Annáll...skólamálin

Ákvað að slá saman pælingu minni varðandi vinnuna mína og þeirri hefð að setja upp sunnudagsmola.  Þeir voru í jólafríi en koma nú til baka og blandast fyrst aðeins við vinnupælingar.

Þann 11.júní 2014 verður ákveðinn áfangi í mínu lífi, en þann dag eru 20 ár síðan ég útskrifaðist sem kennari úr K.H.Í.  Ég reyndar náði ekki útskriftinni sjálfri þar sem við KS-ingar vorum að spila stórleik á Hofsós-stadium og ég tímdi ekki að sleppa því.  En fékk vin minn til að taka skírteinið og náði partýinu um kvöldið.  Keypti ramma um skírteinið og gaf afa og ömmu það.

Um haustið byrjaði ég svo að kenna.  Í Grunnskóla Siglufjarðar.  Man fyrsta daginn eins og hann hefði gerst í gær.  Svo uppfullur af því að ég vissi allt, gæti allt og kynni allt sem þyrfti.  Hlustaði auðvitað á einhver ráð en hristi hausinn inni í mér þegar ég fékk heilræðin frá mér reyndari.  Rakst svo á það fljótlega að ég hefði átt að hlusta.  En held ég hafi nú náð ágætum tökum.

Tvö ár í Sigló og sami tími á Kjalarnesi.  Þá átta ár í Bakkahverfinu í Breiðholti og í vetur klára ég áttunda veturinn í Snæfellsbæ.

Ég tel mig hafa verið heppinn með samferðafólk í skólastarfi.  Skiptir þá ekki máli hvort ég er að ræða um forráðamenn, nemendur eða samstarfsfólk. Er mjög stoltur af þeim störfum sem ég hef náð að vinna í þessum fjórum skólum hingað til.  Ekki síst þar sem ég var ekki viss um hvort ég ætlaði að verða kennari fyrr en nokkuð djúpt inni í tímabili mínu í Breiðholtsskóla.

Á þessum 20 árum hafa orðið gríðarlegar breytingar á starfi íslenskra grunnskóla.   Færsla grunnskólans frá ríki til sveitarfélaga var að mínu viti gæfuspor þar sem það stytti leið umbjóðenda skólans inn í hann.  Í stað þess að bíða tilskipana frá ráðuneyti voru samfélögin sjálf um allt land gerð ábyrg fyrir skólum sínum og smátt og smátt urðu til áherslur á hverjum stað.  Nokkuð sem er klárlega til bóta og hefur skipað skólum Íslands mörgum hverjum mjög framarlega.

Það getum við vottað sem höfum ferðast um Evrópu til að skoða skóla.   Þeir íslensku eru klárlega í efstu þrepum varðandi aðbúnað nemenda og líka í hugmyndaauðgi og fjölbreytni.  Enda kom mér það ekki á óvart að sjá okkur Íslendinga vinna þann þátt PISA könnunar sem sneri að líðan nemenda.  Mér kom þó meira á óvart að sjá hversu lítið þeim þætti könnunarinnar hefur verið hampað.  En þá það.

Mér finnst þó vert að geta þess að ég þarf í dag sem skólastjóri lítið að velta fyrir mér þeim hlutum sem ég þurfti að gera sem kennari og deildarstjóri forðum.  Unglingadrykkja á skólaböllum t.d. fyrirfinnst ekki lengur.  Ég hef verið í þeim sporum að þurfa að taka á því þegar fyrirmyndarnemendur urðu uppvísir að slíkum gjörðum og þeim afleiðingum sem brottvísun tímabundið í kjölfarið þýddi. Ég minnist þess líka þegar ég og kollegar mínir smíðuðum fjarvistarkerfi til að bregðast við skrópi barna á aldrinum 14 - 16 ára.  Það er ekki vandamál í mínum skóla í dag, langt í frá!

Að auki hafa íslenskir skólar ákveðið að færa sig frá einsleitu mati og horfa til þess að vera skólar án aðgreiningar.  Nokkuð sem er sjálfgefið að mínu mati að allir eigi að stefna að, vissulega með því fjármagni sem það þarfnast.  Ekki bara í samfélögum eins og Snæfellsbæ sem vill að skólinn sinn sé fyrir alla íbúa, heldur almennt.  Vissulega er verkefnið erfitt og krefst aukins mannafla og samhentrar vinnu starfsfólks skólanna í ólíkum starfsstéttum.  En hefur orðið okkar skólum til góðs.  Um það er ég sannfærður!

En þegar upp er staðið, á 20 ára útskriftarafmælinu, get ég þá staðið teinréttur og sagt að allt í grunnskólunum standi framar en það gerði þegar ég tók við sem umsjónarkennari 7.bekkjar á Sigló fallegan stilltan haustdag árið 1994.

Ég er ekki alveg viss um það... 

Það sem er nýjast og þá kannski erfiðast fyrir grunnskólann er hversu ríkur þáttur hann er orðinn í hjarta hvers samfélags.  Sameignarhlutverkið sem er vissulega skiljanlegt og nauðsynlegt hefur líka þýtt að um skólann hefur skapast nýtt form umræðu.  Sem snýst um þjónustustig.  Skólinn er ekki lengur "bara" menntastofnun, heldur ekkert síður uppeldisstofnun.  Sem snýst ekki bara um menntun, heldur líka þjónustu við samfélagið. 

Þessu hlutverki er ég fullkomlega sammála, en ég óttast töluvert hvert umræðan um skólastarf er að leiða okkur.  Í auknum mæli finnst mér fréttaflutningur um grunnskólastarf vera um ósætti (stundum meint) vegna þjónustu skólanna.  Það getur verið býsna erfitt fyrir skólafólk að bregðast við slíkri umræðu, því að sjálfsögðu erum við öll sem þar störfum bundin trúnaði við skjólstæðinga okkar þegar kemur að einstökum málum.  Því miður hefur það stundum verið túlkað á þann hátt að í því felist viðurkenning á einhverri sekt.  En er að sjálfsögðu ekki.

Að sjálfsögðu hendir það í íslenskum skólum að upp koma atvik þar sem verður slíkt ósætti milli aðila skólasamfélagsin.  Annað væri einfaldlega ómannlegt.  En af reynslu minni af u.þ.b. 300 samstarfsmönnum á þessum 20 árum þá leyfi ég mér að fullyrða það að þegar slíkt kemur upp fer einbeiting þeirra sem í skólunum starfa í það að leysa slíkt ósætti og gera sitt til að það hendi ekki aftur.  Geri betur ef svipað atvik kemur upp.  Í engu tilviki sem ég hef orðið var við á þessum tíma hefur annað komið upp.  Því ég held að ég leyfi mér líka að fullyrða að ástæða þess að fólk ræður sig í vinnu í grunnskóla þá sé það af því að það telur sig geta orðið til gagns við uppeldi í samfélaginu og því leitast fólk alltaf eftir því að gera betur. 

Því miður særir þessi umræða.  Skólafólk þekkir oft aðstæður sem lýst er í slíkum fréttum, tengir sína starfsreynslu við og á auðvelt með að setja sig í spor þeirra sem standa "í eldlínunni" hvert sinn.  Ég veit að í einstaka tilvikum hefur það orðið til þess að grunnskólinn hefur misst frábæra starfskrafta. Sem er svo leitt.

Vissulega er þetta hluti íslensks raunveruleika.  Við erum svolítið að festast í því Íslendingar að telja okkur bara vera að "rýna til gagns" með því að benda endalaust á ósætti í samskiptum eða það sem við teljum neikvætt. Þó við kannski getum engin ráð gefið, eða tillögur um það hvernig betur mætti fara.  Því deyja svona fréttir oft út í svakalegu niðurrifi athugasemdakerfanna, eða nýtt mál, jafnvel á öðru sviði tekur athyglina.   En skilur þá oft eftir blæðandi sár hjá þeim sem að málum komu innan viðkomandi skóla.

Þarna hefur komið upp vandi, þar sem hið mikilvæga þjónustuhlutverk skóla í samfélaginu á að leysa vanda annars staðar en "heima hjá sér" og ekki með samstarfi allra aðila sem að máli koma.  

Þar hefur horfið til hins verra frá árinu 1994.  

Á þessu tímabili hef ég komið að ólíkum málum sem varða nemendur og samskipti við heimili.  Þar hafa verið reyndar ólíkar leiðir til að leysa ólík mál.  Sum hafa gengið upp, á meðan önnur hafa bara alls ekki gengið.

Þannig verður alltaf þegar unnið er með manneskjur, við bregðumst ólíkt við og það er engin leið fær sem leysir öll vandamál.  Annars væru engin vandamál til.   

Þegar vel hefur tekist til hefur það undantekningalítið verið þar sem að heimili og skóli náðu saman.  Það virkar mest og best.  Vissulega hafa ekki alltaf fundist leiðir þó allir hafi reynt.  

En þar liggur hundurinn grafinn.  Það er hlutverk þjónustuaðila að gera sitt allra besta, eins og hjá handboltalandsliðinu 1986 kannski aðeins betur ef það er það sem þarf.  

Það er einfaldlega ekki hægt að reikna með því að lausnir finnist á öllu sem upp kemur, en það skiptir máli að halda alltaf áfram að leita lausna.  Minn ótti er að umræðan sem "rýnir til gagns" snúist eilítið núna um að benda fingri í átt til annarra, frekar en að reiða fram opinn lófa og sáttahönd.  Ef það er rétt og "leið hins ásakandi fingurs" verður ráðandi mun hún skaða á þann hátt að draga kjark úr lausnaleitarstarfi íslenskra skóla.  Sem má alls ekki verða.

Þegar ég klára tuttugasta skólaárið mitt sem starfsmaður í vor þá er vert að setjast niður og hugsa sinn þátt í því sem liðið er...um leið og maður horfir fram á veg og ákveður hlutverk sitt á þeirri leið sem verið er að marka.   

Ég sakna þess mjög oft að fá ekki að vera meira "á gólfinu" og skapa með nemendum, því það er frábært starf að fá að kenna íslenskum börnum og unglingum.  Það er mitt hlutverk núna að skapa kennurunum mínum þau starfsskilyrði að þau njóti síns starfs og hafi tækifæri til að gefa sig öll að því að skapa nemendum okkar frábæra framtíð.

Það hlutverk mitt verð ég að taka alvarlega og það mun ráða því hvert ég horfi til framtíðar.  

Því er það von mín að í stað þess að einstaklingar, samfélög og fjölmiðlar verði enn einbeittari en áður í því að taka þátt í umræðu sem vissulega horfir til þess þegar upp kemur ósætti um þjónustu grunnskólans en ekki síður, og helst enn frekar, vera í liðinu sem kemur að því að fjölga mögulegum lausnum og hampa því sem vel er gert.

Þá verðum við enn meira langefst í líðan á meðal nemenda okkar en við vorum í þessari PISA-könnun! 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband