Árið 2014 kvatt - velkomið 2015
1.1.2015 | 14:07
Með hærri aldurstölu gerist það í mínu tilviki allavega að mér finnst skemmtilegt aðeins að velta upp smá pælingu um það ár sem verið var að kveðja og aðeins skoða það sem framundan er.
Þá er gott aðeins að hripa niður svona fyrir sjálfan sig en kannski finnst einhverjum skemmtilegt að fletta aðeins í gegnum þetta ár með mér...here goes!
Vorið og sveitarstjórnarkosningar.
Fljótlega upp úr síðustu áramótum spratt upp umræða um sveitarstjórnarkosningar í Snæfellsbæ. Sú umræða hófst í litlum hópi sem hafði áhuga á að kynna sér Bjarta Framtíð, hvað hún hefði fram að bjóða í málefnastarfi og hugsjónum. Hópurinn stækkaði smátt og smátt og að lokum buðu 14 einstaklingar sig fram til kosninganna 31.maí.
Ég bauð mig ekki fram á listanum en frú Helga Lind steig það skref og þetta mál allt litaði lífið í apríl og maí. Á þeim tíma tók ég að mér að vera kosningastjóri hópsins og vera í samskiptum við BF á landsvísu. Stórt og mikið verkefni sem tók mikinn tíma.
Niðurstaðan varð því miður ekki alveg í takt við þá vinnu og þegar upp var staðið þá fékk hópurinn engan fulltrúa í bæjarstjórnina. Það voru stór vonbrigði, ein þau mestu bara í mínu lífi. Ekki útaf neinum persónutengdu heldur fyrst og fremst því að þetta fólk sem var að bjóða sig fram var metnaðargjarnt fyrir hönd bæjarfélagsins og ég er enn jafn sannfærður og ég var þá að þau hefðu haft góð áhrif á lífið í bænum okkar.
Þegar frá líður þá svosem róast pirringurinn og eftir stendur að hafa fengið að kynnast frábæru fólki og fjölga vinum mínum. Amma mín sagði einhvern tíma að tilgangur lífsins sé að láta gott af sér leiða og gera sem flesta að vinum sínum. Það tókst mjög vel í tengslum við BF starfið og situr því mest eftir, sigrarnir verða bara seinna og þá gleðjumst við enn meir!
Austurland og Bræðslan
Ég strengi ekki áramótaheit öllu venjulega en nákvæmlega á þessum degi fyrir ári síðan fór í gang alvöru umræða um það að gamall draumur um að fara á tónlistarhátíðina Bræðsluna og hitta góða og gamla vini skyldi nú rætast.
Nú lét ég ekki sitja við orðin tóm, heldur stóð við það að semja við hann Arngrím Viðar, sem er auðvitað bara Viddi, um að gömul pæling um aðstoðarkokkamennsku á gistiheimilinu hans skyldi nú tekin skrefinu lengra. Og sá var sko heldur til í það og ævintýrið gat orðið.
Og ævintýri er orðið. Í gegnum tíðina hefur hugurinn stundum reikað austur, enda ófáir dagar ævinnar að baki á því svæði. Borgfirðingar eru undantekningalítið held ég afskaplega gott fólk, en einhvers staðar í bakhnakkanum var ég pínu hræddur um að það að halda svona "hipp og kúl" tónlistarhátíð í þessu litla og fallega þorpi væri kannski eitthvað "óekta" leið borgarbarna til að brosa að ástæðum í bland.
Aldrei hef ég verið lengra frá réttri pælingu og þar. Vikan á Borgarfirði var samfellt bros og mikið gæfuspor að hafa tekið. Skiptir þá engu hvar er stigið niður. Viddi og Þórey tóku gríðarlega vel á móti fjölskyldunni og starfið varð meira en aðstoð, ég fékk bara að vera kokkur og leið dásamlega með það og mikið var gaman að vinna með hressu og duglegu ungu fólki í eldhúsinu. Ekki svo síður að standa vaktina með "nýja besta vininum mínum" honum Tóta sem nú er Borgarstjóri á Skagaströnd og henni Ingunni.
Veðrið var eins dásamlegt og það verður fyrir austan, Sólveig og Sigríður voru í pilsum og stuttbuxum allan tímann og léku sér í fjörum, görðum og ævintýrahúsum. Þær fengu svo að fara á tónlistarhátíðina með okkur og upplifðu það seiðmagnaða ástand sem skapast inni í gamla bræðsluhúsina þetta kvöld.
Að loknu Borgarfjarðarævintýrinu renndum við á æskuslóðir húsfreyjunnar á Neskaupsstað og eyddum þar nokkrum dögum í góðu atlæti Ingibjargar og Arnars. Þar fengum við enn meiri tónlist og fórum á frábæra tónleika með Jónasi Sig.
Þegar ég sat úti í sal og heyrði þann snilling syngja um Eiðavatn þá varð ég næstum fyrir trúarlegri upplifun held ég. Lagið kynnti hann með því að þegar hann samdi ljóðið þá leitaði hann sitjandi úti í Danmörku að stað sem léti sér líða vel, það var vatnið mitt fallega sem rak á hans fjörur og það átti að hans sögn stóran þátt í því að hann tók nýja stefnu í sínu lífi...það situr eftir í mínum huga sem tónlistarupplifun sumarsins að hlusta á stórkostlegan flutning hópsins á þessu kraftmikla og fallega lagi...ég sat úti í sal og tárin runnu niður kynnarnar...ég veit, svoldil drottning stundum!
En á heimleiðinni varð mér ljóst að Austurland á stóran sess í mér, þangað ætla ég að fara oftar og stoppa lengur. Svo ótalmargar ástæður liggja þar að baki, en mest auðvitað það góða fólk sem þar býr!
Prinsinn Aladdín
Í maí kallaði hún Sigríður Birta til fjölskyldufundar. Sem hún á til að gera.
Nú var ástæðan að halda til haga umræðu um það að sá tími kæmi að fengið yrði gæludýr á heimilið, henni fannst sá tími kominn. Frú Helga var eitthvað óvenju meir þennan daginn og úr varð að hún missti það út úr sér að ef að tækist að finna innikött sem ekki færi mikið úr hárum væri hún til.
Við Birtan stukkum til, fórum að leita upplýsinga og fengum það út að Bengalkisur væru það virkar að þær yrðu að vera innikisur og færu ekki mikið úr hárum. Verst var að bara einn aðili ræktar slíkar kisur á Íslandi og svo var alltaf klárt að nota átti tækifærið og fjölga karlpeningi heimilisins svo ýmislegt átti eftir að ganga upp.
En viti menn, allt gekk upp! Hann Óli í Nátthaga átti eitt fress í goti sem enginn var búinn að festa sér og framundan liðu nokkrar vikur þar sem heimilisfólk beið frétta af þroska kisans og fylgdumst með alls konar sprautuveseni og öðru sem þarf að vera í lagi þegar maður fær sér ættbókarkisu.
Á leið okkar austur varð ljóst að hann væri okkar en þó mátti ekki sækja hann fyrr en 31.ágúst. Ég fór og sótti hann, byggt var innibúr fyrir strákinn og hann hefur nú dvalist hjá fjölskyldunni í fjóra mánuði. Það er vissulega oft sem á ýmsu gengur, tveir vasar, einhver glös og annað smálegt hefur brotnað...og jólatré heimilisins er með afar óvenjulega skreytingu þennan daginn. Neðsti þriðjungur algerlega ber en ofskreytt þar ofan við...og jólaseríurnar báðar dánar!
Hann er orðinn heimavanur og róast hægt og rólega sýnist okkur, mikill karakter sem hefur auðgað heimilislífið á margan hátt, sem er jú nákvæmlega það sem maður vill fá með gæludýri!
Meistaranám
Í fyrravor kom upp sú hugmynd að Háskólinn á Bifröst ætlaði sér að setja á fót á ný skólastjórnendalínu í meistaranám sitt í Menningar- og viðburðastjórnun.
Ég ákvað þá þegar að stökkva á þann vagn, lengi langað að bæta við mig námi en langaði inn á ný svið í stað eingöngu kennslu- og uppeldisfræði og eftir því sé ég sko ekki! Vissulega hefur verið mikið álag að vera í fullu námi með starfi og því ætla ég að breyta á nýju ári...en heldur betur halda áfram og gráðan verður kláruð.
Í náminu hef ég kynnst nýrri sýn á svo margt sem ég hef unnið með en líka margt sem gefur kollinum færi á að svífa á nýjar brautir - hvort sem annað fylgir kemur síðar í ljós. En mikið sem það er hollt að fá nýja sýn og ný viðhorf. Ég hef skipt um skoðun um margt - og það er þroskandi - átt frábærar samræður við samnemendur mína og tekið þátt í gefandi hópvinnuverkefnum.
Það verður áfram á þessu ári og lýkur vonandi á næsta ári!
Hvað svo?
Þessi fjögur atriði standa uppúr á árinu 2014.
Að öðru leyti hefur árið gengið fínt, að mestu átaka- og áfallalítið eins og gengur og gerist. Dæturnar fjórar dafna og þroskast...takast á við ný verkefni í lífinu og leyfa mér stundum að taka þátt í því, sem gefur mér mikið.
Í GSNB erum við að vinna að nýjum áherslum í námskrá samfara því að verða alltaf betri í því að bæta námsumhverfi nemenda okkar og dómgæslan með flautuna hefur náð fínni rútínu, þó enn séu hnén að hrjá gamla manninn svolítið. Kop.is vekur mér gleði að mestu, þó maður verði sennilega viðkvæmari fyrir gagnrýni með aldrinum og ferðin til Liverpool í október með honum Babú mínum var frábær.
Framundan er svo árið 2015...blað þess er óútfyllt og gefur pláss fyrir margt. Á fyrsta deginum brýst margt um í kollinum en eins og áður engin áramótaheit en vissulega pælingar sem fara um víðáttur hugarfljótsins.
Og sú er bæði djúp og breið! Með hverju árinu held ég að maður velti meira fyrir sér hvað mann langar til að gera og verða, allavega er það eitthvað sem er í gangi hjá mér. Margt af því sem hefur orðið á vegi mínum á þessu ári hefur dregið fram í mér góðar hliðar sem ég kannski ræktaði ekki nægilega og á sama hátt kynnt fyrir mér nýtt fólk og ný viðfangsefni. Það snertir mig þegar ég horfi til baka og gerir mig enn ákveðnari í því að vera óhræddur við að hugsa hærra, meira og lengra.
Hún amma mín hitti á réttar nótur með setningunum sínum forðum og lífsspekin hennar hvetur mig áfram þessi misserin, það og vængjasláttur fiðrildanna!
Megi árið 2015 vera okkur öllum gjöfulla og betra en öll þau sem á undan því eru gengin!!!
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.