Kreppur

Enn segi ég að við verðum að skoða þá moðsuðu sem íslenska kosningakerfið er og við köllum lýðræði, en er í raun ekki.

Ég tel einsýnt að við þurfum að breyta og velja milli tveggja hugsanlegra breytinga.

a)  Taka upp einmenningskjördæmi með jafnmarga (u.þ.b.) á bakvið sig.  Þar með myndi atkvæðadreifing milli framboða minnka og smám saman myndast 2 - 3 blokkir sem að myndi einfalda sviðið okkar sem í dag er blóði drifinn vígvöllur margra hreyfinga.  Sumra örsmárra.  Miðað við núverandi þingmannafjölda og höfðatölu landsins væru u.þ.b.  5300 manns bakvið hvern þingmann. Á mínu heimasvæði myndum við kjósa þingmann Snæfells- og Hnappadalssýslu.

Sá eini maður væri auðvitað í flokki, en yrði þingmaður Snæfellinga og myndi þurfa að svara sínum kjósendum.  Á fjögurra ára fresti myndum við ákveða hvort hann hefði staðið sig og velja svo í kjölfarið.  Fólkið á undan flokknum.

b)  Ísland eitt kjördæmi.  Þá myndi maður lesa stefnuskrá flokkanna óháð öllu öðru og þarmeð ekki flækja saman loðnu samkrulli "heima" og "utanaðkomandi" viðhorfa.  Flókið kerfi uppbótarþingmanna í bland við flokkalýðræði er gjaldþrota hér, eins og sumar aðrar stjórnmálastefnur samtímans.

Í dag finnst mér engin lausn á stjórnmálavanda landsins sýnilegur.  Menn geta skipt frá vinstri yfir í hægri með viðkomu á miðju, en ég sé ekki að vegurinn milli þings og þjóðar hafi styst, síst þá vegna þátttöku óánægjuframboðs sem er horfið úr áhrifunum.

Ég sjálfur horfi til einmenningskjördæmanna.  "Okkar" þingmenn hér eru margir en lítið sést til verka þeirra hér heima.  Menn um allt land kvarta undan litlum árangri en flokkarnir fela sig bakvið verk annarra eða á öðrum stöðum.

Ég myndi vilja taka þátt í að velja "minn" þingmann.  Jafnvel þó ég tapaði kosningunni yrði sá sem vann minn fulltrúi. 

Ég trúi nefnilega ekki á flokka, heldur fólk!


mbl.is „Upplausnin er okkur augljós“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband