Að loknum samræmdum prófum
23.6.2009 | 10:42
Samræmd próf í 10.bekk grunnskóla á Íslandi voru eins og allir vita lögð niður á síðasta skólaári.
Það kom í kjölfar nýrra laga um grunnskóla sem staðfest voru í júní 2008, en því miður lentu reglugerðir þeirra laga í bankahruninu og enn í dag er ekki hægt að segja að endanleg útfærsla alls sem á að fylgja sé komin til framkvæmda.
Þar á meðal var lítil stýring á flutningi nemenda úr grunnskólum til framhaldsskóla.
Sem varð auðvitað til þess að loksins fékk hver og einn grunnskóli að ráða sinni útskrift og laga hana að þeirri vinnu sem að unnin hefur verið af nemendum þau tíu ár sem þau stunda skólann sinn. Ekki bara út frá þriggja klukkutíma punktmælingu einn maídag!
Ég er algerlega sannfærður um að þegar tímar líða verður þessa áfanga minnst sem eins þess besta sem náðst hefur í skólamálum. Ég veit ekki til þess að framhaldsskólarnir þurfi að þola pressu frá samræmdum prófum og hafa þess vegna náð að þróa ólíkar leiðir til að koma til móts við ólíka einstaklinga. Nokkuð sem nú mun takast með tímanum í grunnskólunum, enn frekar en nú er.
Það að halda það að nokkur grunnskóli falsi vinnueinkunnir nemenda sinna er svo hróplegt bull að mér finnst svakalegt að hægt sé að setja fram slíka fullyrðingu nafnlaust á www.mbl.is!!!
Það að skóli meti nemanda til einkunarinnar 9,0 til dæmis segir framhaldsskóla meira um vinnulag þess nemanda en talan 9,0 á samræmdu prófi gaf til kynna. Prófseinkunnin er bara mæling á hæfileikum, en sýnir ekki vinnumóral eða metnað nemandans.
Það held ég að við munum sjá þegar til lengri tíma er litið, framhaldsskólarnir munu uppgötva það að tölurnar úr grunnskólanum eru blanda hæfileika og vinnuframlags, sem mun leiða til sanngjarnari niðurröðunar í framhaldsskóla, bæði hvaða skóla og á hvaða brautir.
Okkar reynsla á Snæfellsnesi var góð í vor, við vorum í góðum samskiptum við framhaldsskólann hér og settum fram okkar námsmat á skýran og aðgengilegan hátt. FSN áttaði sig á okkar kröfum, við vissum þeirra óskir um upplýsingar og ég handviss um að það skilar betri árangri en þegar samræmdu prófin dæmdu allt og alla, einstaklingana og skólana.
Svo er Menntaskólinn við Sund hörkufínn skóli. Eins og allir framhaldsskólar á Íslandi held ég. Man ekki eftir því að heyra háskólana hér tala um annað...
Foreldrar bálreiðir | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Athugasemdir
Gæti ekki verið meira sammála þér. Það er vinna vetrarins, iðni og hæfileikar sem segja til um hæfileika nemandans.
Ólöf de Bont, 23.6.2009 kl. 10:57
Það er ekki eins og skólar hafi núna fyrst verið að taka upp lokapróf, hvaða rugl er þetta? Það hafa alltaf verið vorpróf í grunnskólunum samhliða samrændu prófunum.
Að grunnskólar skuli vera hræddir við að nemendur þeirra séu bornir saman við aðra skóla með stöðluðu prófi er náttúrulega bara fáránlegt. Ég get allavega sagt fyrir mína parta að eina skiptið sem ég lærði eitthvað að viti í grunnskóla var fyrir þessi samrændu próf, enda þurfti þá, eins og núna, að vera með háar einkunnir til að komast í þann skóla sem ég vildi fara í. Ég reyndar var á þeim tíma með MS sem varaskóla þannig að ég skil ekki hvað þessi stelpa er að væla (sérstaklega fyrst hún var til í að fara í MR), þetta er góður skóli og með mjög skemmtilegt félagslíf.
Bottom line... Þessi próf voru sett á til að byrja með til að meta skólana innbyrðis útaf því að kennslan getur augljóslega ekki verið eins góð í þeim öllum sama hvernig námsskráin er. Þú hlýtur nú líka að vera sammála því að það er ekki alveg það sama að reyna að komast inní skóla útá landi eins og FSN og vinsælustu skólana á höfuðborgarsvæðinu, ekki útaf því að það sé eitthvað lakari skóli, heldur er aðsóknin bara svo mikið meiri í suma þessara skóla heldur en þeir geta tekið við.
Arnar Þór (IP-tala skráð) 23.6.2009 kl. 12:23
Takk fyrir athugasemdirnar.
Arnar Þór, þessi próf eru fyrir löngu orðin allt annað en áður og algerlega marklaust að taka þau miðað við það inntak sem nú er lögð áhersla á í grunnskólanum.
Skóli sem skilgreinir sig sem "skóli fyrir alla" verður að koma til móts við hvern einstakling og því hróplegt ósamræmi í því að svo sé sett á reglustika búin til af próffræðingum sem má bara standa saman af krossaspurningum og eyðufyllingum sem talva leiðréttir! Og eftir henni sé nemandinn dæmdur!
Langt síðan hætt var að bera saman skóla, enda margsannað að einfaldasta verk í heimi var að skekkja þá mynd verulega, sumir skólar gengu svo langt að væla slaka nemendur til að sækja um undanþágur og grobbuðu sig svo!!!
Grunnskóla þarf ekkert að dæma, heldur snýst þetta um að koma upplýsingum milli skólastiga og samræmd prófaútkoma frá miðstýrðu valdi segir minna en upplýsingar grunnskóla sem hefur hýst nemandann í tíu ár!!!
Leitt að heyra að þú lærðir bara eitt ár (eða kannski bara árhluta) í grunnskólanum þínum, en það segir kannski betur en margt annað hversu súr raunveruleiki grunnskólans var.
Þetta er löngu breytt sem betur fer Arnar, nú læra börn stöðugt, frá 1. bekk og upp í 10. og oft um eitthvað sem ekki er bara lært af bókum.
Aðsóknin í alla skóla landsins í dag er meiri en þeir ráða við. Líka í FSN sem er nú með biðlista í fyrsta sinn. Það kemur til útaf þeirri breytingu sem varð í fyrra þegar framhaldsskólar voru skyldaðir til að taka á móti öllum nemendum yngri en 18 ára! Semsagt, fyrstu tvö ár framhaldsskólans nú orðin skylda.
Þannig að í raun má segja að hvert nei sé á mörkum þess lagalega.
Svo verða skólar oft "góðir" skólar af því að "góðir" nemendur eru þeir einu sem fá inngöngu.
Þú tekur eftir því að ég set þetta í gæsalappir. Það er m.a. í ljósi þess ástands sem nú ríkir á Íslandi og ég tel að mörgu leyti megi rekja til "góðra" einstaklinga úr "góðum" skólum.
Því svona hólfun í gott og slæmt er akkúrat það vitlausasta sem hægt er að detta í. Hver einstaklingur á í dag rétt á að fá skólagöngu við sitt hæfi og verða metinn sérstaklega.
Því það eru til endalausar útgáfur af "góðu" fólki og "vondu"...
Magnús Þór Jónsson, 23.6.2009 kl. 17:24
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.