Aðeins af áfengi.
27.10.2007 | 11:09
Mikið búinn að vera að velta mér upp úr þessu ágæta frumvarpi þar sem á að gefa möguleika á að selja léttvín og bjór í matvöruverslunum.
Ég verð að viðurkenna það að ég sé ekki þörfina á því. Viðurkenni alveg að fyrir 10 árum fannst mér kannski annað, því þá voru mun færri Vínbúðir, alls ekki á flestum þéttbýlisstöðum, lokuðu snemma þar sem þær þó voru og raðir um helgar á þeim stutta opnunartíma sem þá var.
Núna bara er það ekki svona. Ef ég vill kaupa rauðvínið með steikinni minni vel ég mér bara það að fara í Vínbúðina í sömu ferð, skil bara alls ekki hvað ég græði á því að labba í Hagkaup og sjá þar Euroshopper rauðvín. Úrval og gæði Vínbúðaverslana eru nú virkilega ásættanleg og við sem erum skipulögð förum annað slagið í Vínbúðina og eigum bara alltaf rauðvín og hvítvín í standinum.
Ég er alveg sannfærður um að léttvín og bjór inn í búðir sem eru líka að selja ýmsan annan varning mun leiða af sér aukið aðgengi þeirra sem ekki hafa lögaldur og auka verulega líkur þess að þeir nái að komast yfir áfengi. Auðvitað veit ég að það gengur hreint ágætlega núna!
Við verðum bara að átta okkur á því að við erum ekki samanburðarhæf við aðrar þjóðir sem leyfa nú sölu þessara afurða í matvöruverslunum. Það eru um 20 ár síðan bjór var leyfður á Íslandi og ég myndi segja 15 ár síðan léttvín urðu daglegt brauð. En neysluvenjur okkar eru enn frábrugðnar öðrum. Matarboð á Íslandi inniheldur mun fleiri rauðvínsflöskur og við höfum því miður ekki minnkað neyslu brenndra vína nægilega.
Ég hef bara verulegar áhyggjur af því að rauðvín í t.d. Hagkaup muni einfaldlega þýða það að fleiri flöskur verði keyptar í hvert sinn sem steikina á að bragða! Svo verður aðhald þessara verslana að verða gríðarlegt. Dóttir mín var að vinna í verslun hjá þekktu fyrirtæki fyrir 2 árum, þá 13 ára. Eitt kvöldið þegar ég kom til hennar var hún ein að vinna, stjórinn "skrapp frá". Þá kom inn unglingur og bað um sígarettur. Dóttir mín 13, spurði hvort viðkomandi væri orðinn 16!
Sjáum við það gerast líka, t.d. í jólaörtröðinni í Hagkaup þegar unglingar streyma í tarnavinnuna?
Finnst okkur í dag í alvörunni vera lítið aðgengi að víni og/eða það dýrt í samræmi við aðra matvöru? Eigum við ekki að reyna að lækka kjúklinginn, fiskinn og ketið áður en við lækkum vínið, sem er að verða komið í samanburðarhæft verð við Norðurlönd og Bretland í búðum, þó annað sé uppi á teningnum á börum og skemmtistöðum.
Háttvirtur forseti, ég segi NEI.
Athugasemdir
Sæll Magnús.
Ég vil þakka þér fyrir þenna fína pistil til styrktar því að hætta þessari endemis vitleysu að koma víninu og bjórnum inn í matvöruverslanir.
Þú komst einmitt með þennan ,,vinkil" sem ég hef áður bent á og það er að við höfum í dag ekkert mannafl til að vinna ákveðin störf. S.s. ekki það mannafl sem ætti að vera að vinna þau og þar með talið eru þessi störf á kössum verslana. Ég var í Bónus um daginn og mér leið eins og í upptöku á Spaugstofunni því svo ungt fannst mér afgreiðslufólkið.
Ég hef rak veitingahús í mörg ár og þar var oft erfitt að manna ,,skútuna". Eitt skiptið vorum við kærð eða 4 barþjónar. Málið snérist um að lögreglan hafði komið sér fyrir á staðnum í borgaralegum fötum og horfði á mína þjóna afgreiða á barnum og svo gengu þeir að kúnnunum og báðu um skilríki. Úr þessu kom að 2 stelpur voru 18 ára og 2 strákar 18 og 19 ára. Það sem gerðist svo var að barþjónunum var send kæra með dómsátt, 12 þúsund pr. mann. Ég sem eigandi fékk enga umsögn en ég fór og talaði við lögregluna. Þeim fannst þetta leiðinlegt og viðurkenndu að lögin væru mjög óljós í þessu sambandi. Í lögunum stendur að þjónninn er EKKI skyldugur að spyrja um skilríki heldur einungis ef hann HELDUR eða telur ástæðu til. Öll þessi ungmenni sem fengu afgreiddan bjór voru mjög fullorðnisleg og engin ástæða því að spyrja um skilríki en við áttum ekki um annað að velja en að borga sektina þrátt fyrir að fyrir dómi er ég viss um að ég hefði unnið málið fyrir hönd minna starfsmanna.
Niðurstaðan er s.s. þegar ungmenni koma með vínið/bjórinn á kassann þá þurfa ungmennin sem eru að afgreiða ekki að byðja um skilríki, sjái þau, að þeirra mati, enga ástæðu til þess NEMA að ef matvöruverslunin setji regur um að allir verði spurðir en þá verður það eins og í USA að ALLIR verða spurðir sama hver þú ert og hvernig þú lítur út, það ,,koverar málið".
Ég botna bara ekkert í þessum alþingismönnum sem standa fyrir þessu bulli á sama tíma og svo mörg mjög mikilvæg mál liggja fyrir í okkar samfélagi sem þurfa úrlausnar til handa landi og þjóð.
Mbk
Sigurjón Sigurðsson
Sigurjón Sigurðsson, 27.10.2007 kl. 11:55
Já!
Ekki minnka þessar upplýsingar neikvæðni mína í garð þessa frumvarps, takk fyrir þær Sigurjón.
Magnús Þór Jónsson, 27.10.2007 kl. 16:02
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.