Af Barnaverndarmálum.

Hlustaði á Kastljósið í kvöld og heyrði sorglega sögu ættingja fíkils sem í raun tók sitt eigið líf frá sonum sínum.

Í frásögninni kom sterkt viðhorf fram frá ættingjanum að þagmælska fagaðila og alltof sterkur foreldraréttur hafi verið stóri harmleikurinn í þessu máli.

Þekki til svona mála í gegnum starf mitt og oft og mörgum sinnum horft upp á vanmátt þeirra sem fylgjast með börnum sem búa við erfiðar aðstæður.  Okkar litla íslenska samfélag á mjög erfitt með að valda því erfiða hlutverki sem barnaverndarnefndir eiga að sinna.  Úrræðin eru sárafá.  Og fækkar.

Ekki er langt síðan aðalfréttin var að loka ætti þremur áfangaheimilum fyrir börn og unglinga.  Hryllilegar sögur frá Breiðuvík og öðrum áfangaheimilum á vafalítið þátt í því að fáir bera hönd fyrir höfuð slíkra úrræða.  En vandinn hverfur ekki með lokunum slíkra stofnana.  Drengir þessarar þá fárveiku, og nú látnu stúlku, eru bara tveir margra barna sem búa við afar erfiðar aðstæður í landinu okkar.

Barnaverndarnefndir eru ekki í dag eftirlitsnefndir sem svipta forræði og senda börn frá foreldrum heldur fyrst og fremst aðilar sem ætlað er að styðja fjölskyldur í vanda að vinna á honum sjálfar.  Af því að samfélag okkar vildi það og breytti þessum áherslum.

Að sama skapi hafa fagaðilar fengið þær skipanir að sýna skjólstæðingum sínum trúnað, fullan, í raun án tillits til stöðu þeirra eða veikinda.

Ég held að það sé varhugaverð stefna að loka stofnunum í samfélaginu sem aðstoða þau okkar sem í mestum vanda eiga.  Sorglegar sögur skjólstæðinga Byrgisins sem margir hverjir eru nú hústökufólk í Reykjavík mega ekki verða sögur barna og unglinga sem eiga ekki hentugan samastað þegar áfangaheimilum er lokað.

Krafa um fagleg vinnubrögð þegar okkar veikustu meðborgarar eiga í hlut er það sem á að heyrast og fjármagn til slíkra úrræða þarf að verða þannig að hæfileikafólk taki að sér störf í þeirra þágu.

Við eigum ekki að gagnrýna einstaklingana sem vinna að slíkum málum, heldur rýna í heildarmyndina og skoða hvaða úrræði nýtast best.

Annars mun að mínu mati sorgarsögum eins og við heyrðum í Kastljósi í kvöld fjölga........


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband