Umræða

Ákvað að tengja ekki við eina frétt mínar hugleiðingar að þessu sinni, hef lítið bloggað þar sem mikið hefur verið á könnunni, bæði í vinnu og einkalífi. 

En ég get ekki annað en velt fyrir mér þeirri stöðu sem er að detta upp á Íslandi þegar Icesave-móðan rennur af mönnum.  Mér er fyrirmunað að skilja þá forgangsröð sem ríkt hefur á Alþingi varðandi Icesave og ESB gegn stöðu heimila og viðbrögð við þjóðargjaldþroti.

Fyrstu skref voru auðvitað að auka tekjutengingu allra bóta og það skil ég alveg.  Var meira að segja glaður yfir því að nú yrðu barnabætur greiddar út til allra, en hirtar til baka af þeim tekjuhærri með sköttum.  Það er bara prinsippið um að barnabætur eigi að fylgja börnum.

Svo komu upplýsingar um skattahækkanir á tekjur 700 þúsund plús.  Það virkar alveg held ég, nema að það er víðáttuheimskt að tengja það einstaklingum en ekki hjónafólki.  Í heimilishaldi þar sem annar aðilinn er með 750 þúsund í tekjur og hinn t.d. 200 þúsund þar sem ákveðið hefur verið að annar aðilinn vinni minna en hinn, þar er tekinn hátekjuskattur.  Ef hins vegar báðir aðilar eru t.d. með 600 þúsund og heimilið þá með tekjur upp á 1200 þúsund er ekki borgað neitt.  Sérstakt.

Sykurskattur, sem lagðist á allar vörur sem sykur dettur á, jafnvel í örmagni og hækkaður bensínskattur.  Áfengi og tóbak hækkað.  Allt ágætt um það, mér finnst reyndar seilst ansi langt með sykurskattinn í vöruflokkum, en auðvitað er maður að velja sér að versla þessar vörur.

Nú að undanförnu koma svo nýir skattar, sem skírðir hafa verið "kolefnisskattar".  Bensínlíterinn fer nú fljótlega yfir 200 krónur eins og FÍB hafði áhyggjur af í vor og menn hristu nærri af sér höfuðið.

Matarskatturinn "endurskoðaður" en "nauðsynjavörur" þó undanþegnar skattahækkun.  Hver á að meta hvaða vörur detta í þann flokk?  Er það metið út frá hverju þá?  

Og svo nýjasta útspilið, "framsækið skattkerfi", í þrepum......  Já nefnilega það.  Einstaklingar undir 300 þúsundum græða víst á þeim aðgerðum.  300 - 500 tapa lítillega og 500 plús þurfa að greiða 10 þúsund af hverjum 100 þúsundum.

Umræðan er svo í farveginum um breiðu bökin.  Vissulega eru þau breið á pappírunum en satt að segja held ég að breið bök sé varla að finna í dag á Íslandi, allavega ekki á meðal almennra launamanna.  Breið bök bogna líka nefnilega.  

Ég vona það svo innilega að fólk sem nú skoðar aðgerðir átti sig á því að skattahækkanir virka verr en allar aðrar aðgerðir við slíkar aðstæður.  Sá 10 þúsund kall af 100 þúsundunum sem færu nú í skatt eru dauðir peningar sem greiða bara vexti.  Þessi 10 þúsund kall skilar sér sjaldnast í sparnaði heldur fer í neyslu viðkomandi.  Það þýðir einfaldlega að þeir sem lifa á neyslunni munu eiga erfiðara með að lifa af og smám saman dregur þetta tennurnar úr öllu atvinnulífinu.  Sem er að verða tannlítið!

Á sama tíma miðast allar aðgerðir til aðstoðar heimilum að því að fresta og lengja í lánum sem eru á mörkum þess að vera lögleg, og eru algerlega siðlaus.

Færeyingar vöruðu okkur við að missa ekki unga fólkið okkar úr landi.  Við erum þegar búin að tapa þeirri baráttu en þurfum nú að lágmarka skaðann og missa sem fæsta!  Það er að mínu mati stutt í að hjól atvinnulífsins stöðvist, einungis með viðhorfsbreytingum í stjórnkerfinu verður hægt að sparka því í gang.  Skoða þarf skattlagningu lífeyrissjóðsgreiðslna og vöru- og iðgjaldahækkanir í opinberum rekstri án tafar.

Auðvitað þarf að skoða stöðu hvers og eins útfrá því og aðstoða þá í okkar samfélagi sem erfiðast eiga með að greiða fyrir þjónustu, en það að taka inn allar upphæðir hjá fólki þýðir einfaldlega það að fleiri flykkjast úr landi.  Við erum í dag að tapa milljörðum á því hve margir vinna nú erlendis og við megum ekki við meiri landflótta.

Hann vofir yfir nú, ekki síst í þeim hópi sem mun taka á sig stærsta skellinn í þessum skattatillögum, þ.e. stjórnendur í opinbera geiranum og sjómenn.

Ætla svo fljótlega að koma hér aftur og ræða fleira....


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband