Fréttir af veikum - og náttúran á Nesinu!

Var að skutla dætrum mínum í bæinn í kvöld.

Heyrði þá fréttir Stöðvar tvö af þeirri ólánsömu stúlku sem lenti í klóm Guðmundar í Byrginu og kom fram opinberlega, fyrst nokkurra.  Sú er lent á kafi í neyslu, móðir hennar var til svara og taldi ráðamenn hafa brugðist, auk þess sem hún var ekki viss um hvort rétt var hjá dóttur sinni að koma fram í sviðsljós fjölmiðlanna.

Hin ólánsama stúlka hefur hingað til ekki viljað leita sér aðstoðar í neyslunni, virðist vera búin að gefast upp.  Fréttamaðurinn spurði hina vansælu móður hvort hún vissi hvað hægt væri að gera.  Aumingjans konan varð að viðurkenna það að í raun væri enginn staður fyrir dóttur sína eins og nú væri komið.  Ekki var sagt út af hverju, en að sjálfsögðu er það af því að Byrgið var eina athvarf langt leiddra fíkla á Íslandi.  Hófst þá umræða um það að stúlkan "hafi fengist" í viðtal á Geðdeild Landspítalans, en þar hafi menn ekki talið ástæðu til innlagnar.

Það fannst mér leitt að heyra að reynt var að láta eins og sú ráðstöfun væri vefengjanleg.  Góður vinur minn átti mjög erfitt í geðinu fyrir nokkrum árum og ég fór og heimsótti hann á umrædda deild.  Þar talaði hann um ófrið sem hlytist af slíkum innlögnum fíkla og alkóhólista sem væru í raun á deildinni til afvötnunar.  Síðan þá hef ég oft hugsað um það hvort þar inn eigi að fara aðrir en þeir fjölmörgu Íslendingar sem eiga við tímabundin geðræn vandamál að stríða.  Ég held ekki.

Málið er það að við verðum, þessi ríka þjóð, að finna svipaða lausn og Byrgið var fyrir þessa okkar veiku meðborgara.  Nú verðum við bara að sjá til þess að fagfólk komi að því starfi, ekki einhverjir sem sæta lagi að misnota veikindin.

En þetta var annan daginn í röð sem svipuð umræða kom upp.  Í gær var talað um "kennslu í glæpum og neyslu" á Stuðlum.  Þar var líka móðir, nú ógæfusams drengs sem framdi ítrekaða glæpi á landinu sl. ár.  Bragi yfirmaður neytendastofu kom svo í kvöld og sagði að við værum meira meðvituð um það en áður hvernig við ættum að "raða saman" veikum einstaklingum.

Ég hef kynnst starfi á Stuðlum.  Mér finnst það yfirleitt frábært!  Ég hef séð mörg börn ná góðum árangri eftir veru þar.  Vissulega hef ég líka séð dæmi um það sem móðirin lýsti.  Barn með geðröskun sem kynnist fíkli og lendir á kafi í slíku rugli sem dæmið í fréttunum sagði frá.  Sjaldnar samt.

En ég vona að Bragi haldi áfram að þróa sig, OG, það sem mikilvægast er.  Að samfélagið fari að gera sér grein fyrir því að það er "þjóðhagslega hagkvæmt" að eyða peningum skattborgarana í það að lina þjáningar fólks í veikindum, eða finna því úrræði sem geta leitt af sér betra líf fyrir viðkomandi.  Við erum of fá, einn maur skiptir máli!

Svona í lokin.  Þvílík fegurð hér undanfarna daga!  Vetrarstillur með sól á daginn og heiðbjartri nóttinni.  Í kvöld ákvað ég að stöðva bílinn á malbikaða kaflanum á Fróðárheiðinni.  Fór aðeins út til að skoða birtuna og himininn.  Fór svo inn í bílinn, slökkti ljósin og keyrði áfram.  Ótrúlega flott!  Sá veginn mjög greinilega en gat notið kyrrðarinnar laus við ljósmengun.  Fór að sjálfsögðu hægt og kveikti ljós um leið og ég sá bílljós aftan við mig.  Frábær stund!  Skil vel þær sagnir að orka búi í Snæfellsjökli.  Hann glóir!!!!!


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Hulda Margrét Traustadóttir

Gott hjá þér Maggi, þörf umræða þetta. Hefði viljað vera á ferðinni þarna á heiðinni um kvöldið. Það er afar fallegt á Snæfellsnesi.

Hulda Margrét Traustadóttir, 28.2.2007 kl. 09:10

2 Smámynd: Fanney Dóra Sigurjónsdóttir

Snæfellsnes eða Hoyocasero? Hmm...

Fanney Dóra Sigurjónsdóttir, 28.2.2007 kl. 19:03

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband