Toppmúsíkin í ár

Veit að ég er ekki poppskríbent en hef verið músíkfíkill frá æsku, svei mér ef maður hefði bara ekki reynt að verða trommari ef að íþróttirnar hefðu ekki forðað manni frá því, vantaði nokkrar klukkustundir í sólarhringinn og daga í vikuna til að ná að einbeita sér að báðum.

Með hærri aldri og auknum þroska hef ég stöðugt farið meira yfir í það að hlusta á íslenska tónlist, sem mér finnst hafa verið sérstaklega frábær síðustu ár, örugglega með auknum menningaráhuga þjóðarinnar í bland við útrásina sem kennd er við Airwaves.

Svona í lok árs ætla ég því að raða upp topp fimm íslensku lögunum þetta árið.  Aftur, er enginn poppskríbent en bara áhugamaður sem hef gaman af að velta svona upp.  Ég tel niður, en í raun er ég að velja þau fimm sem mest hafa hreyft við mér og röð þeirra gæti verið alls konar.  Það truflar mig töluvert að ég hef lítið náð að hlusta á Hjaltalíndiskinn, en ég ætla bara að muna það almennilega á næsta ári.

Áður en ég byrja upptalninguna þá langar mig þó til að tala um þau lög sem ekki komust inn á listann minn.  Það er augljóst að velja flest lögin af disknum hans Ásgeirs Trausta og rúmlega helminginn af diski Jónasar Sigurðssonar, en lög af þeim detta inn á þennan lista.  Valdimar átti góð lög, mér fannst "Þú ert mín" ákaflega skemmtilegt með hugljúfum texta og það var rétt utan við. Hljómskálinn bjó til skemmtileg kombó, "Ef ég gæti hugsana minna" með Jónasi og Magnúsi Þór Sigmundssyni var flott og "Heimsins stærsta tár" með Birni Jörundi stutt á eftir.  Eðal FH-ingurinn Jón Jónsson gladdi mig með "All, you, I", íslenska útgáfa Eurovision lagsins "Mundu eftir mér" var fínt lag og sem gamall ástmögur Borgarfjarðar eystri hreyfði Magni við mér í laginu "Heima" við texta Ásgríms Inga.

En ekkert þessara laga datt inn á topp fimm hjá mér.  Þar eru...

5.  Your bones (Of monsters and men)

Frábær diskur í alla staði nær að mínu mati hámarki í þessari tregafullu melódíu.  Írsk áhrif einhvers staðar á bakvið, verulega flottur og þéttur grunnur, lalalala-ið í viðlaginu er gott að góla í bílnum eða hvar sem er.  Flottur texti hjá frábærum listamönnum sem munu ná langt.  Var í Ungverjalandi í vetur og þar glumdi tónlist þeirra í útvarpinu.  Svo hefur Helga kennt sumum þeirra, sem er líka mjög skemmtilegt 

4.  Þar sem hjartað slær (Fjallabræður og Sverrir Bergmann)

Hef vissulega "fetish" fyrir Fjallabræðrunum, en hefði seint tippað á það að kjósa lagi með Króksaranum Sverri Bergmann inn á lista.  Þjóðhátíðarlagið 2012 finnst mér afskaplega vel heppnað, nær alveg að hámarka áhrif þess þegar einsöngvari og kór tvinna saman öflugan flutning.  Kannski hjálpar það líka að hafa orðið fyrir nærri því trúarlegri upplifun undir þessu lagi í brúðkaupi í Eyjum í sumar.  En samt, lagið eitt og sér er frábært fyrir minn smekk. 

3.  Glow (Retro Stefson)

Klárlega stuðlag ársins!  Frábær taktur, alls konar rósettur og flúr í músíkinni, uppúr miðbikinu koma inn frábærar raddir og maður einfaldlega iðar undir flutningi þess.  Flott popplög eru ekkert endilega alltaf tónsmíðar sem gefa kost á skrauti í flutningi þeirra en Glow gerir nákvæmlega það.  Diskurinn með Retro er frábær og Glow hápunkturinn. 

2.  Þyrnigerðið (Jónas Sigurðsson)

Jónasi Sig beið erfitt verkefni að fylgja eftir frábærum diski á árinu 2011 og það tókst honum svo sannarlega að mínu mati. "Þar sem himinn ber við haf" er öðruvísi diskur en "Allt er eitthvað", textagerðin enn flottari og mér finnst fleiri hljóðfærum komið að, trommuleikurinn færður aðeins aftar en að sjálfsögðu ráðandi.  Með góð lög er það oft að maður man hvar maður var þegar maður heyrði það fyrst og svoleiðis er það með þetta lag, "Þyrnigerðið".  Ég sat í sófanum mínum og fylgdist með tónleikum á Menningarnótt þegar Jónas taldi inn í það og ég sat í leiðslu allt blessað lagið.  Taldi dagana þangað til allur diskurinn birtist og keypti hann við fyrsta tækifæri og ekki vonbrigði þar.  Á ekkert samleið með því að Jónas er Eiðamaður, en það spillir vissulega ekki!

1.  Dýrð í dauðaþögn (Ásgeir Trausti) 

Ásgeir Trausti take a bow.  Mugison stútaði öllu í fyrra en þessi ungi maður, bróðir Steina gítarleikara í Hjálmum datt úr skýjunum fullskipaður og snerti mig svipað og Mugison náði í fyrra.  Ég hreifst af "Leyndarmál" þegar ég heyrði það í sumar en það var eins og með lag númer tvö hér að ofan, það var tilviljunarkennt áhorf á RÚV sem kynnti mig fyrir lagi sem felldi mig í stafi.  Það var "Dýrð í dauðaþögn". Efast ekkert um að trommufjörið í því hefur kallað á mig en þetta lag er einfaldlega snilld.  Textinn er ekkert annað en frábært ljóð sem er gert magnað af samspili hljóms raddar Ásgeirs Trausta og drynjandi trommuhljóða sem ágerast í laglínunni.

 

Þarna fór það frá mér.  Frábært íslenskt tónlistarár með nýjum perfomerum, en líka "eldri" sem virkilega sýndu á sér flotta hlið á árinu.

Árið 2013 framundan, er handviss um að það verður enn betra!!! 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband