Kerfishrun?

Einhvern veginn er það orðið sem kemur mér í hug þessa dagana.

Eina sem kemur frá stjórnvöldum er tal um hvaða byrðar "allir þurfa að taka á sig til að verja velferðarkerfið".  Það sem Jóhanna nefndi í ræðu sinni í dag kemur mér allverulega á óvart miðað við þær upplýsingar sem ég hef fengið undanfarna daga.  Það að lítill hluti heimila sé í vanskilum og staðan sé betri en reiknað var með.

Er það rétt?  Ég dreg það verulega, verulega í efa!

Fréttir um stórfelld svik við atvinnuleysistryggingasjóð eru nú að berast, "pappírsskilnaðir" algengir og eignaskiptasamningar sem hafa það að markmiði að láta annan aðila sambúðar verða gjaldþrota skipta hundruðum!

Hingað til hefur bara komið eitt nýtt.  Hækkaður skattur á áfengi, tóbak og bensín.  Á næstu dögum munu koma upplýsingar um skattahækkanir, sem munu án vafa ekki gera margt en taka meira úr vasa þeirra sem standa best í skilum og hvetja til vinnuleti.  Ja, eða "svartrar" vinnu.

Engum dylst að landið okkar á erfitt og staðan er graf-, graf-, grafalvarleg.  Ræða Jóhönnu í dag fannst mér veikburða tilraun til að láta hlutina líta betur út en þeir eru og ég einfaldlega hristi hausinn yfir þeim aðferðum sem maður er að frétta af.

Gamlar aðferðir, máttlítið klór sem litlu mun skipta er nú í gangi og heimilin í landinu skjálfa.  Jóhanna mín, þau skjálfa.

Ég nefndi einhvern tíma í vetur hér að ég teldi landið okkar á mörkum þess að ráða við ástandið og mér finnst það stöðugt verða líklegra að engin ráð séu í kolli ráðamanna önnur en að pína áfram fólk og fyrirtæki þangað til að þau gefast upp.

Hvers vegna er t.d. ekki farið að ræða lækkun lífeyrisaldurs niður í 65 ár?  Hvers vegna minnist engin á einkahlutafélögin og skattprósentu á þau?

Er ennþá verið að velta fyrir sér þeirri vitleysu að reisa tónlistarhús í höfninni í Reykjavík uppá milljarða?  Á ekkert að bregðast við misnotkun kerfanna sem eiga að sjá til þess að öryrkjar og atvinnulaust fólk eigi möguleika á að lifa af?

Það aðgerðarleysi sem hefur ríkt síðustu vikur og mánuði hefur leitt til kollsteypu Jóhanna, en þú bara hefur ekki tekið eftir henni.  Allir "venjulegir" einstaklingar þessa lands hafa þurft að búa við kollsteypu sinna aðstæðna og dregið úr lífsgæðum sínum og sinna.

Við sem hlustum á þig tala um kollsteypu ef eitthvað annað en skattahækkanir og aukning vörugjalda er nefnt hristum þá hausinn og reiknum ekki með því að þú skiljir hvað er í gangi.

Kerfið er sennilega hrunið Jóhanna, þú verður að hafa kjark til að byggja nýtt.....

 


mbl.is Niðurfelling þýðir kollsteypu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Guðmundur St Ragnarsson

Jóhanna hefur engan kjark frændi. Það hefur hún sannað með því að geta ekki - ásamt Grími - hugsað neinar aðrar lausnir en skattahækkanir og niðurskurð (sem verður boðaður blóðgaður bráðlega).

Guðmundur St Ragnarsson, 4.6.2009 kl. 23:25

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband