Helga tón - minning
14.11.2020 | 10:49
Í dag er borin til hinstu hvílu austur á Héraðinu mínu hún Helga Þórhallsdóttir, kona sem í mínum huga mun alltaf bera nafnið Helga "tón" enda tónmenntakennari barnæsku minnar.
Helga var eftirminnileg kona, hluti lítils kennarahóps sem fylgdi mér alla skólagönguna í grunnskólanum mínum á Eiðum. Þar kenndi Helga mér öll mín skólaár og þurfti svo sannarlega að hafa fyrir því (er ekkert viss um að kennarinn ég hefði fílað nemandann mig sko) að fá okkur strákpjakkana til að fylgja sér. Við vorum jú skytturnar fjórar, fannst við gaurar sem réðum mörgu og vorum klárlega óstýrilátir. Dálítið sérstakt að hafa verið í fjögurra stráka hóp í sex ár í þessum litla skóla og það var viðfangsefnið hennar Helgu að koma inn í okkur hugarheim tónlistarinnar.
Það gerði hún af yfirvegun og á köflum af ákveðni. Á hluta minnar skólagöngu vorum við pottþétt erfiðir, ég ætla að nota orðið hrekkjóttir og uppátækjasamir en mögulega myndu aðrir nota önnur orð. Læt þessi verða mín. Helga fór ekki varhluta af þessum uppátækjum. Okkur fannst við ógeðslega fyndnir að syngja annan texta við lögin sem hún spilaði á píanóið, kalla Mozart "Mozza karlinn" og neita að spila á ákveðin hljóðfæri því þau væru "stelpuhljóðfæri". Jájá. Svona gaurar. Ég man ekki svo glatt eftir því að Helga hafi látið okkur komast upp með þetta, hún var ekkert mikið í hávaðanum en lét ekki slá sig svo glatt út af lagi (pun intended) og yfirleitt var það þannig að hún kom sínu fram.
Ætla að leyfa mér að benda á eitt atriði sem sennilega lýsir henni vel. Okkur tókst einhvern veginn í morgunmatnum að komast inn í stofuna okkar, höfðum örugglega undirbúið eitthvað því einn okkar fjögurra var mættur með trélímið. Við fundum fljótlega bók sem við þekktum og hét "min danske ordbog". Við opnuðum píanóið, röðuðum orðabókunum haganlega þannig að hamar nótnanna næði ekki á strengina og límdum svo lokið á. Daginn eftir var tónmenntatími og við hreinlega réðum okkur ekki fyrir spenningi. Helga settist við hljóðfærið, lagið var valið en ekkert hljóð kom þar sem átti að gerast. Helga stoppaði, hugðist opna lokið en það var pikkfast. Við skulfum af spenningi hvað myndi gerast. Helga settist niður, setti lokið yfir "lyklaborð" píanósins og sneri sér út í bekkinn og sagði "Við syngjum þetta bara án undirleiks" og þannig var tíminn kláraður þrátt fyrir hávær mótmæli fjórmenningana sem auðvitað heimtuðu sína píanóhljóma. Við fórum hundsvekktir í smíðatíma og fannst við sviknir - ótrúlegt að Helga hefði ekki fattað þetta og eitthvað fjör hefði orðið úr. Þegar við komum aftur í skólann eftir smíðana beið Sigurður skólastjóri eftir okkur fjórum, skipaði okkur með sér inn í stofuna þar sem hann pikkaði upp lokið ásamt okkur og lét okkur sækja blessaðar bækurnar. Að hans venju voru ekki læti en hann lét okkur vita það að Helga hefði áttað sig strax á málinu og vitað hvað hefði gerst, hún hefði hins vegar talað okkar máli þannig að þetta væru strákapör og hún vildi ekki að meira mál yrði gert en að við tækjum til eftir okkur.
Með auknum þroska urðum við líka óskaplega glaðir með hana, hún fékk að vera bara með okkur i tíma síðasta veturinn okkar (vorum annars með öðrum árgöngum upp á bekkjarstærð) og þann vetur fór hún að spila fyrir okkur tónlist eins og Dylan, Bítlana og Stones. Bað okkur um að koma með hugmyndir að tónlist sem við töluðum um.
Helga var líka traustur vinur mömmu minnar og reglulegur gestur í eldhúsinu á Garði. Helga fór um allt gangandi og það var góður spölur á Ormsstaði hvar hún bjó, það var stundum ævintýraljómi þegar hún bankaði á snjóþrungnum laugardegi alhvít til að kíkja í kaffibolla og spjall. Þær voru báðar uppteknar af listinni, voru örugglega veraldarkonur langt frá heiminum og samtölin þeirra gáfu báðum mikið. Þegar móðir mín lá sína veikinda- og banalegu var eitt af því sem við ræddum oft samtölin hennar við Eiðakonurnar í þessu eldhúsi, hún saknaði þess tíma og lét sig dreyma að hún fengi þá heilsu að komast austur einu sinni enn og þá talaði hún sérstaklega um að þá gæti hún hitt hana Helgu sína. Það varð ekki en ég treysti því að mamma mín taki nú á móti vinkonu sinni í alltof fjölmennum Eiðakvennahópnum þeim megin.
Það er of sjaldan sem maður hugsar til baka eða þakkar fólki fyrir þann hlut sem það spilaði á æviferlinum. Ég hefði átt að segja Helgu tón það sjálfri hvað ég met það hversu þolinmóð hún var við mig og okkur strákana, hrósa henni fyrir það sem hún lagði í að gera með okkur fyrir árshátíðirnar stóru og jólagleðina. Ég viðurkenni að mér þætti í dag dásemd ef að væri til upptaka af skólakórnum þar sem skytturnar fjórar stóðu prúðbúnar og lítið lagvissir að syngja alls konar ættjarðarljóð og söngva undir hennar stjórn. Það hefðu fáir leikið aðrir en Helga tón.
Fólk velur sér farveg í lífinu, farvegur Helgu var að vera trúr sinni ættjörð og heimasvæði og gefa þar af sér í áratugi inn í litla samfélagið á Héraði. Ég er algerlega handviss að ef að Helga hefði verið nær fjölmiðlunum og í stærra samfélagi væri hún landsþekkt og hróðurinn meiri. Ég er líka viss um að það skipti hana engu máli, hún var þar sem henni leið vel og naut sín fullkomlega.
Takk fyrir mig Helga, gangi þér vel á lokagöngunni þinni yfir í sumarlandið. Skilaðu kveðju í Eiðakvennahópinn.
Ættingjum og vinum sendi ég hugheilar samúðarkveðjur, merkiskona er gengin.
Dægurmál | Breytt s.d. kl. 11:09 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Stolt #hvítblátt hjarta!
27.12.2018 | 21:38
Það er of sjaldan í lífinu sem maður leyfir sér að njóta þess að vera stoltur. Þegar á miðjan aldur er komið þá tengist þetta stolt yfirleitt alltaf árangri fjölskyldu sinnar eða þá þeirri vinnu sem maður er að bauka við hvert sinn.
Í dag ætla ég að leyfa mér að vera stoltur af sjálfum mér, því í dag ákvað Íþróttafélag Reykjavíkur að verðlauna sjálfboðaliðastarf mitt fyrir félagið í gegnum tíðina og veita mér það silfurmerki sem hér er á mynd með ásamt 12 öðrum öflugum ÍR-ingum.
ÍR kom inn í líf mitt vorið 1996 þegar ég ákvað að slíta mig upp frá mínum ástkæra Siglufirði og halda í borgina til að vinna og lifa. Það var engin tilviljun að ég valdi það að spila fótbolta með ÍR, Stjáni vinur minn var að þjálfa þarna og vildi fá mig inn í hópinn með sínum unga og frábæra markmanni. Í mars það vor var ég fenginn á Ásvelli í Hafnarfirði til að leika æfingaleik. Ég man ekki á móti hverjum, ég þekkti engan sem ég spilaði með en mundi þó eftir liðsstjóranum þeirra frá góðum árum með KS stuttu áður. Bjössi Gunn var sá höfðingi, ég man mjög vel eftir því að hann kom inná strax eftir leikinn og tók í hendina á mér, sagðist ánægður með að vera búinn að fá grjótharðan sveitamann í ÍR þó hann væri Liverpoolmaður. Í kjölfarið kom svo blaðskellandi gaur frekar kuldalegur út úr bíl, labbaði til okkar og sagði beint við mig..."hvernig er það eiginlega - þegir þú aldrei inni á fótboltavelli"...um leið og hann hló, sagðist heita Óðinn en vera kallaður Þrífótur. Með honum var legend sem ég þekkti frá því að hafa spilað við hann, besti miðjumaður í sögu félagsins...Bragi Björnsson...sem var þarna kominn í stjórn félagsins og var formaður lengst af minni þjálfunarsögu hjá félaginu eftir síðustu aldamót.
Það er örugglega klisja en strax á þessum fyrsta degi leið mér vel í ÍR. Þessir fjórir sem ég hef nefnt hér áttu stóran þátt í því, en strákarnir í liðinu voru ekki síður frábærir. Þetta var glaður hópur, langflestir á sama aldri og einstaklega skemmtilegir utan vallar. Var fljótlega boðið "Kafteinsklúbbinn" sem var einstakur!
Í barnæsku sá ég Val 1977 í bikarleik og frá þeim tíma hélt ég með Val í öllum íþróttum...og ennþá slær taktur á Hlíðarenda í ótrúlegum ástæðum. FH spilaði ég með í 2.flokki og hef þjálfað hjá því félagi og þykir alltaf mjög vænt um ættflokkinn í Kaplakrika, líka út af ættartengslum. Sálin er alltaf KS-sál og ég er ótrúlega þakkláttur að hafa fengið að narta í enda þess fótboltaævintýris sem geysaði á Sigló fyrir 1990. Þau níu ár sem fjölskyldan dvaldi á Snæfellsnesi gerði mig svo að sjálfsögðu að gegnheilum Víkings/Snæfellsnessmanni og það eimir sko heldur betur eftir taug þar eftir yndislega stjórnarsetu í knattspyrnudeildinni með mögnuðu fólki.
En frá árinu 1996 hefur ÍR verið stór þáttur í mínu lífi og lykill að þeirri vegferð minni að verða Breiðhyltingur. Það gengur að sjálfsögðu á ýmsu í lífi íþróttafélags og það eru yfirleitt fleiri erfiðir tímar en góðir hjá klúbbi eins og hjá okkur ÍR-ingum.
Maður áttar sig á því þegar maður upplifir íþróttir í langan tíma að það er ekki alltaf sigurinn, titlarnir og fögnuðurinn sem situr eftir. Vellíðan við íþróttir tengist alls ekki síður þeirri upplifun sem þeim fylgja daglega. Vel heppnaðar æfingar, samtölin fyrir þær og eftir...og milli hittinga. Það situr eftir í sálinni.
Og vinátta.
Vá, öll sú vinátta sem í klúbbnum mínum er. Og hvað ég hef eignast marga trausta og góða vini í gegnum vinnu mína fyrir félagið. Sem leikmaður, þjálfari, áhugamaður og stjórnarmaður...og alls ekki bara í fótboltadeildinni. Sem betur fer á ég vini í öðrum deildum félagsins, bæði þá sem nú eru að starfa og þá sem á undan voru.
Það var mér því mikil gleði þegar hringt var frá skrifstofu ÍR og mér tilkynnt að aðastjórn félagsins vildi veita mér viðurkenningu fyrir starf mitt hjá félaginu með því að næla í mig silfurmerki félagsins. Í kjölfar símtalsins var svo viðburður í dag þar sem ég fékk fallegan blómvönd með silfurmerkinu. Þegar nafnið mitt var lesið fékk ég gæsahúð og nýtti mér nýlegt núvitundarnám til að leyfa mér að njóta faðmlagsins við framkvæmdastjórann og formanninn þegar afhendingin fór fram.
Kannski verður manni það ekki ljóst þegar maður er að svekkja sig á úrslitum leikja, eða einhverjum öðrum atvikum í þessu íþróttalífi öllu hvað það gefur mikið að fá ákveðna útrás fyrir ofvirkni félagslega og fylgjast með verkefninu vinnast áfram...og vona að það fái að dafna.
Í dag var mér það ljóst.
Kæru ÍR-ingar. Takk fyrir samfylgdina...allt frá fjórmenningunum frábæru til þeirra sem ég er að kynnast þessa dagana.
Mitt #hvítbláahjarta slær fast í dag og hlakkar mikið til komandi tíma, ég trúi því staðfastlega að framtíð félagsins míns sé björt...í fleiri íþróttagreinum en bara minni - en klárlega í minni.
Áfram ÍR...alltaf!
#beztaBreiðholt #hvítbláahjartað
Dægurmál | Breytt s.d. kl. 22:27 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Bjartur í Dalseli
27.10.2017 | 22:13
Efast ekkert um það að mjög margir sleppa því að lesa þennan pistil enda pólitískur. Tilfinningin er að mjög margir hafi gefist upp á pólitíkinni og það svosem er alveg viðhorf. Svo veit ég líka alveg að viðlíkendur pólitíkusarpælinganna minna eru ansi fáir miðað við aðrar Fésbókarpælingar.
En núna, kvöldið fyrir kosningadaginn þá held ég að ég allavega þarfnist lokunar á þessa baráttu...því satt að segja þá hefur hún komið mér á óvart töluvert og það stefnir vissulega í að minn flokkur virðist vera í útrýmingarhættu að þessu sinni.
Ég hef lengi haft skoðanir á þjóðmálum og staðið í pólitískri umræðu lengi. Var í flokksstarfi inni í Samfylkingunni eitt sinn en það urðu ákveðin straumhvörf í mínum pælingum þegar ég hlustaði á Guðmund Steingrímsson lýsa sinni sýn á pólitík haustið 2010. Hann bara sagði allt sem ég vildi segja um þörf á heiðarlegum stjórnmálamönnum sem væru ekki stanslaust lofandi hlutum að fólki, uppfullir af skilaboðum auglýsingastofa og vel fótósjoppaðir auglýsingabæklingar að berjast um íslenskar póstlúgur.
Í framhaldinu hringdi ég í Gumma og við áttum frábært morgunkaffispjall á Hótel Borg. Fljótlega hitti ég fleiri einstaklinga sem hann hafði átt samtal við. Nokkrum mánuðum seinna sat ég í hring með fólki sem lýsti sínum skoðunum byggðum á manngildi og trú á einstaklinginn. Frjálslynt og umburðarlynt fólk. Við stofnuðum Bjarta Framtíð.
Frá fyrsta degi höfum við þurft að útskýra okkur og hvers vegna við erum ekki svona eða hinsegin. Lengst hefur lifað stimpillinn um að við séum útskot úr Samfylkingunni, svo hafa fulltrúar okkar fengið að heyra það að þeir séu bara að einbeita sér að litlum málum sem engu máli skipta (klukkumálið krakkar...sem reyndar er víst orðið alheimsmál) og svo núna upp á síðkastið viljalausir dindlar Bjarna Ben og Sjálfstæðisflokksins. Allt tilraunir til að finna eitthvað annað út úr okkur en við vildum vera. Frjálslynt miðjuafl.
Við þurfum að horfa í naflann á okkur því við þurfum að sjálfsögðu að átta okkur á því hvað við gerðum vitlaust og hvers vegna við sátum föst í því fari.
Hugmyndir um vitleysur?
- Við lofum ekki nóg.
- Við erum ekki nægilega grimm í því að benda á það hvað hinir eru erfiðir og leiðinlegir.
- Við höfum ekki náð að varpa nægilegu ljósi á hugmyndafræðina og yfirlýsinguna okkar.
- Við höfum tekið okkur of mikinn tíma í samtal um í stað að framkvæma verkin.
- Við höfum ekki náð vísun út fyrir ákveðinn þjóðfélagshóp...þó við höfum reynt.
Naflaskoðunin virkar samt ekki í rauninni. Því ég held að við höfum verið sjálfum okkur trú og því sem við vildum gera með Bjartri Framtíð. Það er frjálslynt afl sem er tilbúið að vinna með flokkum víðs vegar um, með manngildi að leiðarljósi og reiðubúin til þjónustu fyrir samfélagið.
Við erum það, höfum verið það í sveitarstjórnum frá því við lögðum af stað og höfum náð mörgum flottum áföngum þar. Við erum sá flokkur frá því við hófum störf sem að höfum komið að flestum þingmálum annarra flokka, enda staðið við það að taka afstöðu til mála út frá hverju og einu en ekki út af "af því bara við erum á móti". Við tókum svo ákvörðun um að reyna að setja á fót ríkisstjórn eftir tæplega tveggja mánuða stjórnarkreppu en þegar í ljós kom að við áttum að verða hlutlaust hjáhjól stórflokks hættum við auðvitað.
Dómurinn verður á morgun.
Á morgun verðum við einn valkosturinn. Flokkur sem vill fá að þjóna almenningi, frjálslynt afl sem hefur ekki hikað við að taka ákvarðanir byggðar á hagsmunum þjóðar en ekki sérhagsmunum. Við höfum aldrei þegið framlög frá fyrirtækjum vegna þess að við höfum orðið vör við þau ítök sem það þýðir. Það má einfaldlega ekki verða norm stjórnmála.
Við höfum hugmyndir um sjávarútveginn, menntamál, utanríkismál, húsnæðismál, málefni aldraðra og hvað sem er. Við lofum því að taka alltaf ákvörðun í kjölfar vandlegrar umhugsunar byggðum á heildarhagsmununum.
Ég veit um fullt af öðrum valkostum, sem margir hverjir hafa tilkynnt um tuga og hundruðamilljarða útgjöld úr ríkiskassanum...en ætla samt ekki að hækka skatta. Þeir vísa í fyrri störf sín fyrir þjóðina...og ég held að það gæti nú alveg hjálpað einhverju fólki að kjósa þá ekki. En þannig er bara ég.
Björt Framtíð mun ekki fá neinn æðsta dóm á morgun. Við sem bjuggum til hugmyndafræði flokksins á sínum tíma trúum enn jafn mikið á hana og munum klárlega fara vandlega yfir stöðuna á sviðuna í kjölfar þess hvað verður talið upp úr kjörkössunum á morgun.
Þeir sem hafa lesið þennan pistil allan eru vonandi ennþá að velta því fyrir sér að setja X við A á morgun, laugardaginn 28.október. Mikið myndi það gleðja mig að sú ákvörðun yrði fyrir valinu - því við eigum svo margt eftir að gera til að Ísland eigi þá Björtu Framtíð sem landinu okkar ber.
Gleðilega lýðræðishátíð krakkar...veljum umburðarlynd öfl sem vilja vinna þjóðinni sinni gagn og gleði.
Dægurmál | Breytt s.d. kl. 22:18 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Kosningar 2016 nr. 2: Mín sýn
29.10.2016 | 09:28
Jæja.
Ekki varð nú kosningabloggið í mörgum köflum, lífið sá svolítið um það með ansi mörgum skemmtilegum verkefnum sem komu í veg fyrir það að tími ynnist til að færa í stafrænt form hugsanirnar sem farið hafa um hugann í kosningabaráttu sem því miður hefur stundum farið á rætnar slóðir.
Þess vegna ætla ég núna bara að taka samantektina á hugsunum mínum hér og segja hvers vegna ég fór í framboð aftur fyrir Bjarta Framtíð...en það var vegna þeirrar lífssýnar sem ég hef tileinkað mér fyrst og síðast.
Stjórnmál eru þjónustustörf. Sá sem fær þann heiður að nefnast þingmaður hefur verið valinn til þjónustu fyrir þjóð sína. Ég veit að í gegnum tíðina hefur það verið kallað að komast til valda en það finnst mér úrelt hugtak á stærstan hátt. Vissulega eru falin völd í þingmennsku en þau mega ekki stjórna.
Hvert einasta mál sem rætt er á þingi þarf að horfa til heildarhagsmuna, skiptir þar engu hvort verið er að ákvarða færslu símalína úti á landi, laun til öryrkja og eldri borgara eða um samskipti við umheiminn. Alltaf þarf að horfa til þess að þjóðin hagnist á ákvörðun Alþingis og innan þess ramma sem við ráðum við þegar kemur að tekjuöflun. Því miður hefur á undanförnum árum og áratugum of oft ríkt andi sérhagsmuna í stjórnmálunum. Ákveðnir hópar hafa haft undirtökin og varið sína hagsmuni áður en komið hefur af heildarmyndinni. Slegið hefur verið fram frösum og dregnar upp glansmyndir til að forðast umræðu um ákvarðanir sem verja eina stétt samfélagsins fyrir öðrum. Það eru valdamenn sem hugsa svoleiðis en ekki þjónustufólk. Því vill ég að verði breytt.
Hitt stóra atriðið er setning langtímamarkmiða. Íslensk stjórnmál eru á öðrum stað en á flestum öðrum löndum sökum þess að við horfum sjaldnast lengra en eitt kjörtímabil þegar kemur að stefnumálum...jafnvel enn styttra.
Þegar "við" komumst til valda útilokum við allt sem "þau" gerðu - enda ráðum við núna! Teknar eru stórar ákvarðanir og heilu málaflokkunum umturnað með miklum kostnaði og mannfrekum aðgerðum. Skiptir þá ekki máli hvort t.d. verið er að ræða um skattkerfisbreytingar, stefnu í mennta-, samgöngu- og utanríkismálum. Í Skandinavíu t.d. virðist hafa fyrir löngu verið festur samfélagssáttmáli í ákveðnum stærstu málaflokkunum sem kalla á það að horft sé til lengri tíma í stærstu málaflokkunum.
Það er þannig sem árangursríkar skipulagsheildir vinna, ekki sjá hver árangurinn er á tveimur árum og beygja þá bara í aðrar áttir ef þeim sýnist, heldur hafa sjónar á markmiðinu sem unnið hefur verið eftir innan hennar um langt skeið og verið er að styrkja.
Við þurfum að koma á samfélagssáttmálum í stærstu málaflokkunum, þannig sjáum við fjárþörf sem þarf til þeirra og út frá því vinna tekjuþættina.
Ef ég yrði valinn til þjónustustarfa á Alþingi myndi ég vilja horfa til þessara þátta sem fyrstu skrefana til að færa okkur inn á braut þjónustu fyrir þjóðina með langtímahagsmuni heildarinnar að leiðarljósi:
- Fara í endurskoðun stjórnarskrárinnar með áherslu á ákvæði um þjóðaratkvæðagreiðslur sem þjóðin getur leitað eftir. Nútíminn dregur verulega úr kostnaði við það að kalla fram þjóðarvilja sem á alltaf að fara framar þingvilja.
- Auka verulega framlag til Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga því þær rekstrareiningar bera skarðan hlut frá borði. Þær sjá um leikskólann, grunnskólann, málefni fatlaðra, öldrunarþjónustu, sorphirðu og flest það annað sem við höfum snertingu við í daglegu lífi. Einkahlutafélagavæðing í bland við auknar skyldur sem ekki hefur verið tryggt fjármagn fyrir hefur sett þær margar á vonarvöl á meðan að ríkið græðir.
- Það verður að endurskipuleggja peningastefnu. Styrking krónunnar þýðir minni tekjur fyrir útflutningsaðila og sagan kennir okkur það að svoleiðis lifir ekki samfélagið í áratugi. Á einhverjum tímapunkti kemur gengissveifla sem kallar á vaxta- og verðbólgusprengjur sem bitna á okkur öllum. Örgjaldmiðillinn okkar mun ekki lifa og ef það þarf að breyta honum eða tengja við annan þá er betra að gera það í góðæri en þegar verr árar.
- Við þurfum að ákveða hvaða vini við viljum eiga í útlöndum og bindast þá samtökum við þá. Það horfir ófriðlega í heimi þar sem þjóðernishyggja er dreifast hratt um Evrópu og við eigum ekki að láta eins og við séum fyrir utan sviga í samskiptum þjóða. Ísland þarf að eiga vini í kringum sig í núverandi aðstæðum í alþjóðastjórnmálum.
- Við verðum að forgangsraða í stóru kerfin okkar þrjú. Frá hruni hefur þjónustan í menntakerfinu, heilbrigðiskerfinu og samgangnakerfin dregist verulega saman og nú verður að koma þar til tekjuinnstræmi sem vissulega þarf að byggja á langtímaskipulagningu. Kerfin okkaer eru góð en við þurfum að endurheimta það fé sem datt út við hrunið í þeim.
- Nýja stóriðjan okkar er auðvitað ferðamennskan. Þar ríkir óskipulagt gullgrafaraæði á mörgum stöðum þar sem almannaheill ber lítið úr býtum. En það er ekki síður heildarskipulagning sem þarna þarf. Ísland er ekki frábrugðið öðrum ferðamannastöðum og þarf að horfa til ferils þeirra. Ansi margir hafa fengið toppa og offjárfest í sjálfum sér...og síðan setið eftir með ennið sárt þegar óstabílir kúnnar sem ferðamenn eru hafa ákveðið að fara annað. Áform um t.d. 18 hótel í byggingu í borg sem er nú þegar að fá til sín sennilega of stóran hóp ber einmitt vott um að við séum á villigötum.
Þetta eru verkefnin, hvernig eiginlega getum við aukið tekjustofnana okkar?
- Skattkerfið okkar er ágætt. En það er hægt að fá meira út úr því. Eitt virðisaukaskattsþrep og niðurfelling undanþága á því er fyrsta skrefið. Að þeim skatti koma allir sem á Íslandi dveljast, ekki síst ferðamennirnir okkar sem eru í dag að búa við alls konar afslætti. Einu undanþágur sem ég tel verjandi eru á barnaföt og lyf. Annað eigum við að kaupa með fullum virðisaukaskatti, ef við viljum að hann stýri vöruverði þá er bara að lækka prósentuna.
- Þrepaskipt skattkerfi hefur sannað sig og vert að halda áfram. Hins vegar verður hátekjuskattur að horfa til þess að hátekjur þurfi en millitekjur verði ekki metnar sem hátekjur. Þriðja skattþrepið á að koma til þegar um tvöföld meðallaun er að ræða. Það er enn hægt að hækka meðallaun talsvert með meira vinnuframlagi og það á ekki að leiða til hátekjuskatts. Ég held að meðallaun séu í dag um 650 þúsund, þá færum við í 1,3 milljón t.d. á einstkling Það er ekkert endilega jöfnuður að vera með þrepaskipt skattkerfi en það á að vera sjálfsagt mál að þeir sem mest geta lagt í samneysluna geri það. Út á það gengur hugtakið "samfélag"
- Taka á upp komugjöld í Leifsstöð. Ég veit að það myndi þýða að við Íslendingar myndum líka greiða slík gjöld en ekki bara ferðamenn. Þá það. Þessi leið er einföldust og býr ekki til skriffinsku- eða eftirlitsbákn sem mörgu öðru fylgir en tryggir okkur tekjur í sameiginlega sjóðinn úr auðlindinni okkar.
- Sveitarfélög eiga að fá að innheimta "borgarskatt" af útseldum gistinóttum sem rennur óskiptur í þeirra sjóði. Þeir eru jú að sinna innviðum fyrir ferðamenn.
- Auðlindagjald þarf að leggjast á allar okkar auðlindir. Ekki bara fiskinn í sjónum heldur líka aðrar þær sem við nýtum okkur, raforku og heitt vatn sem dæmi. Hér þarf að kalla saman víðtækt samráð til að koma í veg fyrir ósanngjarnt kerfi, því miður fannst mér auðlindagjaldið síðast ekki ná að horfa nægilega yfir öll sviðin í útfærslum. En þá á maður ekki að leggja svoleiðis niður, heldur lagfæra.
Þetta er lífssýnin mín, stutta útgáfan. Ég hef rætt þessi mál innan Bjartrar Framtíðar og er sannfærður um það að í þeim hópi er fólk sem deilir minni lífssýn. Það eru ekki allir sammála öllu og vel má vera að einhverjir af punktunum mínum séu vanhugsaðir og þurfi einhverrar umræðu og lagfæringar. Sem ég get treyst að fólk í BF er tilbúið í. Það getur jafnvel fengið mig til að skipta um skoðun. Sem er dásamleg tilfinning, það er ofboðslega gott að skipta um skoðun ef hún er ekki sú rétta...fyrir mann sjálfan eða heildina.
Þannig vinna þjónustuþenkjandi einstaklingar...þeir vinna fyrir heildina. Í dag fer ég og kýs Bjarta Framtíð...mikið vona ég að nokkur þúsund geri það með mér!
Dægurmál | Breytt 19.10.2017 kl. 22:14 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Kosningar 2016 nr. 1:Menntamál
7.10.2016 | 18:19
Fyrir það fyrsta.
Þetta er ekki hlutlaust blogg. Ég sit á lista Bjartrar Framtíðar í Reykjavík Suður en hef nýlega sagt mig úr stjórn flokksins. Er að mínu mati frjálslyndur í stjórnmálaskoðunum, rétt hægra megin við miðju, alþjóðasinnaður.
Þessi blogg mín eru þó ekki endilega skoðanir þess flottasta fólks sem situr efst á listum BF...þó ég voni auðvitað að þau séu mér sammála. Nú langar mig sjálfum að opinbera hvað mér finnst. Málamyndalaust...og byrja á menntamálum.
Menntakerfið
Alþingiskosningar eru svosem ekki vettvangur alls kerfisins. Eftir flutning leik- og grunnskóla til sveitarfélaganna er hlutverk Alþingis fyrst og síðast að setja stefnuna almennt. Svona búa til námskrár og reglugerðir sem styðja við starfið á því skólastigi.
Hvítbók og alls konar tilfærslur á umgjörð samræmdra prófa og ekki síst flutningur úr grunn- og upp í framhaldsskóla hefur heldur betur haft áhrif á vinnu á grunnskólastiginu.
Það er örugglega freistandi fyrir þá sem komast til valda núna að umturna og breyta til baka. Sem á alls ekki að gera. Það er að sjálfsögðu vert að skoða öll þessi atriði þar sem ég held að gott væri að horfa til þess að fá virkari raddir grunnskólans í endurskoðun og þróun. Því það er vissulega orðið...þróun...nýta það sem tókst en leiðrétta og laga til. Ég er sammála grunnhugsuninni.
Það er hins vegar algert lykilatriði að ríkið og sveitarfélögin setjist niður á næstu fjórum árum og endurskoði þá upphæð sem að sveitarfélögin fá uthlútað til reksturs grunnskólanna. Sú upphæð sem að var lögð til þegar við fluttum verkefnið frá ríkinu var of lág og þær kröfur sem samfélagið gerir til skóla án aðgreiningar eru einfaldlega þess eðlis að íslenska ríkið á að koma að því borði á þann hátt að betur verði gert. Einmitt vegna laga þeirra og reglugerða sem að ríkið hefur sett af stað.
Framhaldsskólinn hefur búið við fjársvelti nú um nokkurt sinn. Hrunið fór mjög illa með kerfið og í niðurskurðinum sem því fylgdi misstu ansi margir skólar frá sér verkefni sem að báru með sér mikil gæði náms. Nám í framhaldsskólum er almennt einsleitara og einungis allra langstærstu skólarnir geta boðið upp á einhverja fjölbreytni. Þar verður að koma til skörp breyting, það er óásættanlegt að allir séu steyptir í næstum því sama mót á milli 16 og 19 ára aldurs.
Brottfallið í framhaldsskólunum er annað mál sem verður að fara að horfa á. Á einhvern undarlegan hátt hefur það verið tengt styttingu framhaldsskólans í þrjú ár. Ég ætla að leyfa mér að leiðrétta þá þvælu að stærsti hluti brottfallsnemenda séu þeir sem að vilja klára hratt. Stærsti hópur þeirra sem ekki klára námið eru þeir sem einmitt ráða ekki við stanslausar bóknámskröfur og kröfur um að vinna hratt. Þar geta verið nemendur með alls konar sérþarfir, en stærsta ástæðan er að mínu mati það samfélag sem við höfum skapað og búið til vandamál sem að ekki er tekið á í framhaldsskólunum vegna þess einfaldlega að ekki hefur fengist til þess fjármagn. Þarna á ég við nemendur sem búa við kvíða, ofsahræðslu, þunglyndi, félagslega einangrun og búa við ástæður fátæktar eða annarra brotinna aðstæðna. Svarið er svo einfalt. Auka verulega fjármagn til náms- og starfsráðgjafara á efsta stigi grunnskólans og í framhaldsskólanum. Það er fyrsta skrefið, svo er að fá inn fagaðila eins og sál- og félagsfræðinga.
Það að gera þetta ekki er ávísun á gríðarlega sóun á mannauði þess unga fólks sem á það annars á hættu að lenda utanveltu í samfélaginu.
Háskólastigið
Hér þarf tvennt.
A) Skólana alla þarf að styðja til samstarfs. Sú umræða um að við ráðum ekki við "alla þessa skóla" er ekki rétt. Það mun stöðugt fjölga þeim sem að stunda háskólanám og þeir hafa meira sameiginlegt en það sem sundrar. Ríkið þarf að stýra þeirri umræðu og leiða þá að borði, vissulega þarf að vera samkeppni, en sú samkeppni þarf að vera á þeim grunni að framtíð þeirra sé möguleg. Það er t.d. fín byggðapólitík þar sem nokkrir háskólanna bjóða upp á störf fyrir vel menntað fólk í samfélögum sem ekki hafa upp á mörg slík að bjóða. Þetta þýðir að sjálfsögðu það að fjárfesta meir í skólunum og þeim mannauðsstóriðjum sem þeir hafa að geyma.
B) Endurskoða námslánakerfið. Sem foreldri námsmanns er alveg ljóst að LÍN hefur alls ekki sama hlutverk og þegar hann bjargaði því að mér tækist að klára háskólanám. Ég efa það ekki að fjárþörfin til LÍN er mikil og vel má vera að í einhverjum tilvikum hafi lán verið of mikil til ákveðinna og afskriftir því einhverjar. EN....
Ísland verður að bjóða upp á það að allir eigi möguleika á að læra það sem hugur þeirra stendur til. Það er einfaldlega ekki þannig núna. Því VERÐUR að breyta. Tillögur Mennta- og menningarmálaráðherra eru "peningatillögur" á undan "mannauðstillögum". Ég tel galið að LÍN sé rekið eins og hver önnur bankastofnun. Það verður að hafa það sem æðsta hlutverk námslánakerfis að það verði til þess að einstaklingar geti einbeitt sér að námi, þeir dugi til lágmarksframfærslu námsmanns á meðan á námi stendur...og draga úr öllum þeim girðingum sem nú hafa verið reistar varðandi vinnuframlag námsmanns á meðan námi stendur. Vissulega er hægt að hafa skerðingar varðandi tekjur námsmanns en þær eru fáránlegar í dag.
Samantekt
Menntakerfið okkar hefur þurft að taka á sig skell frá hruni.
Því miður hefur það verið þannig að sökum þess að ekki hafa verið stigin nein stór skref til baka í stærsu kerfunum. Nú er svo komið að fjársvelt kerfi eru orðin norm. Jafnvel enn ekki búið að ákveða að hætta niðurskurði!
Það er galið og því verður að breyta. Menntun er lífæð hverrar þjóðar og við verðum að styrkja hana mun veglegar en nú er gert!
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Árið 2015
30.12.2015 | 23:59
Það hefur verið hefð hjá mér í lok hvers árs að setjast niður og rita eilítinn pistil um það ár sem liðið er og ég held að það ár sem nú er rétt að klárast hafi innihaldið það mikið af viðburðum að það sé vel þess virði að taka aðeins saman.
Þessi skrif eru mest fyrir mig sjálfan held ég, en hver veit nema að einhver nenni að rúlla yfir þau líka. Að þessu sinni ætla ég að fara aðeins yfir árið í tímaröð og skipta því í þriðjunga.
Fyrsti ársþriðjungur
Þann 1.janúar árið 2015 vaknaði ég upp á Helluhólnum mínum og hitaði mér kaffi. Settist niður og vann aðeins í handriti af leikritinu sem við í GSNB höfðum ákveðið að setja upp með unglingunum og á meðan ég saup af kaffinu var ég líka að pæla í samtölum sem höfðu átt sér stað innan fjölskyldunnar um jólin.
Elstu dæturnar létu það kurteislega í ljós að þær söknuðu þess að hafa okkur ekki nær sér í borginni við Sundin en höfðu þó ákveðið að eyða sumrinu á nesinu við vinnu, það yrði þó líklega síðasta vinnusumarið þeirra beggja. Þetta samtal var öðruvísi í anda en þau sem á undan höfðu verið tekin um svipað efni. Persónuleg vonbrigði á árinu 2014 í kjölfar sveitarstjórnarkosninga sátu dýpra í sinni en ég áttaði mig á og ég fann það að þessi ósk stúlknanna hljómaði mun betur í mínum eyrum en ég reiknaði með. Veran í Snæfellsbæ var frábær og þennan janúarmorgunn var ég ekki að hugsa meira um þetta en samtalið hafði endað með. Ef að upp kæmi spennandi vinnutilboð fyrir annað hvort mig eða Helgu yrði það skoðað vandlega.
Janúar og febrúar voru með eðlilegum snæfellskum hætti. Kútmagakvöldið frábæra, síðan að endurvekja þorrablót og svo hefja æfingar á nýjum Þengilsþætti, nú skyldi sá finna ástina. Öflugt teymi starfsmanna GSNB fengið til verksins og verkaskipting ákveðin, fundið í hlutverk og byrjað að pússa.
Ég þurfti að keyra vikulega til Reykjavíkur til að starfa við samninganefndarstörf fyrir skólastjóra og í lok febrúar fékk ég frétt að loknum slíkum fundi sem sneri tilverunni á hvolf fyrir fjölskylduna. Þórður Kristjánsson samherji minn í nefndinni hafði tekið ákvörðun um að hætta störfum sem skólastjóri Seljaskóla frá vori. Mér rann beinlínis kalt vatn milli skinns og hörunds yfir þeim tíðindum. Í kjölfarið keyrði ég vestur og hausinn í hring.
Klárlega draumastarfið fyrir mig sem skólastjóra, mitt heimasvæði í borginni og afar áhugaverður skóli. Ég skipti um skoðun alla vega 15 sinnum á leiðinni hvað ég ætti að gera. Framundan voru margir dagar af umræðu á Helluhólnum...líka leitað ráða í borginni og málið rætt við elstu dæturnar. Að lokum var farið í að vanda sig við að vinna umsókn, ákvörðunin tekin. Ég fór og ræddi við Kidda bæjarstjóra og eins og öll okkar samskipti stóð allt hreint okkar á milli. Hann samþykkti að verða umsagnaraðilinn minn og bar virðingu fyrir ákvörðuninni. Ekki það að þetta viðhorf hans hafi komið mér á óvart þá vann hann sér enn einu sinni prik í minn kladda fyrir yfirveguð viðbrögð. Ég gerði mér fulla grein fyrir því að hann vildi að ég yrði áfram fyrir vestan en skildi mínar aðstæður algerlega. Það skipti mig mjög miklu máli í öllu ferlinu. Ef að til viðskilnaðar kæmi yrði hann á nótum vináttu og virðingar eins og öll höfðu verið fram að því. Endalaust þakklátur sem ég varð að það tókst.
Í kjölfarið var umsóknin send og margir dagar skrýtnir sem liðu. Fyrst að greina fólkinu mínu fyrir vestan frá því hver ákvörðunin var, sérkennilegt að sjá nafnið sitt á meðal umsækjenda. Hringt og boðað í starfviðtal sem mér fannst ganga vel. Þá þriggja vikna bið þar til svarið barst, jákvætt. Afskaplega stoltur af því að vera treyst fyrir verkefni eins mögnuðu og nú ég stóð frammi fyrir. En líka kvíði, þetta gerðist hraðar en ég reiknaði með og við höfðum stefnt að.
Samtalið við dæturnar allar verður eftirminnilegt. Hrein gleði Thelmu og Heklu, spenningur Sigríði Birtu í bland við kvíða um nýjar aðstæður, sterkur kvíði hjá Sólveigu fyrir nýjum aðstæðum en eilítill spenningur.
Mitt í þessum hræringum öllum voru mörg verkefni. Þengill fór á svið í magnaðri útfærslu snillinganna í GSNB. Krakkarnir hvert öðru betra og sannkallað "Dream Team" fullorðna fólksins sem að sýningunni stóð. Gunnsteinn leikstjóri og Diddi tónlistarstjóri fremstir í flokki en Sigrún B., Eygló, Lilja, Kiddý, Tinna og Mummi hvert öðru frábærara, fullt af öðrum kom að sýningunum og allir til í að hjálpa, Vala smíðandi leikmynd, Dagmar að vinna leiktjöld, gæsla á æfingum, rútufeðgarnir til í að gera allt sem í þeirra valdi stóð og mikil jákvæðni fyrir sýningunni í bænum. Sýningarnar urðu nokkrar og hver og ein einasta fyllti mig stolti. Sannkallaður draumur að ná að framkvæma slíka sýningu sem var startað með dásamlegri peningagjöf stjörnunnar okkar í Snæfellsbæ hennar Öldu Dísar - sem nú hefur loksins náð eyrum annarra en okkar verðskuldað.
Við stóðum líka frammi fyrir nýjum vinnutímaskilgreiningum sem við urðum að finna út úr í GSNB líkt og annars staðar á landinu. Auðvitað tókst okkur það ágætlega þó auðvitað sé mikið verk óunnið á næstu árum að pússa það allt til. Við lok þessa fyrsta þriðjungs, þann 1.maí var því skrefið staðfest en á sama hátt verið að ljúka skipulagi fyrir starfsár næsta skólaárs fyrir vestan. Ein stutt heimsókn að baki í Seljaskóla sem fyllti mig tilhlökkun...en margt eftir að gerast enn.
Annar ársþriðjungur
Maí varð mánuður alls konar "loka" í lífinu í Snæfellsbæ.
Síðustu skiptin sem ég fór í vorferðina, síðasta prófatörnin, síðustu ráðningarnar og síðasta útskriftarathöfnin í Ólafsvíkurkirkju. Á þessum tíma var ég reglulega að horfa yfir farinn veg og þau 9 ár sem ég hafði þann heiður að stýra öflugum hóp í GSNB.
Það er ansi margt sem ég er stoltur af í því starfi, skólinn var rétt að slíta barnsskónum þegar ég tók við starfinu og allan þennan tíma vorum við að marka okkur stefnu og setja okkur þann stall sem við vildum fara á. Það var á margan hátt erfitt að yfirgefa starfið á þessum tímapunkti, við vorum á góðum stað í námskrárvinnu og mörg spennandi verkefni í gangi. Það var mér mikil ánægja að sjá hæfileikafólk sækjast um að verða eftirmaður minn og ekki síður þegar tilkynnt var um ráðningu að fyrir valinu varð metnaðarfullur skólamaður sem að ég er handviss um að leggur sig allan fram um að gera gott skólastarf í Snæfellsbæ enn betra en það var.
Erfiðar voru kveðjustundirnar. Fyrst að kveðja krakkana á skólaslitum og ekki síðar þegar kom að því að kveðja samstarfsfólkið mitt. Því tókst að fylla augun mín ryki það kvöld með fallegum orðum, söng og kveðjugjöfum.
Ég stóð stoltur upp úr stólnum mínum eftir árangursrík, gefandi og skemmtileg ár sem mótuðu mig mikið í starfi...og vera mín í Snæfellsbæ breytti mörgu í lífi mínu og hjálpaði mér að þroskast sem einstaklingur - upplifa margt sem ég ekki hafði áður kynnst. Það varð fyrst og síðast vegna magnaðs fólks sem ég kynntist og gekk götuna með mér, eða flaug með mér um loftin blá með vængjaslætti fiðrildanna!
Það vona ég að almættið gefi það að samveru fái ég að sækja í vestur sem oftast á ævinni.
En svo kom sumarið og það var mikið fjör framundan. Dómgæslan í fótboltanum var minni en áður, bæði var það að nú hafði fækkað um fótboltalið á Snæfellsnesi en það fjölgar líka yngri mönnum í stéttinni og þá eru þeir auðvitað teknir framyfir karla á fimmtugsaldri!
Ég fékk það skemmtilega verkefni liðinn vetur að koma að þjálfun tveggja mjög efnilegra markmanna fyrir vestan, þeirra Baldurs og Konna. Það kveikti í mér fótboltaneistann og ég samþykkti að verða þjálfari/liðsstjóri hjá 5.flokki kvenna hjá Snæfellsnesi á Pæjumótinu í Eyjum þar sem Birtan mín var á meðal keppenda.
Skemmst er frá því að segja að þeir dagar voru hreint bráðskemmtilegir á allan hátt. Stelpurnar sér og sínum til sóma og ég fann það greinilega þessa daga að ég hef greinilega ekki lokið leik þegar kemur að afskiptum af fótbolta. Eftir Eyjar ákvað ég það að þegar suður yrði komið ætlaði ég að finna mér farveg sem myndi veita mér ánægju og vonandi þá verða til þess að skila til íþróttarinnar einhverju af því sem ég hef til hennar sótt.
Sigríður Birta var býsna öflug í boltanum í sumar eftir frekar áhugalítinn vetur. Hún fór í nokkra leiki og á Símamót með sínum flokki og stóð sig vel. Sólveig Harpa fór "all in" í fótboltann og fékk nú að fara á nokkur mót. Hún er töluvert tapsárari en eldri systir sín og var margar vikur að ná sér eftir að hafa tapað úrslitaleik á Símamótinu með hlutkesti (er eiginlega enn fúl) en var sér og sínum til mikilla sóma, svosem eins og allar dæturnar hafa verið alla tíð.
Ég fékk aftur tækifæri til að aðstoða vini mína Vidda og Þóreyju á Álfheimum á Borgarfirði Eystra í tengslum við Bræðsluna. Nú langaði mig að koma fyrr að öllu og kynnast fólkinu sem ég ynni með áður en að Bræðslu kæmi og keyrði austur mánudag fyrir Bræðslu en Helga og dæturnar komu fljúgandi á fimmtudegi.
Nýr aðalkokkur var mættur til starfa, árið 2014 var það Tóti Skagstrendingur sem stjórnaði hlutum en núna var það Hjalli Vestmanneyingur sem stýrði eldhúsinu af mikilli röggsemi og leyfði mér að koma að verkunum. Mikið ofboðslega sem mér fannst þetta skemmtilegt. Andrúmsloftið á Álfheimum og firðinum flotta þarna fyrir austan er bara þannig að á mann sest yfirvegað sælubros sem stendur allan tímann sem maður er. Þrátt fyrir ofboðslega kalt sumar og blautt var æðruleysi fólks alla vikuna algert og vandvirknin réð ríkjum í matarverkunum.
Hjálmar alvanur í hópamatseld og allt klappað og klárt með góðum fyrirvara. Ég held ég sé ekkert að skrökva þegar ég segi að við höfum svo töfrað fram magnaðar veitingar á Bræðsluhelginni og að þessu sinni voru miklu fleiri sem sóttu í krásirnar en árið áður. Það voru þreyttir en glaðir kallar sem trilluðu svo á tónleikastaðinn laugardagskvöldið á þeirri helgi. Fjölskyldan þurfti svo að yfirgefa svæðið hratt að Bræðslu lokinni þar sem nú var kominn tími á flutning en mikið vona ég nú að þau hjón sjái sér fært að ráða skólastjórann aftur í slíka vinnu sumarið 2016.
Það eru vissulega langir vinnudagarnir og mikið í gangi. En sá kraftur sem ég hef náð að sækja mér í faðm Álfheima og fólksins þar hefur enst langt frameftir vetri og er ómetanlegur með öllu. Ég átta mig á því að ég og mín þátttaka í ævintýrinu verður aldrei í neinu lykilhlutverki en vona þó að kraftarnir nýtist...og fyrir þá sem ekki hafa upplifað Borgarfjörð Eystri, Bræðslu og Álfheima segi ég bara DRÍFIÐ YKKUR!
Ég fullyrði að það er enginn tónlistarviðburður á Íslandi jafn magnaður og Bræðslan...hvað sem síðar verður...þá er þetta mögnuð hátíð svo full af hlýju, vináttu og fagmennsku. Hrein dásemd sem þeir Heiðar og Magni hafa kokkað upp og látið malla svo fallega.
Ágústmánuður birtist, við höfðum byrjað að tína ofaní kassa í gegnum sumarið en nú stóðum við frammi fyrir stóru áföngunum. Við vorum búin að fá leigt fyrir sunnan og leigja okkar hús fyrir vestan. Ákveðið að verða Breiðhyltingar, flytja í Dalselið og stelpurnar færu í Seljaskóla.
Fyrst áttum við þó dásamlega Verslunarmannahelgi sem náði hámarki með "Selhólnum 2015" þar sem við skemmtum okkur vel með dásemdarvinum okkar á nesinu og fengum góða vini að sunnan sem bónus í gleðinni. Sannkallaður draumaendapunktur á verunni á Hellissandinum okkar góða.
Það var svo þann 15.ágúst að hann Eggert vinur minn frá Berunesi kom á flutningabílnum og fyllti hann af dóti sem var ferjað inn í Dalselið það kvöld. Ég hafði þá verið á dýnuflakki einhverja daga þar sem vinnan mín í Seljaskóla hófst 9.ágúst en frá þessari helgi hófst Reykjavíkurævintýri fjölskyldunnar sem nú var flutt í #beztaBreiðholt og hóf að aðlaga sig nýjum veruleika. Það að horfa á eftir bílnum í galtómu Helluhólshúsinu var skrýtið og ryk fyllti augu...frábærri veru undir Jökli lokið.
Hekla lenti inn á spítala í upphafi ágúst eftir svæsna útgáfu Einkyrningssóttar og hún hafði verið með mér í dýnuflakki fram að því, hún flutti svo til okkar í upphafi september. En dagarnir í ágúst mörkuðust af aðlögun á margan hátt. Helga Lind hóf störf í Mími og stelpurnar fóru í Seljaskóla með mér og fóru að æfa með ÍR í fótboltanum. Fyrstu merki voru strax góð hjá fjölskyldunni.
Ég fékk stór verkefni strax í upphafi vinnunnar sem kölluðu á það að ég kynntist starfsmönnum og starfinu hraðar en kannski var reiknað með. Það held ég að hafi reynst ágætlega þó vissulega hefði verið skemmtilegra að þær aðstæður hefðu kviknað af öðrum völdum. Ég fann frá fyrsta degi í Seljaskóla að ég væri enn þeirrar gæfu maður að vinna á öflugum vinnustað. Gegnumgangandi kraftur og metnaður í öllu starfsfólki og mikil tilhlökkun að takast á við verkefnin.
Þegar annar þriðjungur ársins var að baki í ágústlok vorum við því lögð af stað í nýtt verkefni full tilhlökkunar en að baki það að hafa kvatt heimili okkar til níu ára og frábæra vini. Hvirfilvindurinn alveg á fullu ennþá!
Þriðji þriðjungurinn
1.september markar upphaf lokaþriðjungs. Þann dag var ég búinn að vinna tvær vikur eftir að börn og starfsmenn í Seljaskóla komu til vinnu og stöðugt meiri tilhlökkun að byggjast upp fyrir komandi verkum. Sá andi sem ég hafði hingað til talið mig vera að finna var einmitt það sem ég fór að upplifa, fólk tók vel á móti mér og mínum pælingum frá fyrsta degi og ég fékk að læra fullt af kollegunum strax á fyrsta degi.
Það hjálpaði mér klárlega að þekkja vel til í Breiðholtinu. Ég kynntist hverfinu árið 1996 þegar ég flutti frá Sigló og það varð eiginlega bara strax ást við fyrstu kynni. Andinn í hverfinu er uppbyggilegur og jákvæður og endalaus kraftur býr í því og íbúum þess. Ég finn það að hverfið er að rísa enn ofar í samfélaginu og mér fannst ég strax fá hlutverk í því...og margir samherjar í hverfinu einstaklingar sem ég hafði þekkt frá fyrri tíð. Algerlega frábært.
Yngri systurnar féllu strax inn í hópana sína. Það hjálpaði þeim báðum að vera í fótboltanum og kynnast þar stelpum í skólanum en þær eignuðust strax vini í bekkjunum sínum og aðlögun að 630 barna skóla og bekkjum með 60 - 70 félögum var afskaplega átakalítil og einföld.
Þær ákváðu svo að nýta sér það að vera komnar í borgina, þær höfðu væntingar um marga vini og mikið prógramm. Það gekk eftir, fóru báðar í kór...en urðu þó að fara í sinn hvorn kórinn þar sem kórinn í hverfinu endar við lok 5.bekkjar. Sigríður Birta fór því í Stúlknakór Reykjavíkur með aðsetur í Grafarvogskirkju, báðar hafa notið sín þar frá fyrstu mínútu.
Þær vildu fá að prófa nýjar íþróttir. Margar bekkjarsystur Sigríðar Birtu voru í handbolta hjá ÍR og hún dembdi sér á kaf þangað...pabbinn varð auðvitað að brosa útí annað þegar hann sat á fyrsta mótinu og hugsaði um kröftugar samræður um það hvort handbolti væri leikur eða íþrótt á kaffistofunni í Ólafsvík. Enda margir sem rifjuðu þær samræður upp við mig. Handboltinn hefur gengið vel og hjálpaði aðlögun hennar enn frekar.
Sólveig Harpa fór á fótboltaæfingu en sá þá körfuboltaæfingu fyrir sinn aldur á öðrum stað í íþróttahúsinu. Þar var verið að leika í köðlum og hún fór umsvifalaust af fótboltaæfingunni og í körfu. Tilkynnti föðurnum að hún væri hætt í fótbolta því karfa væri miklu skemmtilegri...því þar fær maður að vera í köðlum! Sem betur fer voru æfingatímarnir lagaðir til þannig að hún gat þó tekið þátt í báðum íþróttum og hún hefur notið sín í botn í bláhvíta búningnum í hvorri íþróttinni sem er. Pabbinn hefur virkilega gaman af því að stunda körfuboltamót enda lengi vel draumurinn að ná langt í þeirri íþrótt, þar til að ég stoppaði vöxt í 180 sentimetrum. Mamman hins vegar brosti út í annað að sjá dótturina dripla körfubolta, fannst það eilítið afrek miðað við sína eigin hæð og íþróttaiðkun í gegnum tíðina!
Svo að strax frá upphafi tók Breiðholtið vel á móti snæfellsku blómarósunum. Það var auðvitað það atriði sem við mest kviðum fyrir í flutningunum og því mikill léttir að sjá þær njóta þess að eignast nýja vini - nokkuð sem þær voru ekki vissar um að tækist.
Mikið at einkenndi fyrstu vikurnar og mánuðina, við Helga bæði á nýjum vinnustað og að læra aftur á lífið í Reykjavík. Systurnar yngri dembdu sér í fjörið og allt á fullu. Hekla flutt í Dalselið og nýta það að gamli var mættur á svæðið. Thelman að nema stjórnmálafræði, komin í uppáhald hjá Hannesi Hólmsteini og vinnandi á Slippbarnum með skólanum.
Við fórum hægt og rólega að standa við það að rækta betur tengslin við ættingjana. Afi og amma heimsótt í kaffi, vinirnir fengu sinn tíma og reglulegir hittingar með þeim nánustu. Hins vegar alveg ljóst að við ætlum okkur enn betri hluti í þeim efnum nú þegar rykið er aðeins að setjast á verunni allri. Þá ekki síst til að eitt aðalatriðið sem við ætluðum að ná var að efla samband systranna fjögurra sem höfðu í níu ár verið alltof sjaldan á sama staðnum. Það verður enn betra held ég...því þeim finnst oftast gaman þegar þær koma saman!
Desember kom að lokum eftir alls konar veður...þó vissulega hafi blásið minna en við þekktum fyrir vestan bunkaði töluvert af snjó og gamli Hyundai fékk uppreisn æru. Ég hef ekki saknað þess að vera daglega yfir veðurfréttum á vetri og reyndi lengst af að ganga til vinnu á morgnana, allt þar til hálkan dró mikið úr ánægjunni. Það finnst mér forréttindi í raun, að geta gengið til vinnu og aftur heim.
Ég hef áður rætt að mig langaði að koma meira að fótbolta fyrir sunnan en ég hafði gert fyrir vestan. Óskaplega sem ég varð nú glaður að það virtist eftirspurn eftir mér í þess lags vinnu. Ég varð ekki minna glaður þegar að klúbburinn minn var tilbúinn að koma til móts við það sem mig langaði mest að gera og réð mig sem markmannsþjálfara í klúbbnum. Bæði hjá þeim ungu og efnilegu og svo þeim sem eiga að halda merki meistaraflokksins á lofti. Það var óskaplega gaman að labba inn á ÍR-svæðið merktur klúbbnum aftur. Það er klárlega jákvæð bylgja í fótboltanum hjá ÍR og nú í lok ársins er ég kominn líka af stað í hóp sem ætlar að nýta þann kraft og auka gleðina í félagsstarfinu, félaginu og hverfinu til heilla.
Svo kláraðist önnin og jólahefðirnar allar aðlagaðar að nýju svæði. Eins og annað sem gekk á árinu ýmislegt sem maður saknaði en annað sem maður gat nú gert sem maður hafði saknað áður.
Heilt yfir býsna gott ár bara hjá fjölskyldunni, þung skref á margan hátt og svefnlitlar nætur vissulega oft á dagskránni en á móti hefur öll aðlögun gengið vel og smátt og smátt verður öryggið meira í öllum aðstæðum hér í borginni við Sundin.
Framundan er árið 2016
Já, árið 2016. Árið þar sem ég verð 45 ára og 20 ár síðan ég flutti frá Sigló.
Það er engin klisja að maður á að fagna hverju ári - það er eitt og sér gleðilegt að eiga heilbrigð börn og fylgjast með þeirra framgangi.
Svo er það vinnan og þau verkefni sem framundan eru, þar hlakka ég til margra hluta. Við í Seljaskóla erum alltaf að stíga nær hvert öðru og marka þá leið sem við svo ætlum að þramma saman. Hópurinn er að stilla sig stöðugt betur saman eftir inntöku margra nýliða og krafturinn stöðugt að aukast. Svo er líka framundan Lurkaþorrablót, jebbz, kallaklúbbur á staðnum takk fyrir. Það er ekki sjálfgefið svosem í grunnskólanum en mikið fagnaðarefni að hafa töluverðan karlahóp á kaffistofunni með öllum frábæru konunum.
Í janúar verður verðugt verkefni hjá okkur á kop.is þegar um 140 ferðalangar ætla að fylgja okkur til Mekka fótboltans, Anfield í Liverpool að horfa á leik heimamanna við erkióvinina í Manchester United. Þetta er langstærsta ferðin okkar til þessa og nú ætlum við allir fjórir að stýra ferðinni, auk fulltrúa Úrvals Útsýnar. Mikið vona ég að þeirri hefð verði viðhaldið að Liverpool vinni þá leiki sem við Kop-arar förum með hópferð á!
Þegar líður á vorið er ég að vona að mér takist ásamt góðum vinum að vinna skemmtilegri hugmynd brautargengi, meira af því kannski síðar. Það er líka mikil tilhlökkun með vorinu að vera nú enn meiri þátttakandi í boltanum en liðin ár með aðkomu minni að ÍR. Ég ætla að halda í flautuna um sinn og vona að ég fái enn einhver verkefni í því starfi.
Á árinu 2015 fékk ég líka mörg skemmtileg verkefni hjá snillingunum á Fótbolta.net og það er stefnan að halda því áfram.
Mest ætla ég þó að njóta þess að vera nær allri fjölskyldunni en áður. Það var langstærsta ástæðan fyrir skrefinu aftur suður og það er staðföst stefna að nýta sér það tækifæri sem gafst til þeirra flutninga. Vonandi verður sumarið gott þannig að hægt verði að grilla með vinum og fjölskyldu, hvort sem verður í #beztaBreiðholti, Akranesi, Garðabæ, Hafnarfirði, Vestmannaeyjum, á Norðurlandinu eða hvar sem er. Vonandi svo ferð á Borgarfjörð í júlí.
Er ekki bara að mörgu góðu að stefna...
Ef einhver er hér ennþá að lesa þakka ég áhugann og lesturinn.
Megi árið 2016 vera þér og þínum gæfuríkt og gleðilegt!!!
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Svo kom beygjan...
16.4.2015 | 11:50
Í gær kom hringing í farsímann minn...og sú hringing boðaði beygju.
Eftir níu dásamleg ár í Grunnskóla Snæfellsbæjar sem hafa þroskað mig bæði sem skólamann og persónu gaf hringingin til kynna að mér hefði verið veitt það traust að verða skólastjóri Seljaskóla frá hausti.
Lífið er leið, eina sem við vitum er að það hefur upphaf og það hefur endi. Á þessari leið koma brekkur sem maður fer upp og niður en líka beygjur eins og þær sem birtust fjölskyldunni á Helluhól 3 í gær og framundan er aðlögun að þeirri beygju.
Þegar lengra líður á vorið og sumarið mun ég örugglega reyna að færa í eitthvað letur það sem mig langar til að segja um minn dásamlega heim í Snæfellsbæ innan og utan vinnunnar og þá um þakklætið fyrir það tækifæri sem Reykjavíkurborg hefur fært mér.
Ég er staðráðinn í að standa undir þeim væntingum sem fylgja slíku starfi í uppáhaldshverfi uppáhaldsborgarinnar minnar!
En í bili hefur það eina breyst er að beygjan hefur verið ákveðin, umskiptin verða í haust og fram að því eru mörg verðug verkefni og mikil gleði, bæði í einkalífi og vinnunni.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Amma á ammæli...
10.3.2015 | 16:44
Í dag er hún amma - Hulda Jónsdóttir að halda upp á afmælisdaginn sinn.
Sá er nr. 94 í röðinni og hún heldur upp á það í íbúðinni sinni og hefur allavega hitað kaffi í nýja eldhúsinu, ég spái heimatilbúnu bakkelsi með.
Það er ein af minni mestu lukku í lífinu að fá að hafa átt hana ömmu mína að í þau 44 ár sem ég hef þrammað um grund. Fyrstu árin að mestu í hennar faðmi en áfram að hluta eftir að ég flutti með pabba og mömmu fyrst á Blönduós og svo austur.
Þegar ég hugsa hvað hún hefur mest kennt mér þá kemur upp í huga mér iðni, yfirvegun og traust.
Hún amma er iðnasta kona sem ég hef kynnst (no offence allar hinar konurnar mínar). Hún hefur einfaldlega alltaf verið að allt frá því ég man eftir henni fyrst, hún fékk ekki laun í peningum og örugglega ekki nóg í þakklæti fyrir sín störf en ég vona að mér hafi tekist að segja henni í gegnum tíðina hversu stórt hlutverk hún átti í minni veru á Sauðanesinu okkar góða og síðan eftir að hún flutti suður með honum afa fyrir alveg fullt af árum.
Hún hefur alltaf yfirvegaða áru. Að sjálfsögðu með skap en alltaf hefur hún haldið sínum dampi hvað sem á hefur gengið í þeim sjógangi sem á stundum hefur verið í kringum okkur ættingjana hennar.
Hún er táknmynd trausts í mínum kolli. Síðkvöldin á Sauðanesi þegar hún stappaði stálinu í lífhræddan og stundum óöruggan Magga með mjólkurglasi og kringlu þegar margir voru sofnaðir eru mér dýrmæt minning. Í tveimur stærstu áföllum lífs míns gat ég leitað til hennar og talað við hana á þann hátt sem ég þurfti. Vonandi tókst mér eitthvað að lina hennar þraut þegar hún mamma mín kvaddi. Ég veit hún linaði mínar þrautir þá.
Miðað við hversu fersk og flott hún amma mín er þá á ég eftir að fá að njóta samvistum við hana um langa hríð enn.
En mig langar til að segja þér það líka á netinu amma mín, því þar ferðu um víddir, hversu mikið ég er stoltur af þér og elska þig heitt!
Dægurmál | Breytt s.d. kl. 16:54 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Árið 2014 kvatt - velkomið 2015
1.1.2015 | 14:07
Með hærri aldurstölu gerist það í mínu tilviki allavega að mér finnst skemmtilegt aðeins að velta upp smá pælingu um það ár sem verið var að kveðja og aðeins skoða það sem framundan er.
Þá er gott aðeins að hripa niður svona fyrir sjálfan sig en kannski finnst einhverjum skemmtilegt að fletta aðeins í gegnum þetta ár með mér...here goes!
Vorið og sveitarstjórnarkosningar.
Fljótlega upp úr síðustu áramótum spratt upp umræða um sveitarstjórnarkosningar í Snæfellsbæ. Sú umræða hófst í litlum hópi sem hafði áhuga á að kynna sér Bjarta Framtíð, hvað hún hefði fram að bjóða í málefnastarfi og hugsjónum. Hópurinn stækkaði smátt og smátt og að lokum buðu 14 einstaklingar sig fram til kosninganna 31.maí.
Ég bauð mig ekki fram á listanum en frú Helga Lind steig það skref og þetta mál allt litaði lífið í apríl og maí. Á þeim tíma tók ég að mér að vera kosningastjóri hópsins og vera í samskiptum við BF á landsvísu. Stórt og mikið verkefni sem tók mikinn tíma.
Niðurstaðan varð því miður ekki alveg í takt við þá vinnu og þegar upp var staðið þá fékk hópurinn engan fulltrúa í bæjarstjórnina. Það voru stór vonbrigði, ein þau mestu bara í mínu lífi. Ekki útaf neinum persónutengdu heldur fyrst og fremst því að þetta fólk sem var að bjóða sig fram var metnaðargjarnt fyrir hönd bæjarfélagsins og ég er enn jafn sannfærður og ég var þá að þau hefðu haft góð áhrif á lífið í bænum okkar.
Þegar frá líður þá svosem róast pirringurinn og eftir stendur að hafa fengið að kynnast frábæru fólki og fjölga vinum mínum. Amma mín sagði einhvern tíma að tilgangur lífsins sé að láta gott af sér leiða og gera sem flesta að vinum sínum. Það tókst mjög vel í tengslum við BF starfið og situr því mest eftir, sigrarnir verða bara seinna og þá gleðjumst við enn meir!
Austurland og Bræðslan
Ég strengi ekki áramótaheit öllu venjulega en nákvæmlega á þessum degi fyrir ári síðan fór í gang alvöru umræða um það að gamall draumur um að fara á tónlistarhátíðina Bræðsluna og hitta góða og gamla vini skyldi nú rætast.
Nú lét ég ekki sitja við orðin tóm, heldur stóð við það að semja við hann Arngrím Viðar, sem er auðvitað bara Viddi, um að gömul pæling um aðstoðarkokkamennsku á gistiheimilinu hans skyldi nú tekin skrefinu lengra. Og sá var sko heldur til í það og ævintýrið gat orðið.
Og ævintýri er orðið. Í gegnum tíðina hefur hugurinn stundum reikað austur, enda ófáir dagar ævinnar að baki á því svæði. Borgfirðingar eru undantekningalítið held ég afskaplega gott fólk, en einhvers staðar í bakhnakkanum var ég pínu hræddur um að það að halda svona "hipp og kúl" tónlistarhátíð í þessu litla og fallega þorpi væri kannski eitthvað "óekta" leið borgarbarna til að brosa að ástæðum í bland.
Aldrei hef ég verið lengra frá réttri pælingu og þar. Vikan á Borgarfirði var samfellt bros og mikið gæfuspor að hafa tekið. Skiptir þá engu hvar er stigið niður. Viddi og Þórey tóku gríðarlega vel á móti fjölskyldunni og starfið varð meira en aðstoð, ég fékk bara að vera kokkur og leið dásamlega með það og mikið var gaman að vinna með hressu og duglegu ungu fólki í eldhúsinu. Ekki svo síður að standa vaktina með "nýja besta vininum mínum" honum Tóta sem nú er Borgarstjóri á Skagaströnd og henni Ingunni.
Veðrið var eins dásamlegt og það verður fyrir austan, Sólveig og Sigríður voru í pilsum og stuttbuxum allan tímann og léku sér í fjörum, görðum og ævintýrahúsum. Þær fengu svo að fara á tónlistarhátíðina með okkur og upplifðu það seiðmagnaða ástand sem skapast inni í gamla bræðsluhúsina þetta kvöld.
Að loknu Borgarfjarðarævintýrinu renndum við á æskuslóðir húsfreyjunnar á Neskaupsstað og eyddum þar nokkrum dögum í góðu atlæti Ingibjargar og Arnars. Þar fengum við enn meiri tónlist og fórum á frábæra tónleika með Jónasi Sig.
Þegar ég sat úti í sal og heyrði þann snilling syngja um Eiðavatn þá varð ég næstum fyrir trúarlegri upplifun held ég. Lagið kynnti hann með því að þegar hann samdi ljóðið þá leitaði hann sitjandi úti í Danmörku að stað sem léti sér líða vel, það var vatnið mitt fallega sem rak á hans fjörur og það átti að hans sögn stóran þátt í því að hann tók nýja stefnu í sínu lífi...það situr eftir í mínum huga sem tónlistarupplifun sumarsins að hlusta á stórkostlegan flutning hópsins á þessu kraftmikla og fallega lagi...ég sat úti í sal og tárin runnu niður kynnarnar...ég veit, svoldil drottning stundum!
En á heimleiðinni varð mér ljóst að Austurland á stóran sess í mér, þangað ætla ég að fara oftar og stoppa lengur. Svo ótalmargar ástæður liggja þar að baki, en mest auðvitað það góða fólk sem þar býr!
Prinsinn Aladdín
Í maí kallaði hún Sigríður Birta til fjölskyldufundar. Sem hún á til að gera.
Nú var ástæðan að halda til haga umræðu um það að sá tími kæmi að fengið yrði gæludýr á heimilið, henni fannst sá tími kominn. Frú Helga var eitthvað óvenju meir þennan daginn og úr varð að hún missti það út úr sér að ef að tækist að finna innikött sem ekki færi mikið úr hárum væri hún til.
Við Birtan stukkum til, fórum að leita upplýsinga og fengum það út að Bengalkisur væru það virkar að þær yrðu að vera innikisur og færu ekki mikið úr hárum. Verst var að bara einn aðili ræktar slíkar kisur á Íslandi og svo var alltaf klárt að nota átti tækifærið og fjölga karlpeningi heimilisins svo ýmislegt átti eftir að ganga upp.
En viti menn, allt gekk upp! Hann Óli í Nátthaga átti eitt fress í goti sem enginn var búinn að festa sér og framundan liðu nokkrar vikur þar sem heimilisfólk beið frétta af þroska kisans og fylgdumst með alls konar sprautuveseni og öðru sem þarf að vera í lagi þegar maður fær sér ættbókarkisu.
Á leið okkar austur varð ljóst að hann væri okkar en þó mátti ekki sækja hann fyrr en 31.ágúst. Ég fór og sótti hann, byggt var innibúr fyrir strákinn og hann hefur nú dvalist hjá fjölskyldunni í fjóra mánuði. Það er vissulega oft sem á ýmsu gengur, tveir vasar, einhver glös og annað smálegt hefur brotnað...og jólatré heimilisins er með afar óvenjulega skreytingu þennan daginn. Neðsti þriðjungur algerlega ber en ofskreytt þar ofan við...og jólaseríurnar báðar dánar!
Hann er orðinn heimavanur og róast hægt og rólega sýnist okkur, mikill karakter sem hefur auðgað heimilislífið á margan hátt, sem er jú nákvæmlega það sem maður vill fá með gæludýri!
Meistaranám
Í fyrravor kom upp sú hugmynd að Háskólinn á Bifröst ætlaði sér að setja á fót á ný skólastjórnendalínu í meistaranám sitt í Menningar- og viðburðastjórnun.
Ég ákvað þá þegar að stökkva á þann vagn, lengi langað að bæta við mig námi en langaði inn á ný svið í stað eingöngu kennslu- og uppeldisfræði og eftir því sé ég sko ekki! Vissulega hefur verið mikið álag að vera í fullu námi með starfi og því ætla ég að breyta á nýju ári...en heldur betur halda áfram og gráðan verður kláruð.
Í náminu hef ég kynnst nýrri sýn á svo margt sem ég hef unnið með en líka margt sem gefur kollinum færi á að svífa á nýjar brautir - hvort sem annað fylgir kemur síðar í ljós. En mikið sem það er hollt að fá nýja sýn og ný viðhorf. Ég hef skipt um skoðun um margt - og það er þroskandi - átt frábærar samræður við samnemendur mína og tekið þátt í gefandi hópvinnuverkefnum.
Það verður áfram á þessu ári og lýkur vonandi á næsta ári!
Hvað svo?
Þessi fjögur atriði standa uppúr á árinu 2014.
Að öðru leyti hefur árið gengið fínt, að mestu átaka- og áfallalítið eins og gengur og gerist. Dæturnar fjórar dafna og þroskast...takast á við ný verkefni í lífinu og leyfa mér stundum að taka þátt í því, sem gefur mér mikið.
Í GSNB erum við að vinna að nýjum áherslum í námskrá samfara því að verða alltaf betri í því að bæta námsumhverfi nemenda okkar og dómgæslan með flautuna hefur náð fínni rútínu, þó enn séu hnén að hrjá gamla manninn svolítið. Kop.is vekur mér gleði að mestu, þó maður verði sennilega viðkvæmari fyrir gagnrýni með aldrinum og ferðin til Liverpool í október með honum Babú mínum var frábær.
Framundan er svo árið 2015...blað þess er óútfyllt og gefur pláss fyrir margt. Á fyrsta deginum brýst margt um í kollinum en eins og áður engin áramótaheit en vissulega pælingar sem fara um víðáttur hugarfljótsins.
Og sú er bæði djúp og breið! Með hverju árinu held ég að maður velti meira fyrir sér hvað mann langar til að gera og verða, allavega er það eitthvað sem er í gangi hjá mér. Margt af því sem hefur orðið á vegi mínum á þessu ári hefur dregið fram í mér góðar hliðar sem ég kannski ræktaði ekki nægilega og á sama hátt kynnt fyrir mér nýtt fólk og ný viðfangsefni. Það snertir mig þegar ég horfi til baka og gerir mig enn ákveðnari í því að vera óhræddur við að hugsa hærra, meira og lengra.
Hún amma mín hitti á réttar nótur með setningunum sínum forðum og lífsspekin hennar hvetur mig áfram þessi misserin, það og vængjasláttur fiðrildanna!
Megi árið 2015 vera okkur öllum gjöfulla og betra en öll þau sem á undan því eru gengin!!!
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Kosningar til sveitarstjórnar
31.5.2014 | 02:16
Klukkan er 2:00 og dagurinn er 31.maí 2014.
Kosningadagur í Snæfellsbæ. Lýðræðishátíð.
Fyrir um þremur mánuðum kom að máli við mig lítill hópur fólks sem vildi ræða það hvort Björt framtíð væri að velta fyrir sér framboði í bæjarfélaginu.
Mér fannst þá ekki tímabært að pæla í því en við ákváðum að stofna flokksfélag og halda fund um málið, opinn. Þangað mætti töluverður hópur fólks. Þar var ákveðið að búa til stærri opin fund, hugarflæðisfund um málefni Snæfellsbæjar. Á þeim fundi varð Björt framtíð í Snæfellsbæ til.
Allir frambjóðendur flokksins í kosningum hafa komið að slíkum fundum síðan. Öll málefnavinna okkar er sprottin úr þeim ranni.
Aðalatriðið í flokksstarfi stjórnmála eins og Björt framtíð trúir á eru fullkomið traust á lýðræðinu og því að gefa sér tíma til að hugsa mál til langs tíma og gefa sér tíma til að ræða sig niður á lausn sem allir eru tilbúnir að sætta sig við.
Hópur okkar í Bjartri framtíð hefur lært það. Við höfum þroskast mikið saman á þessum þremur mánuðum og höfum lært svo ótal mikið. Ekki bara um bæjarfélagið okkar heldur líka um ólíkar áherslur í lífi líks fólks sem býr á sama staðnum. Það er ómetanlegt.
Við höfum lagt okkur fram að vanda til verka, hvað sem við höfum tekið okkur fyrir hendur þá höfum við velt því fyrir okkur út frá þeirri grundvallarhugsun að verk okkar eiga að lýsa því hvernig við höfum unnið þau. Það hefur ekkert alltaf verið einfalt eða augljóst verk, en við höfum glaðst saman þegar lausn þess verkefnis hefur legið fyrir.
Hvort sem var orðalag í stefnumótun, litir í bæklingi, setningaskipan í textalínu, útfærsla á skemmtiatriði eða videogerð. Enda er þetta allt verk okkar. Hópsins. Ekki einstaklingana heldur hópsins.
Það lykilatriði í okkar starfi viljum við flytja áfram í starf bæjarstjórnar Snæfellsbæjar. Á sem einfaldasta og opnasta háttinn sem mögulegt er.
En þá erum við komin að aðalatriði lýðræðishátíðarinnar.
Því til að við fáum möguleika á því að koma með þessa lífssýn okkar inn í stjórnmálin í okkar heittelskaða bæjarfélagi þá þurfum við að fá traust bæjarbúa. Lífssýn Bjartrar framtíðar um sameiningar- og samræðustjórnmál fer einungis inn í bæjarstjórn ef ákveðið hlutfall bæjarbúa leggur traust sitt á þann 14 manna hóp sem mun standa á kjörseðlinum undir bókstafnum Æ.
Í kvöld sofna ég stoltur af mínu fólki. Ég hef kynnst góðu fólki betur undanfarna mánuði og eignast fleiri góða vini. Kynnst eldmóði fólks sem vill taka til hendinni fyrir sig og sína. Sem er frábært. Ég er enn stoltari af því hvernig við höfum hagað okkar kosningabaráttu á uppbyggilegan og jákvæðan hátt. Ég veit að við höfum öll lagt okkur eins mikið fram og hverju okkar er unnt. Um meira getur enginn beðið.
Mig langar til að skrifa þessa bloggfærslu hér og skora á Snæfellsbæinga að veita lífssýn okkar brautargengi í kosningum til sveitarstjórnar laugardaginn 31.maí. Færa til forgangsröðun í átt til meira íbúalýðræðis og aukinnar áherslu á enn öflugri þjónustu en nú er.
Ég lofa metnaðarfullum, áhugasömum og vinnusömum hóp sem mun hlusta meira en hann talar.
Setjum X við Æ þann 31.maí!
Dægurmál | Breytt s.d. kl. 02:18 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)