Pæling í vetrarfríi
30.10.2008 | 11:52
Kominn í langþráð vetrarfrí eftir mikinn eril síðustu daga. Frábær þemavika að baki, þar sem krakkar og starfsfólk fór á kostum í vinnu um heimabyggðina okkar í Snæfellsbæ. Flott sýning á verkunum í gær og ljóst að mikið nám fór fram þessa daga!
Auðvitað fer einhver hluti vetrarfrísins nú í að skoða almennilega sína stöðu í ljósi atburða undanfarinna vikna. Skoða erlendu lánin á bílunum og verðtryggingar og vaxtaþátt heimilisins. Ekki það að við hér þurfum að óttast ennþá að afrif okkar verði "afgerandi slæm", en á síðustu dögum hefur umburðarlyndi mitt fyrir því að lánin mín hækka farið þverrandi!
Fyrstu viðbrögðin voru "sjúkk ég á ekki hlutabréf", "sjúkk að sparnaðurinn er inni á bók" og "sjúkk að viðbótarlífeyrissparnaðurinn er ekki alveg farinn". Þegar maður heyrði hræðilegar sögur af afdrifum vina og ættingja fannst manni maður ekki geta verið vanþakklátur fyrir sína stöðu.
En staðreyndin er sú að maður er að tapa tugum þúsunda á mánuði. Þó maður hafi efni á því þýðir það auðvitað að minni möguleikar verða á svo mörgu sem mann langaði að gera. Fyrir sig, en auðvitað meira og mest fyrir börnin sín og fjölskyldulífið. Ég verð reiður þegar ég heyri börn tala um "kreppujól". Er til óhuggulegra orð en það!? Getum við í alvöru lagt það á börn að þau eigi fyrir höndum vond jól???? EKKI SÉNS! Ég trúi ekki öðru en að við verðum öll hrein og fín, borðum góðan met, gefum jólagjafir og njótum þess að vera saman þessa jólahátíð!
Það hefur aldrei þurft að gefa jólagjafir uppá tugi og hundruðir þúsunda til að láta hátíðina heppnast. Það að við förum í "afsakana" og "verða bara betri jól seinna" gír skulum við ekki láta henda. Brosum út í bæði, segjum einfaldlega satt, jólin verða frábær. Svo skulum við fara yfir það hvernig þau verða frábær. Bætum upp ef við þurfum minna verðgildi jólagjafa með því að fara betur yfir samveru fjölskyldunnar og látum alla njóta sín!
Kreppujól er orð sem á að banna!!!
En í dag er ég reiður útrásarræningjunum, dettur ekki í hug að sverta nafn víkinga með því að tengja þá þessum jólasveinum sem reyna að hlaupast undan ábyrgð. Miðað við viðtöl eigenda og bankastjóra Gamla Landsbankans er ljóst að bankinn hefur verið stjórnlaus lengstum. Langar því að beina þessari spurningu áfram, kannski berst það þeim, eða einhverjum sem að getur svarað.
Hver ber ábyrgð í þessum dæmum.
Par á þrítugsaldri fór í útibú Landsbankans fimmtudaginn fyrir hrun hans. Talaði við þjónustufulltrúa um að fá að taka 5 milljónir út af peningaverðbréfum og leggja inn á reikning. Eftir mikið þrátafl ákváðu þau að gera það ekki, því fulltrúinn lofaði þeim að peningarnir voru 100% varðir. Daginn eftir var þó annað þeirra ekki sannfært og ákvað að fara aftur og fá þetta skriflegt frá þjónustufulltrúanum. Hann var nú tregur til, en þegar sparifjáreigandinn tjáði honum að þá tæki hann peningana út, skrifaði sá út Wordskjal, ekki með blaðhaus bankans þar sem hann setti inn setninguna "í eðlilegu árferði". Næsta mánudag, eftir hrun fór parið til að fullvissa sig um að þau væru í góðum málum. Þá sat þjónustufulltrúinn, náhvítur, og sagði þeim að algerlega óvíst væri hvort þau nokkurn tíma fengju eina krónu! Bréfið væri bara "viljayfirlýsing", enda "óeðlilegt árferði".
Eigandi fyrirtækis hafði verið með stórar upphæðir inni á peningamarkaðsreikningum í um ár. Í lok ágúst hófst umræða milli hans og Landsbankans þar sem hann óskaði eftir að peningarnir yrðu fluttir. Þar sem upphæðin var stór þurfti að eiga við stóru stjórana. Þeir voru í fríum til skiptis fram í miðjan september. Þá var hann kallaður ítrekað á fundi þar sem fyrst var verið að reyna að tala um fyrir honum, þá að flytja hluta upphæðarinnar, en svo var farið að tala um að "nokkra daga þyrfti til að klára málið". Fimmtudaginn fyrir hrun var þessi maður að fara erlendis. Eftir rosalega reiði hans í símann frá Leifsstöð kl. 10 var honum lofað að upphæðin yrði millifærð "á næstu 5 mínútum". Eftir það svaraði honum enginn af þeim stóru, því þeir voru "uppteknir á fundi". Við lokun á föstudegi var upphæðin enn á reikningnum. Á mánudaginn var allt fé fyrirtækisins lokað inni og hefur verið til dagsins í dag.
Félagi minn sem vinnur í fjármálafyrirtæki fékk símtal í mars frá félaga sínum sem er útibússtjóri í Landsbankaútibúi. Var að bjóða honum vinnu. Hluti af starfskjörum hans sem "yfirþjónustufulltrúa" fólst í þóknun fyrir hvern kúnna hans deild fengi til að færa sparnað sinn inn á peningamarkaðsreikninga. Hann fór ekki í launaviðtal en í samtalinu var talað um hlutfall af millifærðri upphæð sem bónus, en þó aldrei undir "sex stafa tölu". Félagi minn afþakkaði sem betur fer, því umrædd deild hefur verið lögð niður í þeirri mynd sem hún var, en hann er í góðri vinnu hjá litlu, öflugu fjármálafyrirtæki.
Ég ætla ekki að mæra Davíð Oddsson, en það þarf að svara því til hver ber ábyrgð á dæmum eins og þessum þremur. Hann ber ekki ábyrgð á framkomu starfsfólks bankans, þrátt fyrir allt. Þessi dæmi eru klárlega ekki einsdæmi og örugglega miklu verri til, en það er SMÁNARLEG UMRÆÐA fyrrum eigenda og stjórnenda þessara ræningjafyrirtækja að benda á einhverja aðra sem sökudólga í þessum málum öllum.
Íslensk bankastarfsemi var sennilega svakalegasta svikamylla heimsfjármálasögunnar og stóru sökudólgana þar þarf að finna og útiloka frá venjulegu fólki. Auðvitað þarf að fara yfir stjórnvöldin og eftirlitskerfið en ég er búinn að fá ógeð á drottningarviðtölum við þessa menn þar sem þeir eru bara með hroka í garð þeirra sem stoppuðu vitleysuna!!! Það að fólk eins og Agnes Bragadóttir og Kristinn Hrafnsson taki slík viðtöl í rólegheitum og kyngi útúrsnúningi þeirra allra er þeim til MIKILLAR MINNKUNAR.
En annars er ég glaður með að vera í vetrarfríi, sem að stærstum hluta mun felast í slökun að Selhól 5. Alltaf gott kaffi í boði fyrir gesti, gangandi eða á öðrum farartækjum!
Athugasemdir
Njótið dagana Maggi minn. Er svo sammála þér þegar ég les þessi skrif þín.
Sem betur fer var ég ekki í þesskonar sölustörfum í vinnu minni í bankanum. En það hryggir mig mjög að heyra allar þessar sögur af þeim sem fóru illa útúr málunum hjá bönkunum. Afar sorglegt.
En vonandi komumst við einhverntíma til botns í því hvernig stóð á öllum þessum ósköpum.
Allt gott af mér - er að fara út að ganga í góða veðrinu og er byrjuð að leita mér að annari vinnu. Engin uppgjöf hér. Knús til ykkar
Hulda Margrét Traustadóttir, 30.10.2008 kl. 13:11
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.