Kosningar til sveitarstjórnar
31.5.2014 | 02:16
Klukkan er 2:00 og dagurinn er 31.maí 2014.
Kosningadagur í Snæfellsbæ. Lýðræðishátíð.
Fyrir um þremur mánuðum kom að máli við mig lítill hópur fólks sem vildi ræða það hvort Björt framtíð væri að velta fyrir sér framboði í bæjarfélaginu.
Mér fannst þá ekki tímabært að pæla í því en við ákváðum að stofna flokksfélag og halda fund um málið, opinn. Þangað mætti töluverður hópur fólks. Þar var ákveðið að búa til stærri opin fund, hugarflæðisfund um málefni Snæfellsbæjar. Á þeim fundi varð Björt framtíð í Snæfellsbæ til.
Allir frambjóðendur flokksins í kosningum hafa komið að slíkum fundum síðan. Öll málefnavinna okkar er sprottin úr þeim ranni.
Aðalatriðið í flokksstarfi stjórnmála eins og Björt framtíð trúir á eru fullkomið traust á lýðræðinu og því að gefa sér tíma til að hugsa mál til langs tíma og gefa sér tíma til að ræða sig niður á lausn sem allir eru tilbúnir að sætta sig við.
Hópur okkar í Bjartri framtíð hefur lært það. Við höfum þroskast mikið saman á þessum þremur mánuðum og höfum lært svo ótal mikið. Ekki bara um bæjarfélagið okkar heldur líka um ólíkar áherslur í lífi líks fólks sem býr á sama staðnum. Það er ómetanlegt.
Við höfum lagt okkur fram að vanda til verka, hvað sem við höfum tekið okkur fyrir hendur þá höfum við velt því fyrir okkur út frá þeirri grundvallarhugsun að verk okkar eiga að lýsa því hvernig við höfum unnið þau. Það hefur ekkert alltaf verið einfalt eða augljóst verk, en við höfum glaðst saman þegar lausn þess verkefnis hefur legið fyrir.
Hvort sem var orðalag í stefnumótun, litir í bæklingi, setningaskipan í textalínu, útfærsla á skemmtiatriði eða videogerð. Enda er þetta allt verk okkar. Hópsins. Ekki einstaklingana heldur hópsins.
Það lykilatriði í okkar starfi viljum við flytja áfram í starf bæjarstjórnar Snæfellsbæjar. Á sem einfaldasta og opnasta háttinn sem mögulegt er.
En þá erum við komin að aðalatriði lýðræðishátíðarinnar.
Því til að við fáum möguleika á því að koma með þessa lífssýn okkar inn í stjórnmálin í okkar heittelskaða bæjarfélagi þá þurfum við að fá traust bæjarbúa. Lífssýn Bjartrar framtíðar um sameiningar- og samræðustjórnmál fer einungis inn í bæjarstjórn ef ákveðið hlutfall bæjarbúa leggur traust sitt á þann 14 manna hóp sem mun standa á kjörseðlinum undir bókstafnum Æ.
Í kvöld sofna ég stoltur af mínu fólki. Ég hef kynnst góðu fólki betur undanfarna mánuði og eignast fleiri góða vini. Kynnst eldmóði fólks sem vill taka til hendinni fyrir sig og sína. Sem er frábært. Ég er enn stoltari af því hvernig við höfum hagað okkar kosningabaráttu á uppbyggilegan og jákvæðan hátt. Ég veit að við höfum öll lagt okkur eins mikið fram og hverju okkar er unnt. Um meira getur enginn beðið.
Mig langar til að skrifa þessa bloggfærslu hér og skora á Snæfellsbæinga að veita lífssýn okkar brautargengi í kosningum til sveitarstjórnar laugardaginn 31.maí. Færa til forgangsröðun í átt til meira íbúalýðræðis og aukinnar áherslu á enn öflugri þjónustu en nú er.
Ég lofa metnaðarfullum, áhugasömum og vinnusömum hóp sem mun hlusta meira en hann talar.
Setjum X við Æ þann 31.maí!
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.