Frábær helgi og hvalaskoðun á Selhólnum!

Frábærlega vel heppnað ættarmót að baki á Sauðanesi um helgina.  Eftir miklar pælingar ákváðum við að keyra norður á föstudeginum, alla leið á nesið góða, og þarmeð fórna knattspyrnumótinu á Blönduósi.  Það var afar leitt, Hekla var spennt, en við urðum að velja á milli.  Ætlum á ÍR-völlinn í júlí í staðinn í boltann með Snæfellsnesi!

Vorum komin um níuleytið á Sauðanes, eftir flotta pizzu í Ólafshúsi á Sauðárkróki og þægilega ferð í frábæru veðri.  Ferðin hófst með heimsókn á sjúkrahúsið á Akranesi þar sem Sigríður Birta var skoðuð og ákveðið að hún fari í kyrtlatöku í haust. Helv****!

En, aftur í gleðina.  Föstudagurinn var bara svona bara að brosa framan í fólkið, spjalla um gamla tíma, hjálpa til við netalögn og kíkja á málverkasýninguna í vitanum.  Ég var bara eins og kóngur, var settur í gamla herbergið mitt ásamt Helgu og Birtu, enda útilegugleðin mín einskorðuð við þægilega gistingu án raka og hitasveiflna.  Hekla var í krakkaherberginu og mikið stuð.

Laugardagurinn var tekinn snemma, byrjuðum að fara í fjósið ásamt Herdísi og snæddum svo staðgóðan morgunverð áður en farið var í prógramm ættarmótsins.  Myndlistarsýningin í vitanum hófst kl. 13:00 - þar stoppuðum við stutt því ákveðið hafði verið að fara í fjallgöngu.  Því miður var þoka niður í miðjar hlíðar þannig að úr varð að við fórum upp að vatnsbóli staðarins, Lúðuvatni og síðan gengið inn í Engidalinn að austanverðu og síðan til baka að vestanverðu, semsagt dalurinn genginn.  Um 20 manna hópur stormaði, mest börn, en Jonni og Herdís svindluðu og komu á hestum! Skamm.....  Jonni reyndi að eggja okkur Tomma yfir Gjárnar, en ég harðneitaði enda leiðin ekki falleg eða skemmtileg, hvað þá í svarta þoku.  Svona er maður þroskaður, í gamla daga hefði ég látið eggja mig áfram.

Að göngu lokinni var stormað í sund á Sólgörðum í Fljótunum.  Indæl laug, vel við haldið með potti og fínerí.  Alls konar stuð, ég varð í þriðja sæti í kafsundskeppninni á eftir frændum mínum og bræðrunum Manga og Jonna.  Ég tel mig þó hafa unnið, því innöndunartæki þeirra (nefin) og hárvöxtur (afar lítill) gera þá ólöglega í almennum flokki kafsunds!!!!!

Svo var heim á Sauðanes þar sem hátíðardagskráin hófst.  Vilborg, Magga, Jonni og mamma tóku til máls, Jón Bjarki las upp lestur og ég grillaði.  Fékk að vera aðalkokkur, sem ég hef afar gaman af.  Stóð við grillið í um 2 tíma og grillaði ofan í 48 manneskjur, hina ýmsu rétti.  Svo var farið í fótboltaleik eins og vani var á Sauðanesi.  Ég var kosinn fyrstur, en því miður stóð ég ekki undir því, er enn helaumur í lærinu og fór lítið.  Kristján Þór frændi minn var kosinn maður leiksins, sem var sannarlega uppreisn æru, þar sem hann var kosinn síðastur.  Til hamingju Kristján.

Svo var það partýið.  Það skiptist í eldhús- og garðpartý.  Ég valdi garðpartýið sem var mjög skemmtilegt.  Eurovision- og Eightieslög sungin af miklu krafti, í bland við skemmtilegt spjall.  Ég fór að sofa um tvö en húsfrúin mín ákvað að sitja áfram, enda í mínum verkahring að keyra heim.

Sem við svo gerðum á sunnudaginn.  Lögðum í hann um hádegið, konan var nú reyndar hálflasin fram að sjoppustoppi í Varmahlíð, en lagaðist mjög er á heimferð leið.

Þegar við komum heim vorum við snögg að hafa okkur til í næsta vers.  Heimboð til Guggu þjóðgarðsvarðar og Péturs manns hennar, sem jafnframt er aðstoðarskólastjóri FSN.  Frábær var þar maturinn og félagsskapurinn sem auk þeirra og okkar var góðvinur minn Björn Árnason og Guðrún kona hans.

Bjössi vinur minn og fyrrum samstarfsmaður í Breiðholtsskóla leit vel út, reffilegur og hress eins og von hans er og vísa.  Hreint dáist að hugrekki hans og vonast til að sjá hann í svo fínu formi sem lengst.  Indæl kvöldstund og góður endir á frábærri helgi.

En áður en helgin kom og þegar henni lauk var indæll veruleikinn hér svo augljós.  Á miðnætti á fimmtudag bað ég konuna (kærustuna) mína um að drekka með mér hvítvínsglas í kvöldsólinni.  Við settumst niður fyrir framan húsið okkar á Selhólnum.  Þá heyrði ég lágværa smelli og fór að spá í hvaðan þeir kæmu.  Þegar við fórum að skoða málið var höfrungavaða rétt utan við Hellissand, og þar virtist fara fram inntökupróf í skemmtigarða og bíómyndir.  Einn höfrungurinn sást minnst 10 sinnum stökkva allur upp af hafsfletinum og smellirnir voru þegar hann lenti.  Auk þess sáust fleiri greinilega, sem og stærri dýr.  Guðdómleg sjón, við vorum hreint ráðvillt - með frosið bros.

Í morgun fórum við Sigríður Birta svo fyrst í gang.  Fórum keyrandi í leikskólann.  Þegar við vorum að beygja niður hólinn sást greinilegur hvalsblástur rétt utan við Keflavíkina okkar og stuttu seinna hvalsbak og svo loks allur sporðurinn.

Ég dreif mig til baka eftir að hafa skutlað SBM og dró Heklu með mér að gömlu Svörtuloftum þar sem við fylgdumst með blæstri og svamli stórra hvala.

Það er alveg ótrúleg nálægð við náttúruna hér.  Það er erfitt að verða ekki ástfanginn af henni, enda ekki nokkur ástæða til að berjast á móti því.

Takk fyrir sýninguna hvalir og takk fyrir frábæra helgi kæru ættingjar!!!!  Næsta ættarmót eftir 2 ár í Trékyllisvík??????


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

takk fyrir samveruna um helgina og ég er geðveikt til í annað ættarmót. ég set þig hér með í nefndina!

bæ ðe vei: íbv rúlar!

Drífa Þöll (IP-tala skráð) 26.6.2007 kl. 00:28

2 identicon

Það var ÓGEÐSLEGA gaman. Gaman að "finna" frænda sem er jafnmikið Eurovision fan eins og ég

 "Nobody becomes a bishop unless he is beaten" var samt setning helgarinnar..VÁ hvað ég hló mikið!!

Spurning að skella sér á ball með "The Beaten Bishops" hahahaha..

Ef það er annað ættarmót í deiglunni þá er ég sko meira en til. Bara að hóa í mig!!

Stella sem er ekki í olvoli!!

Stella (IP-tala skráð) 26.6.2007 kl. 13:18

3 Smámynd: Vilborg Traustadóttir

Ég myndi segja á sama tíma að ári.  Á Djúpuvík, Trékyllisvík eða á Sauðanesi.  Alltaf gaman að koma á "Nesið"......... Ég er ekki viss um að ég verði eins dugleg að baka og Herdís (ef þetta verður á Djúpuvík)...

Vilborg Traustadóttir, 26.6.2007 kl. 14:11

4 identicon

Halló öll.

Maggi, þetta var frábær helgi og ekki nokkur snuðra á þræðinum, þvílíkt heppin með veður og ALLT, sunnudagurinn sérstakur - svo hlýtt að fólk bara liðaðist um bakkana eftir að skoða vitasýninguna.

Engin að flýta sér, því veðrið var einstakt logn og 18 gr. hiti. Ekki spurning um að endurtaka þetta hvar sem er og hvenær sem er er ég til en tel að "hrátt" umhverfi henti þessari fjölskyldu best Sauðanes eða Strandir ???' alvega sama fyrir okkur.

En uppúr stendur, samveran við mömmu og pabba þessa helgi og hversu glöð þau voru. Mamma sagði við mig í gær, Magga þetta var ÆÐISLEGT !!

Það voru allir svo samtaka um að hafa þetta skemmtilegt og þökk sé ykkur öllum fyrir það. Flott fjölskylda og ógleymanleg samvera sem við búum að svo lengi sem við lifum. Takk öll sömul fyrir hversu vel þetta tókst. Ég ætla að hætta núna því að mínar tilfinnigar eru meirar. Enda komin á þann aldur !!! Hmmm.... En sýnir manni að, þó við hittumst ekki svo oft, er alltaf eins og við höfum hitst í gær. Ástarþakkir fyrir helgina, ættingjar mínir sem voru með okkur á nesinu góða um helgina og "grillari góður" það sýnir sig að þegar allir hjálpast að ganga hlutirninr upp.

Ég fékk skrítna tómleikatilfinningu í morgun þegar ég kvaddi Sollu systir gegn um síma þar sem hún er á förum til Portugal í dag.........en vonandi kemur hún aftur og umfram allt tekst henni að koma sínum málum á hreint....Love and peace ykkar Magga.

Magga "móða" (IP-tala skráð) 26.6.2007 kl. 14:36

5 Smámynd: Vilborg Traustadóttir

He he já sami tómleiki hér, en líka léttir.  Nú er boltinn farinn að rúlla hjá Sollu og hún getur klárað að hnýta lausa enda ytra. Þegar hún kom til mömmu og pabba hvar ég var til að kveðja ómaði lagið "ég er komi heim" með Óðni Valdimarssyni í útvarpinu.  Ég vakti athygli viðstaddra á því og fékk að sjálfsögðu hin rómuðu "krókódílatár" okkar Sauðnesinga í augun!!!! 

Vilborg Traustadóttir, 26.6.2007 kl. 19:04

6 identicon

Krókódílatár, hver kannast ekki við þau í okkar ætt. En það er jákvætt að geta sýnt tilfinningar sínar - ekki satt ??? Hefur allavega ekki hamlað okkur mjög mikið :)

Magga "móða" (IP-tala skráð) 27.6.2007 kl. 16:13

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband