Helga tón - minning

Í dag er borin til hinstu hvílu austur á Héraðinu mínu hún Helga Þórhallsdóttir, kona sem í mínum huga mun alltaf bera nafnið Helga "tón" enda tónmenntakennari barnæsku minnar.

Helga var eftirminnileg kona, hluti lítils kennarahóps sem fylgdi mér alla skólagönguna í grunnskólanum mínum á Eiðum. Þar kenndi Helga mér öll mín skólaár og þurfti svo sannarlega að hafa fyrir því (er ekkert viss um að kennarinn ég hefði fílað nemandann mig sko) að fá okkur strákpjakkana til að fylgja sér.  Við vorum jú skytturnar fjórar, fannst við gaurar sem réðum mörgu og vorum klárlega óstýrilátir. Dálítið sérstakt að hafa verið í fjögurra stráka hóp í sex ár í þessum litla skóla og það var viðfangsefnið hennar Helgu að koma inn í okkur hugarheim tónlistarinnar.

Það gerði hún af yfirvegun og á köflum af ákveðni.  Á hluta minnar skólagöngu vorum við pottþétt erfiðir, ég ætla að nota orðið hrekkjóttir og uppátækjasamir en mögulega myndu aðrir nota önnur orð. Læt þessi verða mín.  Helga fór ekki varhluta af þessum uppátækjum.  Okkur fannst við ógeðslega fyndnir að syngja annan texta við lögin sem hún spilaði á píanóið, kalla Mozart "Mozza karlinn" og neita að spila á ákveðin hljóðfæri því þau væru "stelpuhljóðfæri". Jájá. Svona gaurar.  Ég man ekki svo glatt eftir því að Helga hafi látið okkur komast upp með þetta, hún var ekkert mikið í hávaðanum en lét ekki slá sig svo glatt út af lagi (pun intended) og yfirleitt var það þannig að hún kom sínu fram.

Ætla að leyfa mér að benda á eitt atriði sem sennilega lýsir henni vel.  Okkur tókst einhvern veginn í morgunmatnum að komast inn í stofuna okkar, höfðum örugglega undirbúið eitthvað því einn okkar fjögurra var mættur með trélímið. Við fundum fljótlega bók sem við þekktum og hét "min danske ordbog". Við opnuðum píanóið, röðuðum orðabókunum haganlega þannig að hamar nótnanna næði ekki á strengina og límdum svo lokið á.  Daginn eftir var tónmenntatími og við hreinlega réðum okkur ekki fyrir spenningi.  Helga settist við hljóðfærið, lagið var valið en ekkert hljóð kom þar sem átti að gerast.  Helga stoppaði, hugðist opna lokið en það var pikkfast. Við skulfum af spenningi hvað myndi gerast. Helga settist niður, setti lokið yfir "lyklaborð" píanósins og sneri sér út í bekkinn og sagði "Við syngjum þetta bara án undirleiks" og þannig var tíminn kláraður þrátt fyrir hávær mótmæli fjórmenningana sem auðvitað heimtuðu sína píanóhljóma.  Við fórum hundsvekktir í smíðatíma og fannst við sviknir - ótrúlegt að Helga hefði ekki fattað þetta og eitthvað fjör hefði orðið úr.  Þegar við komum aftur í skólann eftir smíðana beið Sigurður skólastjóri eftir okkur fjórum, skipaði okkur með sér inn í stofuna þar sem hann pikkaði upp lokið ásamt okkur og lét okkur sækja blessaðar bækurnar. Að hans venju voru ekki læti en hann lét okkur vita það að Helga hefði áttað sig strax á málinu og vitað hvað hefði gerst, hún hefði hins vegar talað okkar máli þannig að þetta væru strákapör og hún vildi ekki að meira mál yrði gert en að við tækjum til eftir okkur.

Með auknum þroska urðum við líka óskaplega glaðir með hana, hún fékk að vera bara með okkur i tíma síðasta veturinn okkar (vorum annars með öðrum árgöngum upp á bekkjarstærð) og þann vetur fór hún að spila fyrir okkur tónlist eins og Dylan, Bítlana og Stones. Bað okkur um að koma með hugmyndir að tónlist sem við töluðum um.

Helga var líka traustur vinur mömmu minnar og reglulegur gestur í eldhúsinu á Garði.  Helga fór um allt gangandi og það var góður spölur á Ormsstaði hvar hún bjó, það var stundum ævintýraljómi þegar hún bankaði á snjóþrungnum laugardegi alhvít til að kíkja í kaffibolla og spjall.  Þær voru báðar uppteknar af listinni, voru örugglega veraldarkonur langt frá heiminum og samtölin þeirra gáfu báðum mikið.  Þegar móðir mín lá sína veikinda- og banalegu var eitt af því sem við ræddum oft samtölin hennar við Eiðakonurnar í þessu eldhúsi, hún saknaði þess tíma og lét sig dreyma að hún fengi þá heilsu að komast austur einu sinni enn og þá talaði hún sérstaklega um að þá gæti hún hitt hana Helgu sína. Það varð ekki en ég treysti því að mamma mín taki nú á móti vinkonu sinni í alltof fjölmennum Eiðakvennahópnum þeim megin.

Það er of sjaldan sem maður hugsar til baka eða þakkar fólki fyrir þann hlut sem það spilaði á æviferlinum. Ég hefði átt að segja Helgu tón það sjálfri hvað ég met það hversu þolinmóð hún var við mig og okkur strákana, hrósa henni fyrir það sem hún lagði í að gera með okkur fyrir árshátíðirnar stóru og jólagleðina.  Ég viðurkenni að mér þætti í dag dásemd ef að væri til upptaka af skólakórnum þar sem skytturnar fjórar stóðu prúðbúnar og lítið lagvissir að syngja alls konar ættjarðarljóð og söngva undir hennar stjórn. Það hefðu fáir leikið aðrir en Helga tón. 

Fólk velur sér farveg í lífinu, farvegur Helgu var að vera trúr sinni ættjörð og heimasvæði og gefa þar af sér í áratugi inn í litla samfélagið á Héraði. Ég er algerlega handviss að ef að Helga hefði verið nær fjölmiðlunum og í stærra samfélagi væri hún landsþekkt og hróðurinn meiri. Ég er líka viss um að það skipti hana engu máli, hún var þar sem henni leið vel og naut sín fullkomlega.

Takk fyrir mig Helga, gangi þér vel á lokagöngunni þinni yfir í sumarlandið. Skilaðu kveðju í Eiðakvennahópinn.

Ættingjum og vinum sendi ég hugheilar samúðarkveðjur, merkiskona er gengin.


« Síðasta færsla

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband