Hjálp!
11.6.2009 | 00:38
Er verulega hugsi eftir að hafa hlustað á Joly í Kastljósi kvöldsins.
Hef allt frá í haust haft miklar áhyggjur af því að landið okkar ráði ekki við þetta mál og ég er núna sannfærður um að svo er. Kannski breytist það á morgun...
Ég hef ekki alveg haft traust á nýja "sérskipaða saksóknaranum" sem var eini umsækjandinn um stöðuna á sínum tíma og tel miklu stærri jaxla þurfa til að naga sig í gegnum varnarmúra þeirra manna sem nú eru að fara að skerða ráðstöfunartekjurnar á mínu heimili.
Skilanefndir banka og sparisjóða eru að gera sig sekar um tengsl við þá sem sigldu landinu í strand, hagsmunatengsl auðjöfranna teygja sig í þúsundir manna sem er hátt hlutfall af heildarfjölda þjóðarinnar og alls staðar heyrir maður sögur af tilraunum til að koma undan peningum, ef ekki úr landi þá undir koddann.
Eignalausir auðmenn eru nú unnvörpum til, háðir ákvörðunum maka sinna sem allan auðinn hafa fengið að undanförnu en engar skuldirnar.
Ég held að sama hvað það kostar eigi að fá þessa járnfrú til verksins. Ísland, eða allavega hinn almenni Íslendingur, þarf hjálp. Reynslulítill sýslumaður og fjárvana embætti er hjóm gagnvart þeim glæpagengjum sem við er að eiga og því þarf að breyta á morgun. Mér reyndar sýndist Dómsmálaráðherra vera að byrja í kvöld en meira þarf til!
Munum Baugsmálið. Lögfræðingar þeirra sáu um að kasta rýrð á lög og rykfylltu augu landsmanna, töldu sig holdgervinga litla mannsins sem ríkið væri að níðast á.
Er ég sá eini sem er fúll yfir öllum ákæruatriðunum sem voru felld niður gagnvart þessum mönnum. Held ekki.
Ég veit allavega að ég er ekki sá eini sem er reiður yfir því að á næstu dögum munu ráðstöfunartekjur míns heimilis minnka töluvert, það er að verða lítil frétt. Ég er líka ekki sá eini sem er rasandi yfir því að á meðan sitja þeir menn sem eiga sök á því að ég þarf að herða ólina á mér og mínum í glæsihöllum í útlöndum, milli þess sem þeir "krúsa" á Suðurskautslandinu eða senda konurnar í rándýrar verslunarferðir.
Hjálp alþjóðasamfélag, hjálpið okkur að koma lögum yfir mennina sem eru nú að spila á fiðluna í fjarska á meðan landið sem þeir kveiktu í brennur!
Ein mikilvægasta rannsóknin | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Athugasemdir
Við getum ekki kallað á alþjóðasamfélagið frændi. Við verðum að gera þetta sjálf. Við (með góðu frumkvæði og hjálpa Egils Helgasonar) fengum Evu Joly hingað til starfa. Það var ekki ríkisstjórnin sem gerði það. Ríkisstjórnin er ekki að auðvelda henni hlutina. Ríkisstjórnin getur samt aldrei sett hana af eða látið hana segja af sér vegna slælegs aðbúnaðar því almenningur mun aldrei, aldrei, láta bjóða sér það. Fyrr verður uppreisn þar sem s.k. Búsáhaldabylting verður sem hjómið eitt.
Guðmundur St Ragnarsson, 13.6.2009 kl. 11:02
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.