Jól á leiðinni

Þá er víst að styttast allverulega í jólahátíðina 2009, sem verður nr. 38 í röðinni hjá mér.

Sú fyrsta þar sem móðir mín verður ekki á meðal þeirra sem fær gjöf frá mér eða ég heyri í að kvöldi Aðfangadagsins.  

Svona til að fyrirbyggja misskilning þeirra sem ekki þekkja til málsins, lést móðir mín 30.nóvember eftir erfiða baráttu við krabbamein og hvílir nú í Garðakirkjugarði á Álftanesi.

Undanfarna daga, þegar nær dregur jólunum hefur einhvern veginn þessi staðreynd orðið áþreifanlegri.  Ég þakka guði á hverjum degi þá gæfu sem mér hefur verið færð í börnunum mínum og maka, því þar hef ég náð að finna gleðina sem fylgir hátíð ljóssins og friðarins og þau gefa mér þá orku sem ég þarf..

Það hefur ekki verið auðvelt.  Í þessum rússibana öllum síðustu mánuði hefur maður verið svo upptekinn af baráttu við veikindi mömmu og síðan að vinna í og skipuleggja eftirmælin öll að maður sat stundum upp með að gleyma sjálfum sér.

Síðustu daga hefur svo verið höggvið í sárið á ólíklegustu stundum og tímum og þá kemur önnur útgáfa sársaukans, hreinn söknuður og eftirsjá, á fullri ferð í ljós.

Í dag eru tveir dagar til jóla, Helga skreytti húsið í dag og við Sigríður Birta fórum og sóttum jólatré.  Þegar ég kom heim með tréð þá fannst mér stórt skref vera tekið í að færa jólin nær mér sjálfum og ég hlakka mikið til að skreyta það.  Ég meira að segja settist niður og skrifaði nokkur jólakort sem vonandi berast fyrir jól.  Ég einfaldlega hef ekki haft orku í það!

Mig langar mikið að gera orðin hans séra Kristjáns í líkræðu mömmu minnar að veruleika, þegar hann minnti okkur öll á að "það skal verða glatt í döprum hjörtum" á aðventunni eins og segir í uppáhaldssálminum hennar mömmu.

Maður þarf auðvitað að nýta aðlögunarhæfni sína í þessum nýju aðstæðum og drekka í sig gleðina sem hátíðinni fylgir enn meir en nokkru sinni áður.

Og svo heimsæki ég kirkjugarð í fyrsta sinn á jólunum, þá lærir maður eitthvað nýtt eins og maður víst gerir alltaf á meðan maður lifir.

Gleðileg jól kæru vinir, kunningjar og lesendur!  Megi jólahátíðin færa ykkur frið og gæfu, faðmið ykkur hraustlega frá mér og mínum!


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Risa knús frá mér til ykkar allra þarna hinum megin við fjallið :)  Gleðileg jól Maggi minn og vonandi fara jóladagarnir vel með þig og þú nærð að hlaða batteríin.

Guðný í Knarrartungu (IP-tala skráð) 23.12.2009 kl. 00:05

2 identicon

Gleðileg jól Maggi vinur eigðu góðar stundir með fjölskyldunni yfir hátíðina

kveðja úr höfuðborginni þ.e.a.s Breiðholtinu

Bjössi Gunn (IP-tala skráð) 23.12.2009 kl. 10:26

3 identicon

Gleðilg jol kæra fjölskilda vona að þið kvilist yfir jolin og safnið kföftum fyrir næsta ar kær kv fra siglo Sigurjon palsson

sigurjon palsson (IP-tala skráð) 23.12.2009 kl. 20:36

4 Smámynd: Hulda Margrét Traustadóttir

Fallega skrifað Maggi minn og lýsir svo vel sorginni sem hellist yfir mann þegar minnst varir, kemur svona í bylgjum..........

Magga "móða"

Hulda Margrét Traustadóttir, 29.12.2009 kl. 19:26

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband