Ævintýrið um Öskubusku og Nýju fötin keisarans.
19.1.2010 | 13:09
Þá er West Ham ekki "Íslendingafélag" nema að litlu leyti.
Þessi Öskubuskusaga fyrrum formanns KSÍ sem fékk fjárfesta til að koma að kaupum á ensku úrvalsdeildarfélagi og stefndi hátt. Ætlaði að vinna prinsinn á ballinu.
Mér fannst fréttaflutningur Íslendinga af liðinu sérstakur, vissulega var Eggert ekki að skafa af yfirlýsingum sínum og síðan voru það stjóraskipti sem juku væntingar þeirra sem oftast mættu á heimaleikina.
Eftir að liðið hélt sér uppi hófst svo kaupveisla sem alfarið hefur verið bent á að sé á hans forræði.
Svo stuttu seinna var hann kvaddur, og svei mér ef hann er ekki ennþá að reyna að fá peningana sína til baka.
Fjárfestirinn, keisarinn, fékk skraddarana til að sauma ný föt á sig. Skyndilega var hann orðinn aðalmaðurinn, hafði litla tengingu við knattspyrnu og náði engri hylli á Upton Park. Sá skyndilega að hann átti alls ekki fyrir þeim launum sem hann hafði látið Eggert hafa til að "díla" með og dró allt í land.
Svo núna koma nýir eigendur og tala um að taka til eftir "Íslendingana". Réttast held ég að segja eftir hr. Guðmundsson drengir mínir. Hann átti aldrei að verða sá sem sjá átti um fótboltalega framtíð West Ham, hvað þá Ásgeir Friðgeirsson!
Eins og með margt annað sem þessi ágæti maður, Björgúlfur Guðmundsson, tók sér fyrir hendur virðist hann hafa lagt af stað með eina áætlun en síðan fattað í flýti að hann hafði engin efni á henni og ætlaði þá að söðla um.
Eggert fannst mér í raun illa leikinn. Hann yfirgaf draumastarf knattspyrnuáhugamanns til að stofnsetja þetta verkefni, til þess eins að vera kastað eftir að hann var búinn að koma keisaranum fyrir. Fyrstu orð nýju eigendanna eru hans, nefnilega hugmynd um nýjan völl fyrir liðið!
Því auðvitað kom í ljós að nýju fötin þessa keisara voru klippt út úr sögunni klassísku.
Og uppi sitjum við með enn fleiri neikvæðar fyrirsagnir, "Icelanders". Enn bætist skrautfjöður í hatt þessa keisara.
Sullivan: Tiltekt eftir Íslendingana | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Skref í rétta átt!
15.1.2010 | 15:13
Í þessa nefnd þarf að veljast fólk sem hefur mikla aðlögunarhæfni og er sjálfsgagnrýnið, bæði á sig sjálf, flokkinn sinn og þjóðina sína.
Endurreisn ímyndar landsins byrjar hér heima og sáttur er ég ef að þingmenn byrja á sjálfum sér og stjórnmálunum.
Stjórnmál, og stjórnmálamenn, er sameign þjóðar og þarf að meðhöndlast þannig. Þeir sem í þeirri vinnu standa eiga að vera kyndilberar sameiginlegra hagsmuna.
Gott mál!
Þverpólitísk nefnd um Icesave | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Hjartanlega til hamingju Óli og Aron!
14.1.2010 | 13:30
Verður enn skemmtilegra en áður að fylgjast með landsliðinu þegar maður telur sig "eiga" eitthvað í landsliðsmönnunum.
Hafsentinn Ólafur Guðmundsson og miðju/sóknarmaðurinn Aron Pálmarsson völdu handboltann fram yfir tuðrusparkið - þó ég telji alveg klárt að þeir væru líka afreksmenn í þeirri íþrótt hefðu þeir valið hana. Og þrátt fyrir að hafa verið með slíka súperþjálfara í yngri flokkum FH!!!!
Aftur til hamingju strákar, hvet ykkur spes úr sófanum!
Ólafur og Logi fara á EM en Ragnar og Rúnar sitja eftir | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Skotgrafir pólitíkurinnar...
12.1.2010 | 21:50
Var það ástæða þjóðaratkvæðagreiðslu?
Líf ríkisstjórnarinnar?
Erum við búin að gleyma IceSave málinu og "sameiginlegri ábyrgð allra stjórnmálaflokka" á einni viku?
Enn biðla ég um samstöðustjórnmál í stað átakastjórnmála!
Bjarni: Snýst um líf ríkisstjórnarinnar | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
Lykilatriði
12.1.2010 | 13:04
í endurreisn Íslands er að við förum að skoða hvernig við myndum hagvöxt og hvar vaxtarsprotarnir okkar liggja.
Við þurfum auðvitað að varna því að við töpum í samningum en mér finnst langalvarlegasti vandinn felast í klossföstu atvinnulífi og neikvæðum hagvexti.
Er hjartanlega sammála því að skattahækkanirnar nú eru bara að draga blóðið úr sjúklingnum og stöðugt stækkar hópur þeirra sem að geta ekki staðið undir sínum heimilisrekstri. Einhver talaði um að 8000 manns væru flutt úr landi. Það er hrikaleg tala og verður að stöðva þann feril og helst snúa honum við.
Með allri virðingu fyrir IceSave karpinu er þessi biðtími okkar orðinn allt of langur og það verður að fara að hugsa aðrar lausnir en skatta- og gjaldskrárhækkanir út úr vandanum!
Óráð að hækka skatta í kreppu | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Heiðarleiki og hinn eini sanni tónn?
10.1.2010 | 21:58
Hef spjallað oft og stundum mikið við menn sem unnið hafa og/eða vinna á Alþingi Íslendinga.
Hef haft gaman af því að spyrja menn út í einstaklinga sem þar vinna, óháð flokkapólitík. Einfaldlega hvernig starfsmenn við höfum í vinnunni fyrir okkur.
Tveir einstaklingar standa þar uppúr mínum samtölum varðandi heiðarleika og fagmennsku. Einhvernveginn svona "traustir gæjar" óháð skoðunum. Þau nöfn eru Geir H. Haarde og Steingrímur J. Sigfússon.
Í þeim ólgusjó sem skyndilega er fokinn af stað aftur hef ég reynt að lesa töluvert eftir Geir á meðan á rokinu stærsta stóð og síðan það sem Steingrímur hefur sagt frá því að hann komst til valda.
Svo hlustaði ég á frábæran Silfur Egils þátt áðan og hef einmitt síðan verið að velta nákvæmlega fyrirsögn á þessari frétt. Við erum held ég öll sammála um það að verið er að fara illa með íslenska þjóð. Vandinn snýst fyrst og fremst í málatilbúnaðinum. Eva Joly og örugglega allir hinir sérfræðingarnir hafa rétt fyrir sér um ósanngirni Breta og Hollendinga.
Hausverkurinn nákvæmlega núna er að ekkert hefur enn heyrst opinberlega frá viðsemjendum okkar í IceSave, því við samþykktum fyrir löngu að við gengjumst í ábyrgð. Bjarni Benediktsson skrifaði uppá það fyrstur manna, þó hann sé kominn langt frá því nú þessa dagana.
Ég segi enn og aftur að ég myndi vilja heyra rödd Geirs H. Haarde og jafnvel betur í Ingibjörgu Sólrúnu næstu dagana, fá þeirra mat á því hvað réttast væri að gera.
Ingibjörg talar um nýja samninganefnd. En er ekki staðreyndin sú að Bretar og Hollendingar verða að samþykkja að ganga til nýrra samninga? Þá er ég ekki að meina dálkahöfundana eða fréttahaukana.
Heldur stjórnmálamennina?
Hitt er svo það að kannski leiðir þetta mál af sér hugarfarsbreytingu og jafnvel stóra tilfærslu í lýðræðinu. Ég held að tími "átakastjórnmála" sem flokkar heyja sé að verða liðinn. Það sést held ég best í sveiflum á skoðanakönnunum að undanförnu að "hirðir" flokka og skoðana eru færri og stöðugt fleiri einstaklingar lesa stjórnmál út frá sínum eigin hagsmunum.
Það hillir undir það að þjóðin neiti að staðfesta lög Alþingis í fyrsta sinn. Þar færi sögulegur viðburður sem hlýtur að leiða til þess að málskotsréttur forsetans hefur sannað sig og því fullkomlega ljóst að hann er ekki hægt að fjarlægja úr stjórnarskrá nema að svipað skýr kostur liggi til grundvallar þess að almenningur fái að stöðva Alþingi Íslendinga ef þeim finnst þingið ekki vinna samkvæmt sínum hagsmunum.
Mér finnst þessi bylgja vera að fara í gang og gaman væri að heyra hvort fleiri finna þetta. Ég vill ekki meina það að þetta komi til vegna vantrausts á flokkana eða þingmennina beint, heldur það að fólki finnst því nú best komið með að fá beina leið að ákvörðunum þjóðarinnar og þarmeð völdunum.
Ég er ekki viss um að stjórnmálamennirnir okkar séu að skynja þetta, enda kannski ekki rétt hjá mér, því að mér finnast enn ansi margir stjórnmálamenn, ekki síst leiðtogarnir, tala út frá því að flokkar tali sem ein heild í þessu máli og allir séu sammála um hagsmuni landsins í flokkunum.
Ekkert gæti verið fjarri sannleikanum. Ég er sannfærður að þjóðaratkvæðagreiðslan verður ekki á flokkslínum og mér fannst satt að segja skrýtið að heyra Bjarna Benediktsson biðla til Sjálfstæðismanna að fella lögin í þjóðaratkvæðagreiðslunni. Er bara alls ekki viss að það verði honum eða málstað hans til góða.
Því ég held að við séum að finna hinn sameiginlega tón, þ.e. Íslendingar. Sá tónn er að nú vill hinn almenni borgari fá sterkari rödd við stjórn þjóðarinnar og það verður ekki aftur snúið ef að lögin verða felld.
Með því hefur almenningur tekið fram fyrir hendur starfandi þings og slík skilaboð munu berast um alla heimsbyggðina. Stjórnmálaflokkar geta þá ekki eignað sér heiður eða óheiður, það verður ekki kosið um annað en vinnubrögð þingsins okkar.
Og það mun valda straumhvörfum í íslenskum stjórnmálum!
Ekki einhliða innanríkismál | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Hvers vegna ekki fleiri?
9.1.2010 | 16:09
Þær kröfur sem verið er að hamra á núna eru þær sömu og heyrðust í búsáhaldabyltingunni.
Leiðrétting lána, gagnsæji í stjórnsýslunni og afnám verðtryggingar.
Ég verð að viðurkenna það að það kemur mér á óvart ef að búsáhaldabyltingin snerist um það eitt að skipta um ríkisstjórn og seðlabankastjóra. Var viss um að umræða um réttlátara samfélag og breytingar fyrir hinn almenna borgara væri grunntónninn.
Vonandi tekst að vinna að þeim málum, því ég held að allt samfélagið sé sammála um að slíkar aðgerðir eru fyrir löngu tímabærar...
Enn mótmælt á Austurvelli | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
Jákvæð teikn!
7.1.2010 | 12:44
Svona vona ég að framhaldið verði.
Nefndarmenn séu nú komnir við borðið til að vinna að hagsmunum okkar. Að mínu mati þurfum við ekki stöðugan fréttaflutning og vona að þeir vinni nú bara vinnuna sína inni bak við lokaðar dyr.
Það veit öll þjóðin hvað þeir eru ósammála um og satt að segja held ég að kominn sé tími á að menn finni nú eitthvað til að vera sammála um og hætti í bili að tala um annað.
Meira svona takk!
Árni Þór: Staðan þung | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Stillingu...
6.1.2010 | 21:37
takk!
Steingrímur fannst mér koma ágætlega út úr Kastljósviðtalinu, var stilltur og yfirvegaður að venju og útskýrði sína hlið og upplifun á máli sem ég ætla helst að tjá mig lítið um meir.
En ég skora á alla stjórnmálamenn að fara nú fram af stillingu og með þjóðarheill í fyrirrúmi. Mér fannst Bjarni Benediktsson gefa boltann upp í gær, heyrðist Össur hljóma svipað í útvarpinu í dag og Kristján Þór svo í RÚV-fréttunum.
Sem er gott, því maður hreinlega hrekkur við munnsöfnuðinn og háreystina sem hljómar á bloggsvæðum, í innhringingum útvarpsstöðvanna og statusum á fésbókinni. Miðað við það sem hljómaði í skoðanakönnun Gallup virðist þjóðin skiptast svipað og á Alþingi og slík staða kallar á sérstaka áherslu á yfirvegun og stillingu í umræðunni.
Þjóðin okkar býr við mikinn vanda í efnahagsmálum sínum og því miður er stundum einblínt á niðurrif og alið á vantrausti í allra garð. Ég vill ekki trúa því að nokkur stjórnmálamaður hugsi um annað en að taka starf sitt sem verndari og/eða handleiðari þjóðar sinnar alvarlega og því hljóta þeir að sjá að öllu máli skiptir að þjóðin geti unnið saman í landinu bæði nú og á eftir þjóðaratkvæðagreiðslu, óháð niðurstöðu.
Þrjúhundruðþúsund manna þjóð á eyju norður í Atlantshafi þarfnast hvers einasta einstaklings, og þess að hver og einn taki á öllu sem honum/henni er megnugt í því að ná eins góðri stöðu og mögulegt er. Enginn græðir á því að hatrammar deilur valdi þeim særindum að samskipti milli fólks grói ekki um heilt, hvað þá að einhver "gefist upp" á Íslandi og þeirri stöðu sem hér er. Þó ekki væri annað en það að við hvern sem flytur burt eykst vandi okkar sem ekki ætlum að flytja neitt, en berjast áfram fyrir betri tíð í landinu.
Því skora ég á okkur öll að beita kröftum okkar í átt að því að sameina en ekki sundra. Ég er allavega staðráðinn í því og bæta þar með t.d. mína innkomu á vinnustaðinn minn frá í morgunn!
Við verðum, við verðum að leyfa öllum að vera annað hvort já-fólk eða nei-fólk í IceSave! Báðar hliðar verða fá að njóta sinnar sannfæringar og fá að velja á sínum forsendum.
Íslandi allt virkar fyrir alla Íslendinga!
Ákvörðun forsetans vonbrigði | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Samstöðustjórnmál.
5.1.2010 | 21:32
Nýjasta orðið í umræðunni og sannarlega nokkuð sem þarf að skoða allverulega.
Ég var auðvitað í vinnunni minni í dag en hef frá kl. 16 reynt að drekka í mig sem mest af upplýsingum. Jón Baldvin frændi minn auðvitað næst minni skoðun sýnist mér, allavega hvað varðar ákvörðun forsetans sem hefur nú gjörbreytt embættinu og er skyndilega valdamesti einstaklingur þjóðarinnar. Sem er einfaldlega ekki í anda þess sem verið hefur. Hvað sem nú verður.
En mér finnst allt stefna í sömu áttina, stjórnarflokkarnir sjá ekki flísarnar í augum sínum, þrátt fyrir að ljóst sé að staða stjórnarinnar er allt að því vonlaus. Manni sýnist VG loga stafna á milli og augljóst að óánægja er með þau verk sem þarf að vinna, sýnist einfaldlega það verkefni að vera í ríkisstjórn og taka ákvarðanir vera þeim ákaflega erfitt hlutskipti.
Svo hlustaði ég á stjórnarandstöðuna áðan, sérstaklega á Sigmund og Bjarna, því með allri virðingu eru Þráinn og Birgitta í tímabundinni vinnu við Austurvöll og ekki til þess fallin að leysa margt. Heyrðist Þráinn helst vilja nýjar kosningar og út af þingi. Sem er fínt fyrir hann held ég.
Bjarni og Sigmundur féllu í sömu gryfju og stjórnarmeirihlutinn, slæmar fréttir voru blaðamannafundi ríkisstjórnarinnar að kenna og nú yrði bara að leiðrétta það. Kom mér mjög á óvart að heyra Bjarna svo jákvæðan yfir viðbrögðum forsetans, það er í fullkominni andstöðu við vilja hins almenna Sjálfstæðismanns að forsetinn beiti þessu ákvæði. Það finnst mér ein stóra fréttin, samþykki hans á beitingu málskotsréttar.
Svo var klykkt út með auglýsingu um vilja fyrir "Þjóðstjórn". Sú stjórn hlýtur að þýða samstöðustjórn og nú er að sjá hvort slíkur vilji er fyrir hendi.
Ég hef allt frá hruni rætt það að íslensk stjórnmál fengu falleinkunn í hruninu og í kjölfarið, batt miklar vonir við það að skoðaðar yrðu reglur lýðræðisins og kominn væri tími á að grafa einsleitan flokksmálflutning eins og Alþingi Íslendinga hefur verið þjakað af. Núna, í janúar 2010, verður það að verða krafan.
Ísland er örþjóð í alþjóðlegu samhengi. Við verðum að horfa gaumgæfilega í kringum okkur, átta okkur á þeirri stöðu sem hrunið setti okkur í á meðal þjóða og taka alvarlega þau högg sem eru okkur veitt. Í þessum höggum hafa niðurrifsöfl innan samfélagsins vaxið og dafnað, fólk sér vandamál í öllum hornum, kvíði fyrir framtíðinni hefur aldrei verið meiri og störf löggjafarsamkundunnar hafa þar ekki verið undanþegin.
Það áfall sem á okkur dundi í október 2008 er enn að berja á landsmönnum. Í áfalli þarf þjóð að átta sig á að allir skipta máli í viðreisninni og þar verða allir að leggjast á árar. Það þarf að fara að koma að því að þeir 63 einstaklingar sem kosnir voru til að stjórna landinu taki það starf sitt enn ábyrgari og föstum tökum. Þeir eru allir í vinnu hjá Íslandi, þeir eru ekki að vinna fyrir meirihluta eða minnihluta.
Þjóðin þarf að öðlast trú á þeim einstaklingum sem þeir kusu. Þjóðarsálin var að mínu mati fönguð í skarpbeittu áramótaskaupi sem endaði á því að Páll Óskar, sérstakur saksóknari og Eva Joly leiddu þjóðina út úr vandanum.
Þeirra er ekki verkið, það eru 63 einstaklingar sem hafa fengið það verkefni að leiða landið og landsmenn alla í gengum þrengingar þær sem við höfum fengið í hausinn og á næstu dögum þarf að ráðast hvort á þingi er til þess vilji.
Ef slíkt er ekki er einfaldast að kjósa upp á nýtt og þá fyrr en seinna.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)