaginu. Og bankana gefins.
Ég var vongóður, og er í raun enn, að Sjálfstæðisflokkurinn yrði beygður inn í átt að miðju undir stjórn núverandi forystu og margra nýrra ferskra andlita í síðustu alþingiskosningum. En því miður er ekki búið að taka til og hrista fram breytingar í flokknum sem hefðu að mínu mati breytt miklu á síðasta ári.
R-listinn fylgdi í kjölfarið sömu pólitík í Reykjavík. Veit ekki hvort það var til að hefna sín fyrir ríkisstjórnina en nákvæmlega sömu vinnubrögð urðu ríkjandi í borginni. R-listafólk tók ekki mark á stefnumálum minnihlutans og þeirra fólk fékk valdastöður. Farsinn í fyrra sýndi þessa potpólitík best.
Fyrir mig er þetta óskiljanlegt. Ég er í opinberu starfi og starfa fyrir allt samfélagið sem ég bý í. Óháð stjórnmálaskoðunum, litarhafti, kyni, trúarbrögðum eða hvaða liði menn styðja í enska boltanum! Annað væri að mínu mati veruleg afglöp í starfi og forkastanleg framkoma.
Ég lít sömu augum þá þingmenn og ráðamenn sem telja sig ekki vinna fyrir alla í landinu. En ég held að margir atvinnupólitíkusarnir hafi misskilið stöðu sína. Litið á sig sem starfsmenn flokksins síns, eða fjársterkra bakhjarla sinna. Þá þarf að kveðja. Þjóðin á ekki slíka vinnumenn skilið.
En hvað á að gera? Stórt spurt, en eftir síðustu daga held ég að okkur sé öllum morgunljóst að ríkisstjórnin á ekki séns. Ekki nema að hrista verulega, verulega upp í vinnubrögðum sínum, verkaskiptingu og mannafla. Og það þarf að verða á næstu dögum. Er ekkert viss um að það sé nóg, en það er eini sénsinn. Það er ljóst að á meðan Ingibjargar nýtur ekki við er Samfylkingin í tætlum og þingmenn þess flokks nú meira að segja að fara að leggja fram frumvarp án þátttöku ráðherra þeirra!!!
Ríkisstjórn og þing sækir sinn stuðning til þjóðarinnar. Á undanförnum vikum og sérstaklega dögum er að verða ljóst að stríðandi fylkingar eru í landinu og stöðugt er verið að bæta olíu á eld þess sem stíar fólk í sundur. Nú síðast er rætt um ESB og hatrammar samræður splundrast um samfélagið. Ég held að það eina sem lægi þá öldu sem reis í dag verði yfirlýsing um kosningar á árinu, um leið og hreinsað verður til á meðal ráðherra, ég vill að þeim verði fækkað niður í átta og á sama tíma verði vinnubrögð Alþingis endurskoðuð með það að leiðarljósi að það á að vera vettvangur allra skoðana þjóðarinnar.
Ekki bara ráðherra!
Í dag fannst mér ég stundum vera í sögutíma. Ný Sturlungaöld. Þá voru það ættir landsins sem tróðu á almenningnum í valdabaráttu sinni og murkuðu smám saman allt þor úr hinum almenna Íslendingi. Siðleysið réð ríkjum og glæpaalda einkenndi 13.öldina.
Endirinn varð að við sóttum okkur aðstoð að utan, því ljóst var orðið að þjóðin réði ekki fram úr vandanum. Mikið óskaplega vona ég nú að við berum gæfu til þess Íslendingar að sameiningaröfl í samfélaginu nái undirtökum og við verðum aftur ein þjóð. Í dag erum við það ekki alls staðar, og það er alvarlegasta staðreyndin í málinu.
Við verðum að draga úr áhersluna á sundrung, hvort sem við erum að tala um ríkir gegn fátækum, höfuðborgarsvæðið gegn landsbyggðinni, ESB eða ekki eða hvað annað sem skiptir þessari örþjóð okkar í flokka.
Því við skulum ekki halda það að atburðir Sturlungaaldar eða sorgleg endalok þeirrar deilu geti ekki endurtekið sig...
Athugasemdir
Lifi byltingin-flauelsbylting a la Úkraína er hafin!
Vilborg Traustadóttir, 20.1.2009 kl. 23:32
Góður pistill Maggi. Takk fyrir. Vonum að eitthvað verði að gert til að fólk þurfi ekki að grípa til illskunnar.
Hulda Margrét Traustadóttir, 21.1.2009 kl. 06:52
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.