Samstöðustjórnmál.
5.1.2010 | 21:32
Nýjasta orðið í umræðunni og sannarlega nokkuð sem þarf að skoða allverulega.
Ég var auðvitað í vinnunni minni í dag en hef frá kl. 16 reynt að drekka í mig sem mest af upplýsingum. Jón Baldvin frændi minn auðvitað næst minni skoðun sýnist mér, allavega hvað varðar ákvörðun forsetans sem hefur nú gjörbreytt embættinu og er skyndilega valdamesti einstaklingur þjóðarinnar. Sem er einfaldlega ekki í anda þess sem verið hefur. Hvað sem nú verður.
En mér finnst allt stefna í sömu áttina, stjórnarflokkarnir sjá ekki flísarnar í augum sínum, þrátt fyrir að ljóst sé að staða stjórnarinnar er allt að því vonlaus. Manni sýnist VG loga stafna á milli og augljóst að óánægja er með þau verk sem þarf að vinna, sýnist einfaldlega það verkefni að vera í ríkisstjórn og taka ákvarðanir vera þeim ákaflega erfitt hlutskipti.
Svo hlustaði ég á stjórnarandstöðuna áðan, sérstaklega á Sigmund og Bjarna, því með allri virðingu eru Þráinn og Birgitta í tímabundinni vinnu við Austurvöll og ekki til þess fallin að leysa margt. Heyrðist Þráinn helst vilja nýjar kosningar og út af þingi. Sem er fínt fyrir hann held ég.
Bjarni og Sigmundur féllu í sömu gryfju og stjórnarmeirihlutinn, slæmar fréttir voru blaðamannafundi ríkisstjórnarinnar að kenna og nú yrði bara að leiðrétta það. Kom mér mjög á óvart að heyra Bjarna svo jákvæðan yfir viðbrögðum forsetans, það er í fullkominni andstöðu við vilja hins almenna Sjálfstæðismanns að forsetinn beiti þessu ákvæði. Það finnst mér ein stóra fréttin, samþykki hans á beitingu málskotsréttar.
Svo var klykkt út með auglýsingu um vilja fyrir "Þjóðstjórn". Sú stjórn hlýtur að þýða samstöðustjórn og nú er að sjá hvort slíkur vilji er fyrir hendi.
Ég hef allt frá hruni rætt það að íslensk stjórnmál fengu falleinkunn í hruninu og í kjölfarið, batt miklar vonir við það að skoðaðar yrðu reglur lýðræðisins og kominn væri tími á að grafa einsleitan flokksmálflutning eins og Alþingi Íslendinga hefur verið þjakað af. Núna, í janúar 2010, verður það að verða krafan.
Ísland er örþjóð í alþjóðlegu samhengi. Við verðum að horfa gaumgæfilega í kringum okkur, átta okkur á þeirri stöðu sem hrunið setti okkur í á meðal þjóða og taka alvarlega þau högg sem eru okkur veitt. Í þessum höggum hafa niðurrifsöfl innan samfélagsins vaxið og dafnað, fólk sér vandamál í öllum hornum, kvíði fyrir framtíðinni hefur aldrei verið meiri og störf löggjafarsamkundunnar hafa þar ekki verið undanþegin.
Það áfall sem á okkur dundi í október 2008 er enn að berja á landsmönnum. Í áfalli þarf þjóð að átta sig á að allir skipta máli í viðreisninni og þar verða allir að leggjast á árar. Það þarf að fara að koma að því að þeir 63 einstaklingar sem kosnir voru til að stjórna landinu taki það starf sitt enn ábyrgari og föstum tökum. Þeir eru allir í vinnu hjá Íslandi, þeir eru ekki að vinna fyrir meirihluta eða minnihluta.
Þjóðin þarf að öðlast trú á þeim einstaklingum sem þeir kusu. Þjóðarsálin var að mínu mati fönguð í skarpbeittu áramótaskaupi sem endaði á því að Páll Óskar, sérstakur saksóknari og Eva Joly leiddu þjóðina út úr vandanum.
Þeirra er ekki verkið, það eru 63 einstaklingar sem hafa fengið það verkefni að leiða landið og landsmenn alla í gengum þrengingar þær sem við höfum fengið í hausinn og á næstu dögum þarf að ráðast hvort á þingi er til þess vilji.
Ef slíkt er ekki er einfaldast að kjósa upp á nýtt og þá fyrr en seinna.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.