Gleðilegt ár - velkomið 2010

Eins og áður hefur komið fram hér á þessum pistli heilsa ég nýju ári glaður, horfi bjart fram á veginn að loknu erfiðu ári.

Í kvöld var frábært brennuveður, tunglið lýsti upp Breiðina þar sem brennan logaði og flugeldasýningin eins frábær og alltaf.

Eins og siður er orðinn hér á Selhól var mesta sprengjustuðið um miðnætti og að því loknu tóku við knús og nágrannaheimsóknir.

Mikið vona ég að leiktjöldin sem eru allsráðandi á fyrstu klukkutímum nýs árs séu fyrirboði bjartrar framtíðar fyrir lýð og land.

Gleðilegt nýtt ár vinir mínir.  Takk fyrir þau gömlu!


mbl.is Árið kvatt í Snæfellsbæ
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Árið 2009.

Ég veit að í dag er ansi margt annað í umræðunni en mitt líf undanfarið ár.  Ég ákvað fyrir löngu síðan að skrifa ekki um ÍSVARNIRNAR og læt það vera annarra verk.  Mig langar að fara í stuttu máli yfir viðburðaríkt ár, fyrir mig og mína.

Vinnan

Á þessu ári hefur skólinn minn haldið áfram að stíga fastari skref í áttinni að okkar hugmynd um sérstöðuna sem við viljum gera að okkar.  Í janúar hófst vinna við skólastefnu Snæfellsbæjar með starfshópi fólks víða úr samfélaginu okkar.  Sú vinna var mjög gæfusöm að mínu viti og skilaði miklu.

Þar voru endanlega teknar ákvarðanir um stefnuna í skólunum okkar, sú stefna var sú að gera náttúru og sögu bæjarins grunntóninn og markviss skref tekin í þá átt, nú síðast með því að sækja um og fá styrk úr Sprotasjóði til að vinna það verk enn öflugar.

Ég hlakka mikið til þess, enda að vinna með gríðarlega góðum hópi fólks sem er að stefna í sömu átt.  Það er auðvitað lykilatriðið í þessu máli öllu, því skóli er auðvitað afrakstur fólksins sem þar vinnur.

En það blés líka.  Þungt mál og erfitt kom upp á liðnu vetri sem var án vafa það erfiðasta sem ég hef þurft að taka á í mínu starfi.  Ég vona innilega að mér hafi tekist að leysa það mál af eins mikilli virðingu og mögulegt var, nokkuð sem ég veit sennilega ekki fyrr en miklu seinna á starfsævinni þegar ég hef öðlast meiri reynslu.

Þetta ár var líka það fyrsta sem segja má að ég hafi sinnt starfi mínu sem formaður Skólastjórafélags Vesturlands.  Sú vinna var töluverð, og töluvert öðruvísi en ég reiknaði með.  Í ljósi aðstæðna í samfélaginu átti það kannski ekki að koma mér á óvart, en verkefnin voru sennilega meiri en við reiknuðum með, og nokkuð sem mun standa um sinn.

Vinnan þar var þó líka afar skemmtileg. Trúnaðarstörf innan SÍ gengu vel og fundir og ráðstefnur í fínum málum.

Á næstu mánuðum heldur vinnan áfram og framundan er að framlengja samninginn í vinnunni minni, enda afar glaður þar sem ég er.

Fótboltinn

Upphaf síðasta árs stefndi ég að því að komast í form og fá fleiri dómarastörf.  Var í stjórn Víkings að undirbúa fótboltasumarið undir nýjum þjálfara, Kristni Guðbrandssyni.

Fótboltadómgæslan gekk vel held ég.  Ég byrjaði mjög ferskur í vor og sumar, en lenti í óhappi við dómgæslu og tognaði aftur á læri í upphafi júlí og það kostaði mig mikla vinnu að klára þau verkefni almennilega.  Ég náði að standa vel að mínum störfum held ég og nú í haust tók ég ákvörðun um að keyra fastar fram og ætlunin er sannarlega að komast enn lengra í því starfi, hef nú breytt æfingaplaninu og stefnan er að ná þeim stöðlum sem dómurum er ætlað að ná til að fá frama.  Vonandi tekst það á árinu 2010.

Víkingarnir mínir í Ólafsvík áttu erfitt og skipt var um þjálfara eftir níu leiki.  Það var mér þungbært og í raun tók ég þá ákvörðun að stjórnarstörf væru mér afar erfið sem fyrrverandi þjálfari.  Auðvitað þarf að taka slíkar ákvarðanir og það var gert.  Því miður náðum við okkur ekki á strikið samt og fall í 2.deild varð ekki flúið.

Þar með var það ljóst að störf mín í knattspyrnudeildinni gengu ekki upp við ætlanir mínar í dómaramálum og þar með þurfti ég að velja annað hvort, og fyrir valinu varð dómgæslan.  Vissulega ætla ég að reyna að láta gott af mér leiða í boltanum á komandi ári, en stjórnarstörfin samræmast ekki dómgæslunni í framtíðinni.

Stjáni og Laugi náðu fínum árangri hjá sínum liðum.  Keflavík lenti í miklu meiðslavafstri og óstöðugleika sem þýddi að þeir voru ekki nálægt titlinum þetta árið og Stjána var skipt út.  Ég fylgdist með samningaviðræðum hans við HB í Færeyjum og var ákaflega ánægður með ákvörðun hans að taka því tilboði.  Stefni klárlega að því að sjá knattspyrnuleik þar næsta sumar.

Laugi náði að koma ÍR í stöðugleika í næstefstu deild.  Einhverjir vina minna í Breiðholtinu reiknuðu kannski með því að árangurinn yrði meiri, en þar var ég ekki sammála.  Mitt ástkæra félag hefur átt erfitt í 6 - 8 ár og því var alltaf ljóst í mínum huga að það væri skynsamt skref að festa liðið í sessi í 1.deild áður en menn reistu stærri vígi.  Ég er sannfærður um að skref verður stigið áfram næsta sumar, vonandi það skref að menn sláist ofar miðju deildarinnar og daðri við topp fjóra.  En fyrst og síðast stöðugleiki í næst efstu deild.

Enski boltinn.  Ætti bara að vísa á www.kop.is að mestu.  Frábært vor en ömurlegt haust.

Einkalífið

Árið hófst á rólegum nótum, Sólveig Harpa átti fyrsta afmælið sitt í febrúar, var þá kominn til dagmömmu og vel gekk.  Birtan skveraði áfram skælbrosandi, Thelma kominn í fínan gír og Hekla glöð í Varmárskóla.

Sumarið á Hellissandi var sólríkt og fullt af gleði.  Gatan iðaði af lífi og við fengum fullt af góðum gestum.  Thelman mín fékk vinnu á Hótel Hellissandi og bjó hjá okkur, sem var mjög gott og gleðilegt.  Auðvitað stóð hún sig vel.  Hekla var mest fyrir sunnan og fór að æfa fótbolta á fullu með Aftureldingu.

Ágúst kom, fyrsta stóra skref þess mánaðar var auðvitað að aðlaga Sólveigu að leikskólanum sem hún var komin í.  Það gekk óskaplega vel, stúlkan dansaði í gegnum upphafið og var sínum til sóma.

Þá kom í ljós að Thelma og Hekla hugðust fara með móður sinni og dveljast á Spáni um sinn.  Fyrstu viðbrögðin voru vægt sjokk, en svo fór að lokum að við mamma þeirra fundum flöt á málinu sem við vorum sammála um og þar á meðal varð úr að Thelma hóf fjarnám við Fjölbrautaskóla Snæfellinga í samráði við okkur Helgu.

Spánardvöl þeirra varð styttri en reiknað var með og úr varð að Thelma kom vestur í október og dvaldi hjá okkur til jóla, náði góðum vinnumóral og komst vel í gegnum námið sitt, auk þess sem hún skutlaði sér í gegnum bílprófið og sækir nú Kristal í sjoppuna eins oft og við biðjum um.

Helga hélt áfram í náminu og mikilli og erfiðri vinnu í FSN.  Töluvert álag sem reyndi mikið á, en hún leysti eins og hennar er von og vísa.  Með miklum sóma.

Sumarfríið okkar utan Sandsins var virkilega vel heppnuð norðurferð í kringum Pollann og skemmtileg íbúðarskipti við frændfólk Helgu í vesturbæ Reykjavíkur.  En mest vorum við heima við og nutum lognsins og blíðunnar í heimahögunum.

Mamma

Í apríl kom mamma heim.  Fór í krabbameinstékk og allt kom vel út.  Geislaði af gleði og orku, talaði um að taka ákvörðun í sumar hvort hún dveldi áfram í Portúgal eða flytti heim.

Í júlílok hringdi hún í mig og kvartaði undan heilsunni sinni.  Ég skoraði á hana að fara og láta kíkja á sig og skoða hvort hún væri með svínaflensu, heyrði svo í henni stuttu seinna og þá sagði hún að sennilega væri hún með hitasjokk.

6.ágúst hringdi amma í mig og hafði þá heyrt í mömmu.  Bað mig um að hringja sem ég gerði. Þá kom í ljós að mamma var orðin fár-, fár-, fárveik.  Ég sá strax að við urðum að koma henni heim hið bráðasta og það tókst fimmtudaginn 13.ágúst, með aðstoð heilbrigðis- og utanríkisráðuneytisins.  Strax var ljóst að Lucy systir hafði unnið afrek með að koma mömmu heim, svo veik var hún. Hvað þá að klára millilendinguna í London og næturstoppið.

Föstudagurinn 14.ágúst 2009 víkur mér seint úr minni.  Á fjölskyldufundi uppúr hádeginu þann dag tilkynnti lyflæknirinn á deild 11-E okkur systkinunum að mamma okkar væri með krabbamein, a.m.k. í heila og sennilega lungum.  Ljóst væri að meinið yrði ekki læknað, líkur á því væru engar.  Að auki þyrfti hún í erfiða aðgerð til að tappa vökva af heilanum sem myndi leiða til þess að hún gæti fengið meiri mátt og aukna hreyfigetu.  Sú aðgerð var framkvæmd mánudaginn eftir og fljótlega uppúr því fór mamma í geislameðferð sem gefa átti henni fleiri "góða" daga.

Fyrst um sinn gekk vel.  Við urðum öll að taka saman ákvörðun um hvar við vildum að mamma dveldist þegar henni fór að líða betur og í samráði við hana var ákveðið að hún færi til Vestmannaeyja, myndi dveljast þar á Heilbrigðisstofnun Vestmannaeyja þegar þyrfti en á Ásaveginum hjá Drífu þegar heilsa hennar leyfði.  Lucy flutti um leið til Drífu.

Í raun þarf ekki að lengja þessa sögu mikið.  Mamma fékk miklu færri "góða" daga en við reiknuðum með, krabbinn vann sín verk hratt og án mikillar vægðar.  Frá miðjum nóvember dvaldist ég nær eingöngu úti í Eyjum, þeim dásamlega stað, við sjúkrabeð hennar og hjá fólkinu mínu þar.

Þeim tíma eyddi ég líka í faðmi systkina minna og annarra úr fjölskyldunni minni, fólks sem ég er svo stoltur af að ég gæti sprungið.  Þessi ömurlega barátta öll var svo erfið að mér er erfitt að lýsa því, en að henni lokinni situr eftir hjá mér þetta stolt og sú væntumþykja sem varð svo augljós á þessum tíma.

30.nóvember lauk svo stríðinu með andláti mömmu hinnar, 58 ára gamalli.  Níu dögum seinna héldum við útför hennar frá Hafnarfjarðarkirkju og jarðsettum svo mömmu mína í Garðakirkjugarði á Álftanesi.

Ég gæti skrifað í alla nótt um hana mömmu mína, en ætla ekki að gera það hér.  Ég vona að einhvern tíma finnist mér stund þar sem ég get skrifað um hana það sem mig langar af þeirri virðingu sem hún á frá mér skilið.

Núna langar mig bara að segja að ég sakna hennar sárt og skil svo vel í dag samlíkingu eins af þeim stórkostlegu starfsmönnum heilbrigðisstéttarinnar sem ég kynntist í gegnum þetta.  Hún sagði.

"Það að ganga í gegnum svona ferli má líkja við slæmt brunasár.  Fyrst um sinn er mikill stingandi verkur sem dofnar hægt, þá svíður og svo fer að klæja.  Þú finnur fyrir sárinu hvern dag.  Svo minnkar sársaukinn smátt og smátt, en örið fylgir þér að eilífu"

Mér finnst þessi orð lýsa ferlinu sem orðið hefur hjá mér eftir andlát mömmu algerlega.  Ég myndi segja að í dag sé ég kannski að detta inn á sviðatímabilið en finn ennþá verkinn.  Í huga mér trúi ég ekki í dag að tíminn lækni öll sár, en frekar á það að maður læri að lifa með sársaukanum og það ætla ég mér að gera!

Semsagt - samantekt

Annað kvöld sprengi ég árið 2009 burt og tek á móti nýju.  Í dag gekk Thelma mín frá lögheimilsflutningnum sínum á Hellissand og ég hugsaði "svei mér, þetta ár endar á jákvæðum nótum".

Þá rifjaði ég upp að margt gekk vel á þessu ári þó afar sterkir vindar hafi blásið í fangið á mörgum sviðum, jafnvel fleiri en ég hef lýst hér.

Af því ég hef svo gaman af myndlíkingum dreg ég hugsanir mínar í kvöld saman í þessa setningu.

Við enda stormsins er gullinn himinn og silfurtær hljómur þrastarins.

Með þá fullvissu að storma ársins 2009 hafi að mestu lægt og hljóminn framundan í eyrunum þakka ég ykkur öll vinir mínir fyrir árið sem er að líða og ætla að horfa brosandi fram á veginn.

Þó ég viðurkenni alveg að það er bros í gegnum tár þess sem að baki liggur.

Gleðilegt ár öll sömul - hafið það virkilega gott á nýju ári !!!!!


Þarf að laga

Ekki ætla ég að verða svo bjartsýnn að halda að allt hrökkvi nú skyndilega rétt og slétt í gang og selt verði og keypt á fullu.

En það er fullkomlega ljóst að ef að ekki verður hægt að sparka í gang fasteignamarkaðnum á ný fljótlega er samfélagið okkar að fara að glíma við húsnæðisvandamál sem ekki líkjast neinu síðan á fimmta eða sjötta áratugnum.

Þar voru braggahverfi og kjallaraholur vistarverur margra, en verkamannaíbúðakerfið sem gaf fólki kost á að kaupa sér tiltölulega ódýrt húsnæði leysti þann vanda og smám saman varð til eignamyndun fasteigna sem er nauðsynleg fyrir svo margt í okkar samfélagi.

Því vinnan í kringum fasteignakaup kallar svo oft á viðgerðir íbúða, endurhönnun og annað sem þarf að kaupa vinnu og þjónustu við.

Ég var síðustu daga í indælli blokkaríbúð í Vallarhverfinu í Hafnarfirði.  Í kringum þá íbúðablokk standa auðar blokkir, raðhús með spónaplötum í hurðum og gluggum og sýnilega ekki neitt verið unnið við nú um sinn.  Ófrágengnar lóðir um allt hverfið.

Er ekki eina lausnin að farið verði í aðgerðir til að sveitarfélög og / eða ríkið leysi til sín þessar íbúðir og reynt verði að hugsa upp nýtt "verkamannaíbúðakerfi" eða eitthvað annað svipað til að ýta hjólum fasteignamarkaðarins í gang.  Í öllum sveitarfélögum höfuðborgarsvæðisins og á Reykjanesi standa blokkir og hverfi auð.

Hefðbundnar markaðsleiðir munu ekki duga þarna, ég er ekki mikill ríkishyggjumaður að eðlisfari, en ég held að þarna þurfi ríkið að koma að.

Gott væri nú ef að hætt yrði að karpa um milliríkjadeilur á hinu háa Alþingi og snúið yrði að innanlandsmálum....


mbl.is Ekki jafn fáir kaupsamningar í 29 ár
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hreyfingin.

Fyrir hverja?

Að mínu mati stærstu vonbrigði íslenskrar þingsögu.  Ofboðslega óvandaður málflutningur einkennir öll þeirra vinnubrögð og satt að segja held ég að saga hennar verði klafi fyrir alla sem hafa hug á nýjum leiðum í íslenskri pólitík.

Sem er afar leitt, því breytinga er þörf. 


mbl.is Sérstök þingnefnd verður kosin
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Aðstoð eða afplánun?

Hef mikið velt fyrir mér þeim einstaklingum eins og þessum, sem virðast ekki læra af reynslunni og lenda stöðugt í vanda, oft þeim sama. 

Las einhvers staðar að um 3 % þeirra sem reka sig á "kerfi" nái ekki bata með "eðlilegum leiðum" eins og afplánun og þeirri aðstoð sem þar er boðin.  Þessir einstaklingar verða svokallaðir "síbrotamenn" og eiga mjög erfitt.  Því miður endar það oft á því að þessir einstaklingar fremja stærri glæpi og jafnvel í einhverjum tilvikum nærri því til þess að eignast samastað!

Ég held að við verðum að skoða hvernig hægt er að koma til móts við þessa einstaklinga því líðan þeirra hlýtur að vera ansi slæm lengstum og skaðinn sem þeir valda samborgurum sínum oft afar mikill.  Í þessu dæmi var það í raun bara heppni að ekki fór miklu, miklu verr.

Ég tel farsælast að reyna að skapa síbrotafólki einhvern samastað, allt að því verndaðan vinnustað, þar sem lágmarksgæsla er og þar þarf að vera í töluvert langan tíma og sækja um brottför þaðan.  Slík kerfi hafa verið sett upp og vert er að skoða slíkar lausnir.

Litla-Hraun og aðrir "leiðréttingarkostir" (correction facilities) íslenskir eru ekki að virka hjá þessum einstaklingum og við því þarf að bregðast.


mbl.is Rauf ítrekað skilorð en var alltaf sleppt
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hvíldu í friði Guðmundur Sesar.

Þeim hjónum kynntist ég í vinnunni minni í Breiðholtsskóla og þau kynni eru mér afar minnisstæð.

Það var af svo miklu æðruleysi og yfirvegun sem þau tókust á við marghöfða andstyggilegan risa og þrátt fyrir mikið mótlæti var það þeim einhvern veginn aldrei valkostur að gefast upp.  Við í skólanum áttum ekki margar lausnir, en reyndum þó eins og okkur var unnt.

Það var svo afar ánægjulegt að hitta Sesar og dóttur hans í brúðkaupi frænda míns ekki alls fyrir löngu og sjá þann árangur sem þau höfðu náð í baráttu sem oftar en ekki endar með öðrum og verri hætti.

Með Sesari er gengin mikil hvunndagshetja og þessi saga fellur algerlega að hans karakter, hann átti þarna þátt í kraftaverki, í síðasta sinn hérna megin tilverunnar.

Minning um góðan dreng lifir áfram, Oddrúnu, Kristu og öðrum ættingjum sendi ég dýpstu samúðarkveðjur!


mbl.is „Þá skaltu líka lifa“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Vona virkilega ekki

Jólaguðspjallið sker sig að mínu viti úr öllum trúarkenningum, er til marks um auðmýktina sem felst í trúnni okkar.  Margt í henni er fullt af ofbeldi og vísunum í átök og deilur.

En sagan um friðsældina í fjárhúsinu í Betlehem og þá fallegu stund sem þar varð, hvað þá valið á þeim sem flytja áttu fréttina af fæðingu frelsarans.  Fjárhús sem bóndi lánaði og síðan ákvörðun að senda engla til fjárhirða að óska þess að þeir beri fréttina um heiminn er saga sem á að segja frá án þess að þurfa að hafa skammast sín.

Jólahelgileikir með vitringum, fjárhirðum og brúðunni sem gerð er að Jesúbarni eru líka svo ofboðslega hugljúfir og sætir! 

Gleðileg jól allir!


mbl.is Má bara rifja upp sögu Jesú og Maríu í kirkjum?
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Engin orð án athafna

Fyrirliðinn loksins fundið málið.

Vonandi er nú komið að þeim tíma að menn bretti upp ermar og tali inni á vellinum.

Það skiptir máli, því mótlætið herðir ef þú lærir að vinna úr því!

At the end of the storm, there's a golden sky.  Munum það!


mbl.is Gerrard stendur með Benítez
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Jól á leiðinni

Þá er víst að styttast allverulega í jólahátíðina 2009, sem verður nr. 38 í röðinni hjá mér.

Sú fyrsta þar sem móðir mín verður ekki á meðal þeirra sem fær gjöf frá mér eða ég heyri í að kvöldi Aðfangadagsins.  

Svona til að fyrirbyggja misskilning þeirra sem ekki þekkja til málsins, lést móðir mín 30.nóvember eftir erfiða baráttu við krabbamein og hvílir nú í Garðakirkjugarði á Álftanesi.

Undanfarna daga, þegar nær dregur jólunum hefur einhvern veginn þessi staðreynd orðið áþreifanlegri.  Ég þakka guði á hverjum degi þá gæfu sem mér hefur verið færð í börnunum mínum og maka, því þar hef ég náð að finna gleðina sem fylgir hátíð ljóssins og friðarins og þau gefa mér þá orku sem ég þarf..

Það hefur ekki verið auðvelt.  Í þessum rússibana öllum síðustu mánuði hefur maður verið svo upptekinn af baráttu við veikindi mömmu og síðan að vinna í og skipuleggja eftirmælin öll að maður sat stundum upp með að gleyma sjálfum sér.

Síðustu daga hefur svo verið höggvið í sárið á ólíklegustu stundum og tímum og þá kemur önnur útgáfa sársaukans, hreinn söknuður og eftirsjá, á fullri ferð í ljós.

Í dag eru tveir dagar til jóla, Helga skreytti húsið í dag og við Sigríður Birta fórum og sóttum jólatré.  Þegar ég kom heim með tréð þá fannst mér stórt skref vera tekið í að færa jólin nær mér sjálfum og ég hlakka mikið til að skreyta það.  Ég meira að segja settist niður og skrifaði nokkur jólakort sem vonandi berast fyrir jól.  Ég einfaldlega hef ekki haft orku í það!

Mig langar mikið að gera orðin hans séra Kristjáns í líkræðu mömmu minnar að veruleika, þegar hann minnti okkur öll á að "það skal verða glatt í döprum hjörtum" á aðventunni eins og segir í uppáhaldssálminum hennar mömmu.

Maður þarf auðvitað að nýta aðlögunarhæfni sína í þessum nýju aðstæðum og drekka í sig gleðina sem hátíðinni fylgir enn meir en nokkru sinni áður.

Og svo heimsæki ég kirkjugarð í fyrsta sinn á jólunum, þá lærir maður eitthvað nýtt eins og maður víst gerir alltaf á meðan maður lifir.

Gleðileg jól kæru vinir, kunningjar og lesendur!  Megi jólahátíðin færa ykkur frið og gæfu, faðmið ykkur hraustlega frá mér og mínum!


Væri í hópnum...

...ef ég væri í bænum á morgun. 

Gerði þau mistök að taka erlent bílalán upp á 1200 þúsund, sem stendur í dag í 2600 þúsundum og ég hef greitt af því í rúm tvö ár.

Þjófnaður í dagsbirtu, en vissulega samþykkti ég að taka þátt í því, bláeygur.

Hlýtur að þurfa að fara að finna einhverja lausn á þessari vitleysu allri, veit að það eru ekki allir í sömu stöðu og ég að geta borgað af ránslánunum á bílana!


mbl.is Mótmælt vegna bílalána á morgun
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband