Af Helluhól 27.desember 2012
27.12.2012 | 22:43
Af hólnum mínum góða er hægt að horfa yfir, og kannski ekki úr vegi að velta aðeins bara upp hugrenningum sem upp hafa komið undanfarna daga.
Okkur í fjölskyldunni hefur veist sú blessun að eignast góða vini sem við höfum fengið til okkar í heimsókn nú í jólafríinu. Það er ekki sjálfgefið þegar maður flytur sig um set að eignast vin, hvað þá vini eins og okkur hefur tekist hér.
Hávámál benda okkur á að rækta vináttuna eins mikið og mögulegt er. Þau sannindi eru orðin hundgömul en renna aldrei út á tíma, því við megum aldrei nokkurn tíma telja vináttu sem sjálfsagðan hlut og aldrei búa til staðalímyndir um "rétta" eða "ranga" tegund vináttu.
Vinur er vinur og mikið vill ég þakka vinum mínum fyrir að vera vinir mínir, ég vona að þeir finni það að ég meti þá!
En þrepi ofar vinunum er manns nánasta fjölskylda. Það fylgir því böggull skammrifi þegar maður tekur sig upp og flytur langt frá fjölskyldunni sinni. Maður þroskast og eignast sem betur fer nýja vini, en auðvitað vildi maður komast nær og taka meiri þátt í lífi fólksins síns. Hvort sem er á höfuðborgarsvæðinu, fyrir norðan, á Skaganum eða í Eyjunni fögru. En þá er að laga sig að því og njóta samvistanna þegar þær henda. Í botn.
Í gær fengum við á Helluhól 3 svo jólagjöf sem við lengi höfðum beðið. Thelma og Hekla komu til okkar og fjölskyldan okkar sat öll í kringum jólaborðið í gær. Að vísu stoppaði Thelma stutt og heimsótti vini sína á Snæfellsnesi fram undir morgun eins og fólki á hennar aldri (20 ára og þar í kring) er tamt að gera í jólafríum.
En seinni partinn í dag og í kvöld hefur verið svo indælt að fylgjast með hvernig yngra settið hefur sótt í það eldra og knús, kúr, spjall og Wii-tölvuleikur hafa umleikið systurnar fjórar.
Jólin eru væminn tími og það var einmitt með væmni í hjarta að ég leit yfir sjónvarpssófann áðan og sá þessar gullstangir mínar fjórar, fjögurra, átta, fimmtán og tuttugu ára að ég leyfði mér að hugsa að þarna færi fjársjóðurinn minn. Veit ekki hvort við leyfum okkur oft í alvöru að hugsa svoleiðis og kannski er það bara tilfinninganæmnin í mér og sú staðreynd að við erum "brotin" fjölskylda sem ýtir við því að maður njóti þess að hafa allt fólkið sitt hjá sér.
En ég held samt ekki.
Við horfum of sjaldan á þá sem umkringja okkur með þakklæti í huga og smá væmni. Kjarnafjölskylduna manns eigin, nánustu fjölskylduna, ættingjana og vinina.
Þess vegna kemur af hólnum í kvöld kærleiksknús til ykkar sem viljið fá svoleiðis.
Mér þykir svo vænt um að eiga ykkur!
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.